Háskóli Íslands stendur á tímamótum. Rektor verður kosinn mánudaginn 20. apríl. Sitjandi rektor hefur setið í 10 ár þ.e. frá 2005. Á þeim tíma setti skólinn sér þá frekar óraunhæfu stefnu að verða einn af 100 bestu skólum heims – og svo hvolfdi þjóðarskútunni! Sú staða sem þá myndaðist hefur verið gríðarleg áskorun fyrir háskólasamfélagið, sem sitjandi rektor og aðstoðarrektor hafa á margan hátt unnið ágætlega úr. HÍ er þó alls ekki fullkominn skóli, mjög margt þarf að bæta. Margt af því er afleiðing fjárskorts (HÍ er alvarlega undirfjármagnaður) en annað er vegna skorts á lýðræðislegri umræðu, lýðræðislegum vinnubrögðum og þeirrar þróunar að HÍ hefur verið á margan hátt fyrirtækjavæddur – litið er á menntun og fræði sem framleiðslugreinar.
Gríðarlegt álag er á starfsfólki, sem vinnur fyrir alltof lág laun, alltof lengi. Nýliðun er lítil og margt ungt fræðafólk vinnur við skólann sem stundakennarar á smánarlegum launum, með lítil réttindi og t.d. án atkvæðisréttar í rektorskjöri. Ungt öflugt fræðafólk hrökklast frá skólanum. Líklega hefur skólinn farið of geyst í útskrift doktorsnema og fjármögnun doktorsnámsins er oft ótrygg. Yfirstjórn skólans hefur verið ofurviðkvæm fyrir gagnrýni. Lítil umræða á sér stað innan skólans. Þessu þarf öllu að breyta. En hver á að breyta því?
Tveir aðilar eru til kjörs á mánudaginn. Báðir eru þeir einstaklega hæfir, en bakgrunnur þeirra er mjög ólíkur. Jón Atli Benediktsson er sitjandi aðstoðarrektor, handvalinn af sitjandi rektor til þeirra starfa 2009 , en hann var áður aðstoðarmaður rektors frá 2006. Jón hefur verið formaður gæðanefndar HÍ frá 2006 og forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnámsins síðan 2009. Jón Atli hefur því haft mörg tækifæri til að móta og bæta stjórnsýslu skólans. Jón Atli þekkir mjög vel til starfsemi HÍ og er vel kynntur. Margir sem styðja Jón Atla mæra mannskosti hans, sem eru miklir og augljósir, en á sama tíma virðist það vera fólk, sem ekki sérstaklega talar fyrir breytingum á innra starfi - er sátt við hlutina eins og þeir eru? Jón Atli hefur sagt að hann muni líklega sitja í 10 ár við að fylgja eftir stefnu sinni (þ.e. til 2025!). Þá fer nú að styttast í næsta sólmyrkva!
Hinn frambjóðandinn er Guðrún Nordal sem hefur ekki starfað við stjórnsýslu HÍ, þó hún hafi mikla reynslu af stjórnunarstörfum er tengjast rannsóknum og fræðum. Guðrún hefur sagt að hún sækist eftir kjöri til 5 ára. Guðrún er fersk, með opinn og frjóan huga og hefur önnur tækifæri til að taka til hendinni og breyta hlutum en sitjandi aðstoðarrektor. Og öllum ætti að vera ljóst að breytinga er þörf!
Það er engu batteríi, hvorki fyrirtæki, stjórnmálaflokki né háskólastofnun hollt að hafa sömu aðilana við stjórnvölinn of lengi. Vald getur spillt og dregið úr frumkvæði. Rektor hefur gríðarleg völd til að velja fólk til starfa (og hafna öðrum), stjórna skólanum og tryggja að skólinn þroskist og dafni. Háskólar um allan heim taka mjög örum breytingum um þessar mundir. Rektor þarf að geta beitt sér fyrir nauðsynlegum breytingum í samvinnu við starfsfólk og nemendur. Allt er þetta þjóðarhagur.
Ég hvet því nemendur og starfsfólk HÍ á mánudaginn, til að þakka Jóni Atla vel unnin störf, en kjósa Guðrúnu – talsmann breytinga, lýðræðislegrar umræðu og jafningjamats.
Höfundur er dósent á heilbrigðisvísindasviði HÍ.