Í dag var birt skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um skuldaniðurfærslu verðtryggðra lána. Vonir stóðu til þess að skýrslan myndi upplýsa um það hvernig fordæmalaus millifærsla á 80,4 milljörðum króna úr ríkissjóði til hluta þjóðarinnar myndi skiptast á milli hennar. Því miður stendur skýrslan ekki alveg undir þeim væntingum, þótt hún skýri myndina aðeins.
Vert er að taka það fram að skýrslan var boðuð í desember, sem viðbragð við ítarlegri fyrirspurn þingmanns um hvernig peningarnir sem frúin í ríkissjóðar-Hamborg gaf sumum skiptust á milli þiggjenda. Frá því í byrjun maí hefur skýrslan verið í „lokafrágangi“. Miðað við útkomuna sem birt var opinberlega læðist að manni sá grunur að lokafrágangurinn hafi snúist um að fela óþægilegustu staðreyndirnar í skýrslunni. Og gera greinendum eins erfitt fyrir og hægt er að segja frá því nákvæmlega hvernig peningarnir skiptust. Miðað við fréttaflutning það sem af er degi tókst það ágætlega.
Kjarninn óskaði eftir nánari tölum á bakvið skýringarmyndirnar sem birtar eru í skýrslunni og bárust þær nú síðdegis. Í þeim er hægt að sjá hvernig þeir tugir milljarða króna sem ríkisstjórnin ákvað að gefa völdum hópi fólks skiptist eftir aldri, búsetu og tekjum í stað þess að styðjast einvörðungu við þær upplýsingar sem skýrsluhöfundar völdu að draga út úr myndunum, og birtust í skýrslunni.
Og þær tölur sýna sannarlega að kjörorð aðgerðarinnar, "sáttmáli kynslóðanna", á sér enga stoð í raunveruleikanum.
200 þúsund Íslendingar "óleiðréttir"
Að einhverju leyti eru upplýsingarnar sem koma fram í skýrslunni endurbirting á þeim upplýsingum sem birtar voru í Hörpu í nóvember. Þar segir að um 94 þúsund einstaklingar hafi átt rétt á að fá skaðabætur vegna verðbólguskotsins sem varð á Íslandi á árunum 2008 og 2009. Á þeim árum voru um 80 þúsund Íslendingar yngri en 18 ára. Ætla má að um 30 prósent þeirra barna séu börn „leiðréttra“ Íslendinga. Því má segja að sá hópur sem hafi verið „leiðréttur“ vegna verðbólguskots eftirhrunsáranna telji um 117 þúsund manns. Meðalfjöldi Íslendinga árið 2008 og 2009 var 317.413 manns. Það þýðir að rúmlega 200 þúsund Íslendingar eru „óleiðréttir“.
Af þessu má sjá að sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að gefa 80,4 milljarða króna úr ríkissjóði var ekki almenn aðgerð. Hún fór til 94 þúsund einstaklinga og barna þeirra. Hinir fengu ekkert.
Af þessu má sjá að sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að gefa 80,4 milljarða króna úr ríkissjóði var ekki almenn aðgerð. Hún fór til 94 þúsund einstaklinga og barna þeirra. Hinir fengu ekkert. Raunar er samtala þeirrar upphæðar sem skipt er niður á þiggjendur í skýrslunni einungis 70 milljarðar króna. Ekki er útskýrt sérstaklega hvað varð um hina tíu milljarðanna sem átti að gefa í leiðréttingunni.
Leiðréttingin var því ekki sáttmáli þjóðarinnar, enda fékk rúmur þriðjungur hennar fullt, en restin ekkert.
Flestir um og yfir fimmtugt
Hlutfallslega sóttu flestir um leiðréttingu sem í dag eru á aldrinum 46 til 55 ára. Meðalækkun skulda þeirra nam 1.360 þúsund krónum á hvern þeirra. Þeir sem eru yfir 56 ára fengu samtals 26,4 milljarða króna af af þeirri 70 milljarða króna upphæð sem tilgreind er í skýrslunni. Þeir sem eru yngri en 35 ára fengu 4,4 milljarða króna.
