Þegar ríkisstjórnir þegja

Dagbjört Hákonardóttir segir það áhyggjuefni að líklega sé mikið ósætti innan ríkisstjórnarinnar um næstu skref í sóttvarnaraðgerðum.

Auglýsing

Fólk sem velur sér stjórnmál sem starfsvettvang hefur það að atvinnu sinni að hafa skoðanir á málefnum sem varða frelsi og hagsmuni almennings. Eftir því sem ábyrgð þessa fólks eykst eiga kjósendur þeim mun meira tilkall til þess að stjórnmálafólk lýsi afstöðu sinni til einstakra stjórnvaldsathafna – ekki síst þegar það stendur á bak við þær. Gott dæmi um slíkt er þegar stjórnvöld ákveða að svipta fólk frelsi sínu í nokkra daga án þess að hafa fyrir því lagastoð. 

Ekki ganga að traustinu vísu

Ríkisstjórnin getur ekki gengið að því vísu að almenningur taki valdboðum þeirra í þágu sóttvarna vel ef ríkisstjórnin ætlar að stytta sér leið að þeirri ákvörðun að skerða frelsi einstaklinga sem koma til landsins með litlum fyrirvara, þótt um hóflegan tíma sé að ræða, án nokkurra undanþága. Hér skiptir engu þótt málefnalegar og lögmætar ástæður búi að baki aðgerðunum sem byggjast á faglegu mati sóttvarnarlæknis. Verra er að almenningur getur ekki gert sér fyllilega grein fyrir því hvað kjörnum fulltrúum finnst um málið.

Þverpólitísk sátt um sóttvarnir – að minnsta kosti út á við

Flest getum við verið sammála um að samfélagssátt um hiklausar og afgerandi aðgerðir hafi vegið þyngst í að skila okkur þeim árangri sem við höfum til þessa notið góðs af í formi tiltölulega óhefts samfélags, þótt einhverjum þyki orðið nóg um. Þessi sátt hefur fram til þessa verið þverpólitísk og ríkisstjórnin hefur alla jafna talað einu máli. Einstaka þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa reyndar sett sig upp á móti sóttvarnarreglum og ráðherrar orðið uppvísir að því að brjóta þær. Þá liggur fyrir að efnahagsleg sjónarmið frekar en heilbrigðissjónarmið lágu að baki ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um tilslakanir á landamærum síðasta sumar. Á heildina litið hefur ríkisstjórnin þrátt fyrir þessi hliðarspor sent þau skilaboð að þau treysti sóttvarnaryfirvöldum og taki mið af ráðleggingum þeirra. 

Auglýsing
 

Hvar er best að ræða tillögur að frelsissviptingum? 

Núna í mars og apríl 2021 hefur orðið afgerandi breyting á þessu. Eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð sinn þann 4. apríl sl. um að ekki hefði verið lagastoð fyrir því að skylda ætti tiltekna hópa ferðamanna til landsins í sóttkví í sérstöku sóttvarnarhúsi hefur ríkisstjórnin svo gott sem þagað um niðurstöðuna. Þá hafa hvorki fjölmiðlar né aðrir átt kost á að kynna sér gögn sem liggja að baki ákvörðun um frelsissviptinguna með samþykkt reglugerðar. Meðal þeirra eru minnisblað frá skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu til forsætisráðherra þar sem lagt var mat á lögmæti aðgerðanna á landamærunum. Vissi ríkisstjórnin að leiðangurinn að sóttvarnarhúsi væri reistur á mjög veikum grunni? Það má hafa nokkurn skilning á því að ríkisstjórnin vilji ekki afhjúpa slík gögn, séu þau á annað borð til. Í lok dags er eitt ljóst: Í nútímalegu lýðræðisríki er best að leyfa kjörnum fulltrúum að takast á um tillögur að frelsissviptingu fólks fyrir opnum tjöldum á vettvangi Alþingis þó svo það sé réttlætanleg ráðstöfun og til skamms tíma. Verra er ef sérfræðingum heilbrigðisráðuneytis er falin þessi vinna í miðju páskafríi. 

Hvernig vinnum við saman ef við vitum ekki hvað ríkisstjórninni finnst? 

Upplýsingalög gera reyndar ráð fyrir því að mikil leynd geti hvílt yfir fundargerðum sem leynd hvílir yfir auk vinnugagna, og af ágætri ástæðu – ráðherrar verða vissulega að geta rætt opinskátt um kosti og galla ákvarðana sem teknar eru í umdeildum málum á vettvangi ríkisráðs- og ríkisstjórnarfunda. Hitt er annað mál að lögin eru lágmarksreglur. Það er ekkert sem skyldar ríkisstjórnina að láta leynd hvíla yfir gögnunum, og í það minnsta eiga Íslendingar rétt á að fá viðbrögð helstu ráðamanna vegna niðurstöðu Héraðsdóms. Til að mynda hafa hvorki forsætis- og heilbrigðisráðherra gefið upp hvort undirbúningur að lagasetningu vegna aðgerðanna sé hafinn. Það heyrist ekki í ráðherrum Sjálfstæðisflokksins vegna málsins. Þegar þessi orð eru rituð 8. apríl 2021 hefur formaður Sjálfstæðisflokks ekki enn ekki tjáð sig um stöðu mála, og á samfélagsmiðlum hans eru nýjustu fregnir þær að hann hefur sáð sólblómafræjum.  

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Kastljósi í vikunni að einhugur hefði ríkt innan ríkisstjórnarinnar um reglugerð heilbrigðisráðherra um skyldudvöl í sóttvarnarhúsi. Er ríkisstjórnin ekki með þingmeirihluta fyrir því grundvallarmáli? Hvernig verður brugðist við? Staðan er líklega sú að mikið ósætti ríkir innan ríkisstjórnarinnar um næstu skref. Þetta á að valda okkur áhyggjum. 

Höfundur er lögfræðingur og skipar 3. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar