Stúdentar! (Vonandi fyrirgefið þið mér fyrir að byrja þetta svona... ég er bara svolítið veik fyrir ávörpum í byltingarstíl). Núna á mánudaginn, þann 13. apríl, fara fram kosningar um rektor Háskóla Íslands og við eigum 30 prósent atkvæða. Slíkar kosningar hafa ekki átt sér stað síðustu 10 ár og líklegast eru önnur 10 ár í næstu kosningar. Já, ég ætla að gerast djörf og segja það: ég er mun spenntari fyrir þessum fágætu kosningum en ég var fyrir sólmyrkvanum ágæta hér um daginn.
Fyrst í stað kom það mér því í algjörlega opna skjöldu (ó, einfeldningurinn sem ég er) þegar margir samnemendur mínir tjáðu mér annarshugar að þeir hefðu lítið kynnt sér frambjóðendur og hefðu lítinn sem engan áhuga á kosningunum. Nú langar mig að koma þessu hjartansmáli frá mér með því að svara spurningunni: „hvers vegna skiptir rektorskjörið máli fyrir stúdenta?“
Við lifum í samfélagi sem mér virðist snúast á ógnarhraða í allskonar hringi, bæði góða hringi og slæma (lesendur hafa hér frelsi til að skilgreina á eigin forsendum hina góðu hringi og þá slæmu). Vindkviður undarlegra kosningaloforða blása mönnum til og frá og upplýst, lýðræðisleg umræða virðist eiga erfitt uppdráttar. Mér virðist reyndar Kári sjálfur standa glottandi, í miðju vorhretinu, með flagg sem á stendur #EINKAHAGSMUNIR.
Það eru skiptar skoðanir á stjórnmálum og stjórnmálaflokkum. Gott. Sumir trúa ekki einu sinni á lýðræðið lengur og finnst allt frekar ömurlegt. Fínt. Hvort sem við treystum núverandi samfélagsskipan eða ekki ættum við að geta verið sammála um mikilvægi þess að búa að háskóla þar sem sjálfstæði, gæði, nýsköpun og frjáls gagnrýnin hugsun eru höfð í hávegum.
Háskóli Íslands, ásamt því að vera ein af grundvallarstoðum efnahagslífsins og samfélagsins alls, er nefnilega líka samfélag út af fyrir sig. Hann er samfélag fræðimanna og nemenda sem leggja stund á ýmsar greinar. Þetta er samfélag sem þar sem þekkingar er aflað, hún er varðveitt og henni er miðlað. Í þessu samfélagi læra meðlimir hver af öðrum, vinna að sameiginlegum verkefnum og með náminu ætti (sem heimspekinemi og einlægur aðdáandi vil ég vitna í orð Páls Skúlasonar fyrrverandi rektors) „mennska okkar og menning að eflast.“
Rektor Háskóla Íslands þarf að tala máli vísinda og fræða, ekki einungis innan háskólasamfélagsins, heldur einnig og jafnvel einna helst, þarf rektor að tala til almennings. Rektorinn er leiðandi rödd Háskólans, tengiliður Háskólans og þar með stúdenta, út í samfélagið.
Sá frambjóðandi sem kjörinn verður rektor á mánudaginn á stór verkefni í vændum. Stofna þarf til samtals við ríkisstjórnina, almenning og samfélagið í heild. Það þarf að staðsetja Háskólann á þessum (bókstaflega) stormasömu tímum. Það þarf fjármagn, ákveðni, sanngirni, víðsýni og skýra stefnu í rannsóknum, kennslumálum og siðfræði Háskólans. Á mánudaginn, 13. apríl, mun háskólasamfélagið velja sér nýjan leiðtoga. Rektorskosningar skipta stúdenta máli því hvort sem við göngumst við því eða ekki erum við öll hluti af samfélaginu, því samfélagi sem fléttast við Háskólann og því samfélagi sem Háskólinn er.
Elsku stúdent, kjóstu frambjóðanda sem þú treystir til að mæta ríkisstjórninni af krafti reyni hún að hækka innritunargjöld enn frekar eða skera niður til Háskólans. Kjóstu frambjóðanda sem þú treystir til að standa við bakið á stúdentum í baráttu okkar um hærri grunnframfærslu LÍN. Kjóstu frambjóðanda sem þú treystir til að efla kennslu, stuðla að nýsköpun og bæta gæði náms við skólann. Kjóstu frambjóðanda sem þú treystir til þess að standa vörð um og efla þá grundvallarstoð samfélagsins sem Háskóli Íslands er.
Það er hægt að fara út í miklar umræður um stöðu háskóla, hvert þeir stefna og hvernig hlutverk þeirra er að þróast í samfélagi sem stjórnast sífellt meira af óhefluðum markaðsöflum. Slík umræða er þörf og á sér nú þegar stað. Höldum henni áfram, verum virk, nýtum vægið sem okkur er gefið í þessum kosningum og kjósum rektor sem hefur hljómmikla rödd sem getur yfirgnæft öskrin í Einkahagsmunakára, rödd sem mun óma sterk í málsvari fyrir Háskóla Íslands.
Kjóstu.
Höfundur er heimspekinemi við Háskóla Íslands og tímaflakkari.