Nokkuð hefur verið rætt og ritað um þjóðpeningakerfi í kjölfar birtingar skýrslu Frosta Sigurjónssonar til forsætisráðuneytisins um umbætur í peningamálum. Þó sambærilegar hugmyndir og þær sem nú eru settar fram af Frosta og Betra peningakerfi hafi verið til umfjöllunar fyrir nokkrum áratugum er hér um nýja útfærslu að ræða. Með eftirfarandi innleggi vil ég freista þess að skerpa á aðalatriðum umræðunnar.
Grundvallaratriðin
Upptaka þjóðpeningakerfis (Sovereign Money System) í stað brotaforðakerfis (Fractional Reserve Banking) felst í eftirfarandi breytingum:
- Innlánsstofnunum verði óheimilt að búa til rafræna peninga í formi óbundinna innlána.
- Rafrænir peningar verði varðveittir á reikningum í Seðlabankanum og ekki lánaðir þriðja aðila.
- Ákvarðanir um útgáfu nýrra peninga verða á höndum peningamagnsnefndar.
- Ákveði peningamagnsnefnd að búa til nýja peninga ráðstafar Alþingi þeim með fjárlögum eins og öðrum útgjöldum ríkisins. Peningamagnsnefnd hefur einnig heimild til að lána nýja peninga beint til lánastofnana ef aðstæður krefja.
Innleiðing þessara breytinga mun hafa í för með sér:
- Lækkun skulda ríkisins og einkaaðila. Hversu mikil lækkunin reynist mun m.a. velta á ákvörðunum stjórnvalda um hvort nýir peningar verði nýttir til niðurgreiðslu ríkisskulda og hversu stór hluti af nýju peningamagni fer í að fjármagna fjármálakerfið.
- Aukinn stöðugleika. Bankar hafa hag af miklu peningamagni og þannig hvata til að búa til peninga. Of hraður vöxtur peningamagns hefur magnað hagsveiflur, aukið verðbólgu og veikt gengi krónunnar. Peningamagnsnefnd hefur ekki hag af því að auka peningamagn umfram þarfir hagkerfisins og því má gera ráð fyrir að stöðugleiki muni aukast.
Það sem breytist ekki
Nokkuð hefur verið um ástæðulausar áhyggjur af afleiðingum breytinganna. Má þar nefna:
- Greiðslumiðlun. Viðskiptabankarnir munu sjá um greiðslumiðlun líkt og í dag og verða peningar því áfram aðgengilegir heimilum og fyrirtækjum á heimabönkum. Meira gegnsæi felst hins vegar í þjóðpeningakerfi þar sem bankarnir myndu innheimta þóknun fyrir greiðsluþjónustuna, en sá kostnaður er falinn í vaxtamun bankanna í núverandi brotaforðakerfi. Þá myndi öryggi greiðslumiðlunar aukast, þar sem rafeyrir er ekki lengur í formi skuldaviðurkenninga einkaaðila.
- Lánastarfsemi verður eftir sem áður á höndum bankanna og annarra sem hana stunda í dag. Hún mun fara fram með sama hætti og víða þekkist í dag, þar sem gengið er frá fjármögnun áður en lán er veitt.
- Tímaumbreyting fjármagns (maturity transformation) verður áfram hluti af lánastarfsemi. Fjármálafyrirtækjum ber að mæta kröfum um lausafjárhlutföll o.fl. sem eru hluti af regluverki EES, sem takmarkar áhættu vegna tímaumbreytingarinnar.
Útfærsluatriðin
Fagnaðarefni er hversu stór hluti athugasemda við hugmyndirnar snýr að útfærsluatriðum þjóðpeningakerfisins. Þar felast tækifæri til að taka tillit til og nýta öll sjónarmið til að styrkja enn frekar útfærslu þjóðpeningakerfisins. Helstu útfærsluatriðin eru eftirfarandi og ætti leiðarljós þeirra að vera hámarksstuðningur við efnahagslífið og stöðugleika þess.
Skipan peningamagnsnefndarinnar
Í skýrslu Frosta Sigurjónssonar var gengið út frá því að peningamagnsnefndin heyri undir Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn er í eigu ríkisins og heyrir þannig undir valdssvið ríkisstjórnar hvers tíma. Einhverjir hafa áhyggjur af því að peningamagnsnefndin geti orðið handbendi ríkisstjórnarinnar. Aðrir hafa bent á að seðlabankinn sé orðinn of valdamikill. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga að fyrirkomulag núverandi peningastefnunefndar er með þessum hætti og hefur ekki sætt mikilli gagnrýni. Þá er seðlabankinn sjálfstæður samkvæmt lögum.
Standi þó vilji til þess að mæta ofangreindum sjónarmiðum væri hægt að hafa nefndina utan seðlabankans. Unnt væri að tryggja fjölbreytt sjónarmið við ákvarðanir nefndarinnar með því að skipa nefndina t.d. fulltrúum seðlabankans, háskólanna, lánastofnana, lífeyrissjóða, launþega, atvinnurekenda og fleiri hagsmunaaðila. Krafa verði gerð um fullt gegnsæi ákvarðana nefndarinnar.
Tíðni funda peningamagnsnefndar
Til þess að kerfið sé sveigjanlegt gæti peningamagnsnefndin þurft að bregðast skjótt við breyttum aðstæðum. Fjöldi funda peningamagnsnefndarinnar yrði ákvarðaður með þetta að leiðarljósi.
Vaxtastig
Í dag eru stýrivextir helsta tæki seðlabankans við að framfylgja peningastefnu sinni. Seðlabankinn getur áfram sinnt hlutverki sem lánveitandi lánastofnana og haft áhrif á vexti með þeim hætti. Hugsanlega vilja menn gera þetta með breyttu sniði.
Peningaígildi (near money)
Hugsanlegt er að hvatar myndist fyrir fjármálastofnanir til að skapa svonefnd peningaígildi til þess að halda sem stærstum hluta peningamagnsins á efnahagsreikningi sínum. Þetta yrði t.d. gert með útgáfu ávísana á fjárfestingarreikninga (Investment accounts). Ávísanirnar gætu síðan gengið kaupum og sölum í viðskiptum með vöru og þjónustu og þannig orðið ígildi peninga. Tvennt myndi virka letjandi til slíkrar starfsemi í þjóðpeningakerfi:
- Hvorki verður til staðar innstæðutryggingakerfi eða ríkisábyrgð á slíkum peningaígildum. Fólk með slíkar eignir eiga því á hættu að tapa þeim á meðan inneignir á færslureikningum verða ávallt öruggar.
- Ríkið viðurkennir aðeins innstæður á færslureikningum sem fullnaðagreiðslur skatta. Þannig þyrftu eigendur peningaígilda að skipta þeim reglulega í færslureikninga. Í þessu samhengi má nefna að eitt form peningaígilda, svonefndir hliðargjaldmiðlar (complementary currencies), hafa þrátt fyrir töluverðar vinsældir á mörgum stöðum aðeins náð útbreiðslu sem nemur örfáum prósentum af peningamagni viðkomandi þjóðar af þessari ástæðu.
Hugsanlegt er að ofangreindir hvatar reynist ekki nægjanlegir í umhverfi hárra vaxta. Þá er unnt að gera færslureikningana vaxtaberandi til þess að draga úr þeim freistnivanda. Peningamagnsnefndin myndi ákvarða vextina og nýir peningar yrðu gefnir út til greiðslu þeirra. Vextirnir yrðu hóflegir og ávallt lægri en vextir sem bjóðast á fjárfestingarreikningum.
Niðurlag
Grundvallarbreytingar munu ávallt hafa víðtækar afleiðingar. Því er efnisleg umræða út frá sem flestum sjónarhornum mikilvæg. Rannsaka þarf mismunandi útfærslur þjóðpeningakerfis og bera saman við núverandi kerfi áður en ákvarðanir eru teknar um upptöku nýs kerfis eða að viðhalda núverandi kerfi.
Áður en lengra er haldið þarf fræðasamfélagið að framkvæma rannsóknir á þessu sviði. Hins vegar verður ávallt á hendi löggjafans að innleiða breytingarnar. Þó einn stjórnmálamaður hafi fremur öðrum tekið hugmyndir um þjóðpeningakerfi upp á arma sína hérlendis endurspegla þær enga pólitíska stefnu. Þetta eru kerfisbreytingar sem þjóna hagkerfinu og samfélagi hvers tíma. Ég vil því hvetja alla til þess að kynna sér hugmyndirnar vel og vega þær og meta út frá hagsmunum þjóðfélagsins. Núverandi kerfi er of skaðlegt til þess að búandi sé við það til framtíðar.
Höfundur er formaður Betra peningakerfis og sérfræðingur á ráðgjafarsviði KPMG. Skoðanir í greininni eru settar fram á ábyrgð höfundar.