Í skýrslunni er sérstaklega tiltekið að einungis helmingur þeirra sem voru 30 ára og yngri á árunum 2008 og 2009, og voru með verðtryggð lán á árinu 2013, hafi sótt um leiðréttingu. Ástæðan sem skýrsluhöfundar gefa sér er sú að þetta fólk hafi ýmist verið nýkomið út á fasteignamarkaðinn eða hefði fengið hlutfallslega mikla lækkun skulda í fyrri úrræðum, á borð við 110 prósent leiðina eða skuldaaðlögun.
Leiðréttingin var því alls ekki sáttmáli aldurshópa, heldur að mestu millifærsla á peningum úr ríkissjóði til hinna eldri, á kostnað hinna yngri.
Mest til höfuðborgarsvæðisins
Í þeim tölum sem Kjarninn hefur undir höndum kemur í ljós að alls fara 50 milljarða króna af þeim 70 milljörðum króna sem skýrslan tilgreinir að búið sé að útdeila til Reykjavíkur (23 milljarðar króna) og á Suðvesturland (27 milljarðar króna).
Minnst fer á Vestfirði, en heildargreiðslur til þess landssvæðis eru 751 milljónir króna. Skammt á hæla þess flygir Norðvesturland með 925 milljónir króna og Vesturland með 2,7 milljarða króna. Samtals runnu því um 4,3 milljarðar króna til þessarra þriggja landssvæða.
Leiðréttingin var því ekki sáttmáli landssvæðanna, enda fékk fólk á höfuðborgarsvæðinu mun meira úr henni en fólk á landsbyggðinni. Skiptir engu hvort það er reiknað hlutfallslega eða hvort það sé miðað við krónutölu.
Um 20 milljarðar til þeirra tekjuhæstu
Það kemur líkast til fæstum lengur á óvart, en skýrslan staðfestir að hinir tekjuhæstu fengu mest út úr leiðréttingunni. Alls fékk tekjuhæsti hópurinn, þar sem heimilistekjur voru yfir 21,3 milljónir króna á ári, 10,4 milljarða króna úr leiðréttingunni. Sá næsttekjuhæsti fékk 9,4 milljarða króna. Samtals fengu þessir hópar (þar sem mánaðarlegar meðaltekjur eru annars vegar tæplega 1,8 milljónir króna á mánuði og hins vegar tæplega 1,2 til tæplega 1,8 milljónir króna á mánuði) 19,8 milljarða króna í leiðréttingu. Meðalupphæð leiðréttingargreiðslu var 7,6 prósent af árstekjum efsta bilsins. Til samanburðar nam heildarupphæð leiðréttingar 62 prósentum af árstekjum lægsta tekjubilsins.
Og þá er bara miðað við tekjur þeirra sem sóttu um leiðréttingu, ekki tekjur allra heimila í landinu. Þar sem tekjulægri eru mun ólíklegri til að eiga húsnæði eða tekjuhærri myndi sú tölfræði koma enn verr út fyrir stjórnvöld.
Leiðréttingin er því sannarlega ekki sáttmáli milli tekjuhópa, enda fá þeir sem eru með hærri tekjur, miklu hærri upphæð í sinn hlut en þeir sem eru með lægri tekjur.
Fólk sem á yfir 100 milljónir fær leiðréttingu
Engar upplýsingar eru um eignarstöðu þeirra sem fá leiðréttingu í skýrslunni. Þar má hins vegar sjá að tæpur þriðjungur þeirra heimila sem fengu gefins fé úr ríkissjóði skuldaði undir tíu milljónum króna. Það telst vart skuldavandi að skulda slíka upphæð í húsnæði í samfélagi þar meðalverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu var 34,7 milljónir króna í mars síðastliðnum.
Það eina sem kemur fram um eignarstöðu þiggjenda er sú að alls hafi 1.250 manns sem greiddu auðlegðarskatt árið 2013 höfuðstólslækkun. Til að borga auðlegðarskatt, sem nú hefur verið aflagður, þurftu hjón að eiga meira en 100 milljónir króna í hreinni eign (einstaklingur þurfi að eiga 75 milljónir króna). Alls fékk þessi stóreignarhópur, sem er um fjórðungur allra þeirra sem greiða auðlegðarskatt, 1,5 milljarð króna.
Þetta er svo súrrealist að það þarf að endurtaka þessa staðreynd. 1.250 manns sem eiga meira en 100 milljónir króna í hreinni eign fengu 1,5 milljarð króna gefins úr ríkissjóði vegna þess að það varð verðbólguskot á Íslandi á árunum 2008 og 2009.
Þetta er svo súrrealist að það þarf að endurtaka þessa staðreynd. 1.250 manns sem eiga meira en 100 milljónir króna í hreinni eign fengu 1,5 milljarð króna gefins úr ríkissjóði vegna þess að það varð verðbólguskot á Íslandi á árunum 2008 og 2009.
Til viðbótar kemur fram að þau heimili sem skulda ekki lengur verðtryggð húsnæðislán, meðal annars vegna þess að þau hafa borgað þau upp, fá svokallaðan sérstakan persónuafslátt í stað niðurfærslu á höfuðstól. Alls fær þessi hópur 5,8 milljarða króna úr ríkissjóði. Í reiðufé.
Leiðréttingin er því ekki sáttmáli milli eignahópa, þótt stóreignafólk geti vissulega gengið sátt frá borði.
Hækkandi húsnæðisverð eykur verðbólgu
Það er ríkisstjórninni, og lúsiðnum flugumönnum hennar, mjög mikilvægt að selja þá hugmynd út á við að leiðréttingin sé ekki verðbólguvaldandi. Í skýrslunni segir: „Aðgerðirnar virðast ekki hafa haft áhrif á verðbólgu til skamms tíma né verðbólguvæntingar [...]Þau neikvæðu áhrif sem búið var að spá vegna skuldalækkunarinnar hafa því ekki komið fram en í öllu falli hefði verið erfitt að greina þau frá ýmsum öðrum breytingum svo sem áhrifum af nýgerðum kjarasamningum.“
Þessi fullyrðing er ekki studd neinum dæmum, öðru en því að bent er á að verðbólga sé lág um þessar mundir. Og það er vissulega rétt, en lág verðbólga hefur ekkert með leiðréttinguna að gera. Hún er fyrst og síðast tilkomin vegna þess að olíuverð hefur lækkað gríðarlega. Það verður meðal annars til þess að allur innflutningur, neysla og samgöngur lækka í verði. Það vinnur gegn verðbólgu. Eini liður neysluvísitölunar sem hefur hækkað er húsnæðisliðurinn, sem mælir hækkun á fasteignaverði.
Það er ekki hægt að fullyrða að leiðréttingin hafi hækkað húsnæðisverð, og sannarlega ekki að hún ein geri það það, en það er mjög líklegt að leiðréttingin sé þar stór breyta og flestir greiningaraðilar eru sammála um að svo sé. Til að rökstyðja þau líkindi er hægt að benda á að fasteignaverð hækkaði um 7,5 prósent frá desember 2013 til nóvember 2014, árið áður en leiðréttingarútfærslan var kynnt. Frá nóvember 2014 og fram í mars á þessu ári hækkaði fasteignaverð um 3,2 prósent. Það eru ekki til tölur fyrir apríl, maí og júní þar sem verkföll opinbera starfsmanna hefur komið í veg fyrir þinglýsingar á kaupsamningum. En ef sú hækkun sem átti sér stað frá því að leiðréttingin var kynnt og fram í mars heldur áfram út árið mun húsnæðisverð hafa hækkað um tólf prósent fyrsta árið eftir leiðréttingu.
Leiðréttingin eykur veðrými fólks í húsnæði og þá getur fólk keypt dýrari eignir. Þá hækkar fasteignaverð og þá hækkar verðbólga.
Sáttmáli kjósenda og þeirra sem keyptu sig til valda
Hærra fasteignaverð leiðir síðan til þess að leiga hækkar og erfiðara verður fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markaðinn. Í þeim hópi sem leigir eða á ekki húsnæði eru að mestu ungt fólk, aldraðir, öryrkjar og láglaunafólk. Í raun allur sá hópur sem fær ekkert út úr leiðréttingarlottóinu annað en meiri kostnað við að draga lífið fram.
Eini sáttmálinn sem felst í leiðréttingunni er því á milli stjórnmálamanna sem lofuðu að gefa fólki beinharða peninga fyrir að kjósa sig til valda, og þeirra sem illu heilli féllu fyrir því óréttlátasta gylliboði Íslandssögunnar.
Og skýrslan sem birt var í dag er bara enn ein staðfesting á því.