„Ísland er ónýtt,‟ segja margir. Ónýtt barasta.
„Ísland var frábært,‟ segja þau. „Eða ég hélt það. En svo áttaði ég mig á því að það var ekki svo frábært. Og nú er ég reiður, en ég ætla ekki að gera neitt í því.‟
Það var ekki ég sem eyðilagði Ísland. Það voru pólitíkusarnir, það voru gagnlausu fjölmiðlarnir og bankafólkið. Í okkar huga eyðilagði ekkert okkar Ísland. Í huga Davíðs Oddssonar sem birtist okkur reglulega í mogganum eyðilagði Jón Ásgeir Ísland og í huga Jón Ásgeirs (sem birtist okkur að einhverju leyti í Fréttablaðinu) eyðilagði Davíð Oddsson Ísland. Þessir menn eyðilögðu vissulega Ísland, ef við gerum ráð fyrir því að Ísland sé eyðilagt, en kannski er það of einföld og þægileg söguskýring fyrir okkur tvo.
Hver Íslendingur ber sína ábyrgð. Í lýðræðissamfélagi ber kjósandinn ábyrgð á þeim pólitíkusum sem hann kýs, og ef pólitíkusarnir neita í sífellu að segja af sér fyrir afglöp sin eða komast upp með alls kyns spillingu þá er það kjósandans að refsa honum. Á Íslandi berum við enn meiri ábyrgð en í venjulegu lýðræði, við erum sem einstaklingar hlutfallslega stærri partur af þjóðinni. (Vinir okkar og kunningjar ná oft upp í heila prósentutölu, liggur við).
Það er kannski kominn tími til að við veltum því fyrir okkur hver ábyrgð hins venjulega Íslendings er í þessum hörmungum öllum saman. (Ég er í sjálfu sér ekki bara að tala um hrunið og gerspillta einkavæðingu, ósanngjarnt kvótakerfi, svívirðilega lélega stjórnsýslu, heldur bara allt saman). Við erum óhemju ginnkeypt og meðvirk upp til hópa. Mörg okkar firra sig ábyrgð með því að taka ekki þátt og ætlast til þess að samfélagið lagi sig sjálft. (Það mun ekki gera það að sjálfsögðu). Við réttlætum það með:
Af því það virkar ekki! Við kjósum hægri vinstri upp og niður norðnorðvestur, og sama hvernig fer er okkur riðið í andlitið. Sama hver „vinnur“ þá töpum við. Við erum pískaðir þrælar valdastéttarinnar og fáum öðru hvoru að velja hver heldur á svipunni. Einn af hverjum tíu treysta æðsta lögjafarvaldi landsins. Hvernig endar þetta?
Og svo klykkjum við út:
Feisum það bara: Ísland er ónýtt.
Þetta er skiljanleg gremja. En það er engin áhætta fólgin í gremju. Það er miklu hættulegra að vona og vilja bæta, taka slaginn. Auðvitað fáum við ekki nýja stjórnarskrá með hálfvolgum stuðningi, við fáum heldur aldrei sanngjarnt kvótakerfi eða almennilega banka nema við tökum slaginn við afar valdamikið fólk. Það verður aldrei auðveldur slagur, hann verður aldrei bara í pistlum eða á samfélagsmiðlum. Hann gerist með borgaralegri óhlýðni, með því að koma valdhöfum frá valdi og með því að færa erfiðar fórnir.
Það er athyglisverð staðreynd að við sem þjóð höfum aldrei kosið stjórn sem var ekki með Sjálfstæðisflokk og Framsókn og hafði traustan meirihluta. (Allar undantekningar hafa ávallt verið með tæpan meirihluta og lítinn þjóðarstuðning). Í hverjum kosningum eru möguleikar á að kjósa einhverja nýja flokka, taka sjénsinn á ókunnu fólki og reyna á það, en sem þjóð tökum við aldrei þann sjéns. Óháðir og gagnrýnir fjölmiðlar rísa upp og finna engan rekstrargrundvöll. Jafnvel á þeim tíma sem Bónus var í eigu Jón Ásgeirs og hann var jafnframt hataðasti maður landsins verslaði öll þjóðin þar. Við tókum heimskuleg lán, og gleyptum við fáránlegum lygum um íslenska yfirburði í efnahagslífinu. Við trúum ennþá mörgum lygum um okkar sögu og okkar land, en hver ber ábyrgð á því? Eru það pólitíkusarnir eða við sjálf?
Við berum heilmikla ábyrgð, jafnvel þótt við persónulega kjósum ekki ríkistjórnarflokkana þá berum við ábyrgð á hegðun þeirra. Því að ef mikið liggur við, og ef við erum raunverulega sannfærð um að þeir séu að eyðileggja Ísland, þá ber okkur skylda til að koma þeim frá.
Maður á aldrei að bera neinn saman við nasista, jafnvel ekki þjóðrembingslega lygalaupa eins og þá sem sitja nú við stjórnvölinn, en það er besta dæmið sem mér dettur í hug. Hver bar ábyrgð á nasismanum? Hitler og fylgjendur hans að sjálfsögðu, þar næst komu kjósendur hans, vopnasalar og áhrifamenn úr viðskiptalífinu, eflaust má tína fleiri ábyrgðaraðila til en að lokum komum við að venjulega þýska borgaranum. Ber honum siðferðisleg skylda til að koma í veg fyrir óhæfuverkin sem ógna landinu sem hann býr í? Ég myndi svara já við þeirri spurningu, þótt ég hafi samúð með öllum þeim sem leggja ekki út í svona erfiðan bardaga. Sjálfur er ég efins um að ég hefði skotið skjólhúsi yfir gyðinga og sígauna, eða tekið sjénsinn á að dreifa áróðursritum gegn stjórnvöldum. (En við getum verið sammála um að við ættum að reyna að vera hugrökk og taka siðferðislega erfiðar ákvarðanir, ekki satt?)
Sem betur fer blasir ekki svona erfiður bardagi við íslenskum borgurum. Telji þeir að eitthvað sé að eyðileggja landið þeirra geta þeir bara einfaldlega farið út á Austurvöll (í góðu jafnt sem slæmu veðri) og byrjað að mótmæla. Það er pínu vandræðalegt í fyrstu en með tímanum gæti fámenn mótmælastaða orðið fjölmenn. Við höfum séð það einu sinni áður í Íslandssögunni að fólk safnist saman og komi vanhæfri og spilltri ríkisstjórn frá.
Er Ísland ónýtt? Ef svo er, getum við lagað það eða er langtímaplan okkar allra kannski norskur ríkisborgararéttur?
Það er of einfalt svar að segja bara fokk jú við valdafólkið og ráðherrana, þau eru þarna í okkar umboði, í okkar þögn.
Svo fokk jú Snæbjörn Brynjarsson.
Fokk jú Bragi Páll Sigurðarson.
Fokk jú venjulegi Íslendingur sem fær þig ekki upp af rassinum og út á götu til að koma vanhæfu fólki frá völdum.
Fokk jú og farðu að vona, hugsa og andmæla. Taktu áhættuna.
Pistilinn er svar við aðsendum pistli Braga Páls Sigurðarsonar sem birtist í Kjarnanum í síðustu viku. Hann má lesa hér.