Fyrir utan nokkur ár á þrítugsaldri, þegar ég dvaldi í erlendum stórborgum, hef ég alltaf búið í Reykjavík. Ég hef alltaf búið miðsvæðis í borginni og hér finnst mér mjög gott að vera. En ég held að mér myndi ekki þykja gott að búa hvar sem er í Reykjavík. Eftir að Covid skall á hef ég stundum – eins og fleiri býst ég við – látið mig dreyma um að flytja eitthvert út á land, í eitthvað lítið þorp þar sem allir þekkja alla og samfélagið er minna og samheldnara – og smithættan auðvitað minni. Ég hef velt þessu alvarlega fyrir mér og í framhaldi af því hef ég lagst í svolitla sjálfskoðun varðandi hvað það nákvæmlega er sem veldur því að mér líður vel í hverfinu sem ég bý í núna. Og niðurstaða mín er: Ég þarf ekki að flytja út á land til að upplifa þetta. Því ég bý þegar í þorpi.
Þorpum og borgum er stundum stillt upp sem andstæðum. En það er ekki rétt. Það er nefnilega hægt að búa í báðum á sama tíma. Þorpin í borgunum eru nefnilega það sem gerir lífið í borgum bærilegt. Hverfið sem ég bý í er eins og þorp í borginni. Og nú skal ég segja ykkur hvað ég elska við það.
Labbið sem mingl
Flest sem mig vanhagar um er í göngufæri. Ég geng í búðir, ég geng á pósthúsið, ég er nokkrar mínútur að hlaupa í Ríkið. Heilsugæslustöðin mín er í næstu götu, öll fjölskyldan er hjá sama lækninum. Ég er tvær mínútur að labba á uppáhalds skyndibitastaðinn minn. Vertarnir þar vita hvað ég heiti og hvað ég vil, ég þarf ekki einu sinni að panta. Ég geng í sund. Ég gekk með dætur mínar á leikskólann. Nú fylgi ég þeim í grunnskólann.
Ég þarf líklega ekki að telja hér upp kostina við að fara flestra ferða sinna gangandi. Sumir eru býsna augljósir, til dæmis er miklu heilsusamlegra að ganga en að keyra, bæði fyrir sál, eigin líkama og annarra því útblástur hefur bæði slæm áhrif á loftslagið og heilsu þeirra sem anda honum að sér. En svo er það sem mér finnst gleymast svolítið í umræðunni: Það er miklu skemmtilegra að labba. Því það er hundleiðinlegt að eiga bíl. Það er leiðinlegt að sitja í bíl í umferð, það er leiðinlegt að skafa rúður í snjó, en leiðinlegast af öllu hlýtur að vera að finna stæði og leggja í það. En það sem mér finnst mikilvægast við að fara allra ferða minna gangandi er að þannig hef ég kynnst mörgum í hverfinu. Ég er nefnilega alltaf að rekast á sama fólkið, sem er á svipuðum rúnti og ég. Þau fara með börnin á leikskólann eða í skólann, fara út að labba með hundana sína eða að leita að kisunum sínum, þau fara á sama kaffihús og ég (sem dætur mínar kalla „kaffihúsið okkar“). Það er bara staðreynd að gangandi kynnist maður nágrönnum sínum miklu betur.
Labbið sem vörn gegn fasisma
Við stoppum oft á róló ef veðrið er gott. Það gera aðrir foreldrar líka – og ömmur og afar – og ég er búin að kynnast fullt af fólki á hinum ýmsu rólóum hverfisins. Fólk sem á börn á öðrum leikskólum og skólum í hverfinu sem ég hefði aldrei kynnst ef ég keyrði börnin mín fram og til baka á hverjum degi. Ef mig vantaði bolla af hveiti eitthvert kvöldið þá eru margar nálægar dyr sem ég gæti bankað á. Og samkvæmt sagnfræðingnum og rithöfundinum Timothy Snyder er það að þekkja nágranna sína og spjalla við þá mikilvæg leið til að sporna við uppgangi fasisma. En skildi mig einhvern tímann vanta hveiti þá gæti ég reyndar líka hlaupið út í hverfisbúðina, sem vill svo vel til að er á þarnæsta horni.
Hverfisbúðin
Það er ekkert þorp án búðar. Hverfisbúðin okkar heitir Pétursbúð. Eigandi hennar heitir Axel. Hann veit kannski ekki hvað ég heiti en hann þekkir mig. Hann þekkir líka dætur mínar. Fyrsta ferðin sem sú yngri fékk að fara upp á eigin spýtur var út í Pétursbúð. Stundum fara þær með langa innkaupalista – af því að ég veit að starfsfólkið aðstoðar ef þær lenda í vandræðum. Ég er viss um að ef ég myndi einhverntíma gleyma pening eða fá höfnun á kortið mitt þá gæti ég fengið að skrifa hjá honum og borga bara seinna. Og það er mjög notaleg tilhugsun.
Borgin í kringum þorpið
En þótt ég geti nálgast flest sem mig vantar í hverfinu mínu þá þýðir það ekki að ég fari aldrei neitt annað. Samgöngur er mikilvægar. Og þótt ég eyði megninu af tímanum hérna á þessu tiltölulega litla frímerki þá er ég ekki bara hér. Það er nefnilega það góða við það að búa í borg, þar eru fleiri en bara eitt kaffihús, og ef ég er komin með leið á kaffihúsinu „okkar“ þá er ekki svo erfitt að komast annað. Almenningssamgöngur úr þorpinu mínu í aðra borgarhluta eru nefnilega góðar. Og það er stutt að labba út á strætóstöð.
Fjölgum þorpunum
Ef við hugsum um aðrar borgir, borgirnar sem okkur finnst skemmtilegast að heimsækja, þá eiga þær flestar þetta sameiginlegt. Þær eru ekki bara einn miðbæjarkjarni með þjónustu og svo sofandalegum úthverfum þarsem allir keyra allt og engin búð, bar eða kaffihús er í göngufæri. Berlín er sett saman af hverfum sem öll hafa sinn kjarna. París líka. Og Taipei.
Til þess að manni finnist maður tilheyra einhversstaðar þá skiptir svo miklu máli að eiga „sitt“. Sitt kaffihús, sína búð, sína sundlaug. Það skiptir máli að þekkja fólkið í kringum sig og að það þekki mann. Það skiptir máli að hafa margar dyr að banka á ef eitthvað kemur uppá. Reykjavík á að fjölga þorpunum í borginni sinni. Það þarf ekki svo mikið til – og það myndi gera hana svo miklu betri borg.
Höfundur er rithöfundur.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921.