Öll viljum við vera hamingjusöm. En fæst höfum við hugmynd um hvað skapar raunverulega hamingju í lífi okkar. Hér fyrir neðan er fjallað um þrjár algengar en hæpnar hugmyndir um hamingjuna.
Hugmynd #1: Hamingjan ræðst af aðstæðum okkar
Sonja Lyubomirsky, prófessor við Kaliforníuháskóla og þekktur fræðimaður á sviði jákvæðrar sálfræði, sagði einu sinni að við gætum ekki fundið hamingju neins staðar þar sem hún væri innra með okkur. Það virðist vissulega rökrétt. Við segjum oft: „Þegar ég fæ stöðuhækkun…“, „Þegar ég hitti loks réttu manneskjuna…“, „Þegar ég verð búinn að koma mér í gott form…, þá mun ég öðlast hamingju.“
Málið er hins vegar ekki svona einfalt. Þó að ytri þættir eins og heilsan, ástarsambönd eða starf geti vissulega haft talsverð áhrif á líf okkar, skipta þeir í raun litlu máli þegar kemur að hamingjunni sem við upplifum hvert og eitt. Fræðimenn benda á að eftirfarandi þrír þættir geti leitt til hamingjusamara lífs:
- Gleði og ánægja: Að framkvæma og njóta þess sem veitir okkur gleði og lífsfyllingu.
- Virkni, áhugi og þátttaka: Að verja tíma í það sem gefur okkur tækifæri til að nýta styrkleika okkar á jákvæðan hátt.
- Merking og tilgangur: Að finna leiðir til að gefa af sér, gera gagn og vera einhvers virði.
Þetta hljómar einfalt, er það ekki? Og það er einmitt málið. Það sem skapar mestu hamingjuna er oft svo einfalt. Gott er að leita að tækifærum til að skapa meiri ánægju, virkni og merkingu í lífi sínu, t.d. með því að:
- hugleiða fortíðina. Manstu eftir aðstæðum þar sem þú upplifðir sérlega mikla ánægju? Hvað varstu að gera? Leitaðu að tækifærum til að upplifa fleiri slíkar stundir.
- einbeita sér að núinu: Staldraðu við það sem þú ert að gera og njóttu upplifunarinnar. Kannski er málið að draga djúpt andann. Eða skoða myndir af vel heppnaðri bústaðarferð. Kannski er það rjúkandi tebolli. Það skiptir ekki máli hvað þú velur, svo lengi sem þú nýtur þess.
- sjá fyrir sér framtíðina: Hvernig viltu verða minnst í lok lífs þíns? Hvaða lærdóm og gjafir viltu skilja eftir sem arfleifð þína? Hvað geturðu gert í dag til að auka líkurnar á því að þín verði minnst með þessum hætti?
Hugmynd #2 Hamingjan minnkar með aldrinum
Louise Hay, sem er oft kölluð móðir sjálfshjálparbóka, sagði að hver aldur væri fullkominn og hvert ár sérstakt og dýrmætt af því að maður lifði það bara einu sinni.
Ástæðan er að eftir því sem við eldumst leggjum við meiri áherslu á þroskandi sambönd og upplifanir auk þess sem við varðveitum og njótum gleðistunda og finnum fyrir þakklæti fyrir allt það stóra og smáa sem lífið hefur fært okkur.
Gott er að læra af þeim sem eldri eru, m.a. með því að breyta sjónarhorni sínu. Spurðu þig t.d.:
- Hvaða sambönd skipta mig mestu máli? Hvernig get ég dýpkað tengslin?
- Hvaða athafnir gefa mér mestan tilgang? Hvernig get ég fjárfest meira í þessum atriðum?
- Hvaða upplifanir veita mér mesta ánægju? Hvernig get ég skapað meira rými til að njóta þeirra?
- Fyrir hvað er ég þakklát(ur)?
Hugmynd #3 Það er til ein uppskrift að hamingjunni
Að sögn Sonju Lyubomirsky hefur hamingjan mörg andlit; hún getur verið einstaklingur sem er ákaflega forvitinn og áhugasamur um námið sitt. Hún getur verið einstaklingur sem á auðvelt með að greina á milli þess sem skiptir máli og þess sem skiptir ekki máli eða foreldri sem hlakkar á hverju kvöldi til að lesa fyrir barnið sitt. Sumir þeirra sem eru hamingjusamir virka mjög glaðlegir eða líta út fyrir að hafa fundið hugarró á meðan aðrir eru einfaldlega önnum kafnir. Með öðrum orðum, við höfum öll möguleika á að vera hamingjusöm, hvert á sinn hátt.
Þó að ýmsir þættir geti stuðlað að hamingju er sannleikurinn sá að það er engin ein leið eða uppskrift til að rækta hamingjuna. Þess vegna er gott að búa sér til sína eigin uppskrift og velta fyrir sér spurningum eins og:
- Ég upplifa mestu hamingjuna þegar ég er _____________________, _________________ og _____________________.
- Þegar kemur að hamingju minni mun ég einbeita mér að því að verja meiri orku og tíma í ___________________________________ og minni tíma og orku i _____________________.
- Það sem ég mun gera í dag til að rækta hamingjuna í lífi mínu er _______________________.
Greinarhöfundur er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði.