Á þriðjudag birtist forsíðufrétt á Fréttablaðinu þar sem sagt var að verðtryggð húsnæðislán, sem eru rétt um 1.200 milljarðar króna, myndi hækka mikið vegna verðbólgu sem kjarasamningar gætu leyst úr læðingi. Þar var rætt við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, sem sagði að verðbólga muni éta upp skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar.
Í fréttinni var haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra, og guðföður Leiðréttingarinnar, að því meiri sem verðbólgan yrði, því meira myndi muna um að skuldaniðurfellingin hefði átt sér stað. Fáir skildu þessa skýringu og því var ráðist í það næstu daga að útskýra hana.
Tveir hirðmenn forsætisráðherra skrifuðu greinar í þeim tilgangi og reyndu sömuleiðis að leiðrétta þann misskilningi að verðbólgan éti upp Leiðréttinguna.
Fyrst skrifaði Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, grein á bloggsóðu sína þar sem hann sagði að verðbólga hækki það sem búið sé að taka í burtu. „Sá hluti lána sem búið er að færa niður bætist ekki á aftur. Því er það rangt að tala um að verðbólga éti upp leiðréttinguna. Ávinningurinn af leiðréttingunni heldur gildi sínu.“
Tveimur dögum síðar birtist grein eftir Sigurð Má Jónsson, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, þar sem hann segir það alrangt að verðbólga éti upp skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar. „Þvert á móti, það munar enn meira um Leiðréttinguna eftir því sem verðbólgan er hærri“.
Í Bakherberginu hafa menn klórað sér fast í hausnum yfir þessum fullyrðingum. Vissulega er það svo að aukin verðbólga sem gæti komið til vegna gerð kjarasamninga mun ekki eyða þeim 80 milljörðum króna sem sumir með verðtryggð lán fengu gefist úr ríkissjóði.
En Leiðréttingin sjálf skapar verðbólgu sem hækkar lán þeirra sem fengu gefins pening, og reyndar allra hinna líka, sem eru með verðtryggðar skuldir en fengu ekkert. Um þetta eru allir greiningaraðilar sammála að sé þegar farið að gerast, óháð því hvort kjarasamningar losi um verðbólgudrauginn. Það er búið að pissa í skóinn og tímabundna vellíðunartilfinningin sem heitt hlandið skapaði entist skammt. Eftir stendur hópur fólks í hlandblautum skóm með hækkandi lán vegna Leiðréttingarinnar. Miðað við mælingar á fylgi Framsóknarflokksins eftir að Leiðréttingunni var hrint í framkvæmd þá er hópurinn sem fékk hana ekkert sérlega ánægður með niðurstöðuna.