Ég var stödd á flugvellinum þann 17. desember síðastliðinn þegar allt lokaði og allar leiðir stífluðust. Anddyri Íslands fylltist af snjó - eins og hendi væri veifað varð fjöldi fólks fast í flugstöðinni, komst hvorki lönd né strönd.
Aðstæðurnar urðu erfiðar á stuttum tíma, þarna var fullt af fólki með börn, fólk sem ætlaði sér ekkert að stoppa á Íslandi og var ekki klætt til að standa í röð í 3 klukkutíma eftir töskum, aðra 3 klukkutíma eftir bíl/rútu/bílaleigubíl sem aldrei kom. Óboðlegar aðstæður.
Þarna kristallaðist á svipstundu einhæfni okkar þegar kemur að ákvörðunum í samgöngumátum og hve lítið þarf til að allt fari á hvolf, eða eins og í þessu tilviki – í skafl.
Ég veit – vetur kemur, það er lögmál, það snjóar, það er ófært – allra veðra von og allt það. En hvernig við höfum hreiðrað um okkur hér, hvaða val við höfum – eða það sem meira er, hvaða val við höfum ekki komið okkur upp, er það sem stendur uppúr!
Innviðaráðherra talar nú um að Vegagerðin þurfi að girða sig í brók – að það þurfi að moka meira. Umhverfisráðherra vill meina að mengun sem nú hvílir yfir höfuðborgarsvæðinu stafi m.a. af díselvélum strætó. Fagfólk veit að ekkert af þessum leiðum, rökum eða áherslum ráðamanna þjóðarinnar er kjarninn í lausn sem þarf.
Og nei – við erum ekki of fámenn – okkur hefur skort hugrekki til að taka ákvarðanir sem virka fyrir fleiri en þá sem reka bíla. Það þarf öflugt almenningssamgöngukerfi sem leyfir fólki að velja, sem leyfir frelsi en er ekki takmarkandi eða situr fast. Og jú – það eru fámennari bæir, norðarlega á hnettinum sem hafa valið lestir, sporvagnakerfi, eða BRT kerfi með góðum árangri.
Enn sem komið er er Leifsstöð okkar stærsta anddyri, hér segjum við velkomin til Íslands eða velkomin heim. Hvernig við síðan komumst heim, eða leyfum gestum að halda leið sinni áfram um eyjuna þarf að endurhugsa – einkabíllinn getur ekki haldið áfram að vera aðal leiðin.
Höfundur er arkitekt.