Rússar hafa sett innflutningsbann á íslensk matvæli. Ástæðan er stuðningur Íslendinga við þvinganir sem vestrænt alþjóðasamfélag hefur beitt Rússa í kjölfar þess að þeir innlimuðu Krímskaga og brutu þar gegn sjálfstæði Úkraínu.
Bandaríkjamenn tilkynntu fyrst um þvingunaraðgerðir gegn Rússum 6. mars 2014. Evrópusambandið tilkynnti um þátttöku sína í aðgerðunum 17. mars 2014. Þann 27. mars 2014 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun gegn innlimun Krímskaga. 11. apríl 2014 var svo tilkynnt um stuðning Íslands og fleiri ríkja við aðgerðir Evrópusambandsins frá 17. mars. Í byrjun júní 2014 var haldinn G-7 fundur í Brussel þar sem Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Bretland, Bandaríkin og Evrópusambandið ákváðu að styðja, og auka við, þvingunaraðgerðir. Í byrjun september 2014 var haldinn leiðtogafundur NATO í Wales þar sem bandalagið studdi aðgerðirnar gegn Rússum.
NATO ákvað síðan í desember að viðhalda viðveru bandalagsins við austur-landamæri þess. Ástæðan var sú ógn sem stafar af tilburðum Rússa í Úkraínu og víðar á áhrifasvæði ríkisins gagnvart þeim NATO-ríkjum sem eiga landamæri að óróasvæðum. Á sama tíma fordæmdu allir utanríkisráðherra NATO-ríkjanna aðgerðir Rússa í Úkraínu.
Staða Íslands í alþjóðasamfélaginu er skýr
Ísland er stofnaðili að NATO. Ríkið hefur verið hluti af Sameinuðu þjóðunum frá árinu 1946. Evrópa hefur alla tíð verið helsta viðskiptasvæði Íslands. Við höfum verið með nokkurs konar aukaaðild að Evrópusambandinu og innri markaði þess frá árinu 1994 í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Alls fara um 75 til 80 prósent af öllum okkar útflutningsverðmætum inn á það svæði. Umreiknað í krónur, en við fluttum út fyrir 590 milljarða króna í fyrra, er verðmiði þeirra hagsmuna 442,5 til 472 milljarðar króna. Auk þess kemur 73 prósent alls innflutnings Íslendinga frá EES-svæðinu eða Bandaríkjunum.Ísland er herlaust land með stóra landhelgi. Við þurfum að eiga í samstarfi við að verja bæði okkur og landhelgina fyrir óvinveittum og þeim sem vilja arðræna okkur. Það gerum við í gegnum ofangreint alþjóðasamstarf. Það blasir því við, og hefur gert áratugum saman, að Ísland styður við og er hluti af vestrænni samvinnu í alþjóðasamfélaginu.
Einn grundvallarhluti þess er sá að landamæri sjálfstæðra ríkja séu virt. Það þýðir að þegar ríki ræðst inn í annað ríki þá er það andstætt þeim leikreglum lýðræðis, frelsis og mannréttinda sem við og önnur bandalagsríki okkar telja grundvöll okkar lifnaðarhátta.
Þess vegna hefur stuðningur Íslands við þjóðir sem brotið er á með þessum hætti þótt sjálfsagður. Hann er siðferðislegur, til þess gerður að vernda viðskiptahagsmuni gagnvart bandalagsþjóðum okkar og síðast en ekki síst til að tryggja öryggi Íslands og íslenskrar landhelgi.
Hagsmunir einnar atvinnugreinar fram yfir alla aðra hagsmuni
Nú er svo komið, í alvöru, að ein atvinnugrein er komin langleiðina með að breyta þessari afstöðu Íslendinga. Útgerðarmenn vilja að Ísland setji þrönga skammtíma-viðskiptahagsmuni þeirra ofar en ofangreinda hagsmuni og endurskoði afstöðu sína gagnvart stuðningi við þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi. Og þeir reyna að selja þá hugmynd að þjóðarhagsmunir séu undir. Ef við beygjum okkur ekki undir vilja þeirra, seljum ekki prinsipp okkar hæstbjóðanda, þá muni allt fara til fjandans. Þetta er, vægast sagt, uppblásinn hræðsluáróður án innistæðu.Sjávarútvegur hefur hagnast ævintýralega á sama tíma og almenningur á Íslandi hefur upplifað miklar þrengingar. Þegar gengið féll um tugi prósenta rýrði það lífsgæði almennings en jók samkeppnishæfni, og arðsemi, útgerðanna. Svo synti makríll inn í íslenska landhelgi og arðsemin varð að ofurarðsemi. Þetta kom auðvitað öllum vel og hefur gert það að verkum að íslenskt efnahagslíf hefur jafnað sig fljótar en ella. En þessar aðstæður hafa líka gert örfáa einstaklinga sem treyst hefur verið fyrir sjávarauðlindinni mjög efnaða.
Sjávarútvegurinn hagnaðist um 450 milljarða króna fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta á árunum 2009 til 2014. Á þeim tíma hafa eigendur fyrirtækjanna greitt sér tugi milljarða króna í arð og eru orðnir ofurríkir á evrópskan mælikvarða. Sjávarútvegurinn er því vel í stakk búinn til að leggja nægjanlega mikið til hliðar til að takast á við tímabundin áföll eins og innflutningsbann Rússa er.
