Háskóli Íslands. Fræðastofnun, menntunarmiðstöð, samfélag. Margrödduð stofnun sem almenningur og Alþingi getur leitað til þegar hefja á upplýsta umræðu. Ein af stoðum og styttum menningarinnar og lýðræðisins. Já, þetta eru vissulega stór orð, en það er einmitt við slíkar stofnanir sem stór orð eiga við og það er innan þeirra sem slík orð öðlast merkingu. Þeir sem stunda nám við skólann, hafa stundað nám við skólann og þeir sem ætla sér að stunda nám við skólann, öll vitum við hvað er í húfi þegar um er að ræða framtíð Háskóla Íslands. Og framtíðin, hún veltur að miklu leyti á verðandi rektor, stefnu hans og sannfæringarkrafti.
Framtíð Haskólans
Baráttan um sæti rektors er á hápunkti þessa daga. Fyrri umferð kosninga er búin og nú standa eftir Guðrún Nordal og Jón Atli Benediktson. Stúdentar eiga atkvæði, og þar af leiðandi rödd. Í fyrri umferð mældist kjörsókn nemenda 40,24%, þar af voru 36% allra kvenkynsnemenda sem kusu og allra 42% karlkynsnemenda. Framtíð Háskólans skiptir fleiri en 40,24% stúdenta máli. Það er staðreynd. Á sama tíma og við viljum hvetja samnemendur okkar til að nýta kosningaréttinn, á mánudaginn þann 20. apríl næstkomandi, langar okkur að koma eftirfarandi á framfæri:
Við viljum sjá breytingar við Háskóla Íslands. Við viljum að Háskóli Íslands öðlist leiðandi rödd sem nær eyru almennings og stjórnvalda. (Við viljum líka fá Hámu upp á Þjóðarbókhlöðu, en það er annað mál...!!). Við viljum ferskan en traustan háskóla sem er stjórnað af manneskju sem við getum treyst og leitað til.
Guðrún Nordal hefur framtíðarsýn sem felur í sér breytingar. Hún hristir upp í öllu starfi sem hún kemur nálægt. Guðrún hrífur fólk með sér, fær fólk með ólíkar skoðanir til að vinna saman, hlustar og virðir skoðanir annarra. Guðrún er lausnamiðuð og sanngjörn. Alltaf.
Menntun er einn dýrmætasti auður samfélagsins, það þarf að stofna til sáttmála við þjóðina um varðveislu og eflingu hennar. Við vitum fyrir víst að Guðrún Nordal er manneskjan sem getur tengt saman ólík viðhorf á uppbyggjandi hátt og sannfært alla um mikilvægi þess að Háskóli Íslands fái það fjármagn sem hann þarf á að halda.
Drífandi leiðtogi
Guðrún Nordal er virtur fræðimaður hér heima og á alþjóðavettvangi, hún er drífandi leiðtogi sem hefur sannað sig sem forstöðumaður Árnastofnunnar og formaður Vísinda- og tækniráðs. Hún er sanngjörn, einlæg og vill halda stjórnsýslu skólans lifandi þar sem stúdentar eiga að hafa mikið að segja. Guðrún Nordal er sú manneskja sem við viljum að leiði Háskóla Íslands inn í framtíð hinna endalausu möguleika.
Kæru samnemendur, tökum ábyrgð á þessari framtíð, okkar eigin framtíð, og kjósum. Það tekur ekki nema þrjú klikk inn í Uglunni.
Höfundar eru nemendur í Háskóla Íslands í heimspeki og lögfræði.