Tjónið ýkt til að auka áhrifin
Útflutningur til Rússlands hefur vissulega margfaldast á undanförnum árum. Í fyrra fluttum við út vörur fyrir 29 milljarða króna til Rússlands, þar af voru sjávarafurðir 24 milljarðar króna. Samtals nemur útflutningur til Rússlands hins vegar einungis 4,9 prósent af heildarútflutningi Íslendinga.Á fyrri hluta ársins höfðu þegar verið fluttir út um sjö milljarðar króna til Rússlands. Afar líklegt er að verðmæti þess sem flutt var út í júli og þess hluta ágústmánaðar sem liðinn var áður en bannið skall á hafi hlaupið á nokkrum milljörðum króna. Því má álykta að á bilinu tíu til 20 milljarða króna útflutningsverðmæti séu undir vegna aðgerða Rússa gegn okkur. Og er þá ekki tekið tillit til þess að hægt sé að selja þessar vörur á öðrum mörkuðum. Þær munu ekki bara eyðast. Tjónið sem útvegsfyrirtækin standa frammi fyrir er því líkast til í versta falli nokkrir milljarðar króna. Í besta falli munu þau ekki tapa neinu.
Til að setja þá tölu í samhengi er hægt að horfa á að ferðamenn, sem koma að langmestu leyti frá vestrænum ríkjum, eyddu samtals 32,4 milljörðum króna á Íslandi í júní og júlí 2015. Það er 11,1 milljarði króna meira en í sömu tveimur mánuðum árið áður. Innflæði gjaldeyris er því með besta móti sem stendur og ætti að verja þjóðarbúið fyrir miklum búsifjum.
Íslenskur sjávarútvegur ekki fórnarlamb
Fyrir þá sem mæla allt í heiminum í peningum er einnig fróðlegt að horfa á hvað þvingunaraðgerðir alþjóðasamfélagsins gegn Rússum hafa leitt af sér. Til dæmis má benda á að heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið um 58 prósent frá því að þær höfust og fram til dagsins í dag. Það hefur lækkað verð á eldsneyti umtalsvert sem leitt hefur af sér stóraukinn kaupmátt og lægri verðbólgu á Íslandi. Auðvitað spila aðrir þættir inn í þessa lækkun, en aðgerðirnar gegn Rússum skipta þar sannarlega máli.Þá má líka benda á að aðgerðirnar virka. Frá því að þær hófust hefur virði rúblu lækkað um helming gagnvart Bandaríkjadollar. Verðbólga þar hefur verið himinhá mestan tíma og efnahagur landsins er að dragast saman. Í mars var greint frá því að Rússland hefði ekki lengur efni á að borga ríkisstarfsmönnum laun.
Fórnarlömb þessara aðgerða eru því Rússar. Rússnesk stjórnvöld, og ekki síst rússneskur almenningur. Hann líður fyrir ákvarðanatöku leiðtoga síns. Fórnarlambið er ekki íslenskur sjávarútvegur sem hagnaðist um hundruði milljarða króna á fimm ára tímabili.
Þjóðarhagsmunir að standa í lappirnar
Það er augljóst hver staða Íslands á að vera í alþjóðasamfélaginu. Örríki eins og við þarf að treysta á samstarf við önnur ríki sem byggja á sama grunni á vettvangi alþjóðlegra samvinnustofnana. Slíkt samstarf þarf til að tryggja öryggi okkar, lifnaðarhætti og viðskiptahagsmuni.Nú er þrýstingur á að breyta þessari afstöðu vegna skammtímahagsmuna einnar atvinnugreinar, að mestu í eigu örfárra mjög frekra einstaklinga sem, líkt og utanríkisráðherra sagði svo ágætlega, hugsa bara um næsta ársreikning.
Það er beinlínis þjóðarhagur að standa fast á því að hvika hvergi frá stuðningi okkar við aðgerðir gegn Rússum. Sú afstaða snýst ekki bara að taka siðferðislega afstöðu með mannréttindum og fullveldi sjálfstæðra þjóða. Hún snýst ekki bara um sögulega þátttöku í vestrænu varnarsamstarfi. Hún snýst ekki bara um réttlæti. Hún snýst líka um getu okkar sem samfélags til að standa upp í hárinu á freku köllunum sem fara með auðlindina okkar og heimta að við séum til fyrir þá, frekar en að atvinnuvegur þeirra sé til fyrir okkur. Allt of oft hafa þeir fengið að öskra sitt í gegn, með stuðningi pólitískra afla. Jafnvel þótt að LÍÚ hafi skipt um nafn og sett fýldan Friðrik á hliðarlínuna fyrir blíðan og nútímalegan Kolbein þá má ekki gleyma því að sömu hagsmunir standa þarna að baki.
Við verðum að standa fast í lappirnar. Annars getum við flutt kennitölu íslenska ríkisins til SFS, hins nýja LÍÚ, líkt og forysta Sjálfstæðisflokksins virðist þegar vera búin að gera. Og um leið kvatt stöðu okkar og starf í alþjóðasamfélaginu.