Jónas frá Hriflu segir að Guðjón Samúelsson hafi gert tillögu að viðbyggingu við Alþingishúsið árið 1916 sem átti að hýsa Háskóla Íslands. Í bók sinni um ævistarf Guðjóns birti hann teikningu að stóru húsi sem virðist hafa átt að standa sunnan og vestan við Alþingishúsið. Ekki kemur beinlínis fram af teikningunni að hér hafi verið um viðbyggingu við sjálft Alþingishúsið að ræða, þó það kunni vel að hafa verið ætlunin. Teikningin sýnir hús sem er bæði stærra að grunnfleti og hærra en Alþingishúsið, en með svipað þakform. Norður úr því gengur lægri bygging með flötu þaki og tengist hún öðru húsi sem er jafnhátt Alþingishúsinu. Ekki kemur fram hvort sú bygging tengist Alþingishúsinu, en af frásögn Jónasar liggur nærri að ætla að svo hafi átt að vera.
Á teikningunni sést aðeins lítill hluti Alþingishússins. Það var byggt eftir teikningu danska arkitektsins Ferdinand Meldals árið 1881. Teikningin sýnir að húsið er úr grjóti og með steinskífum á þakinu og viðbyggingin, kringlan, sem byggð var 1909 eftir teikningum danska arkitektsins Fredrik Kjörboe, er einnig úr höggnu grjóti en með koparþynnum á þakinu.
Miðað við önnur þau hús sem Guðjón teiknaði um svipað leyti virðist nokkuð augljóst að hann gerir ráð fyrir því að viðbyggingin verði úr steinsteypu en bárujárn verði á þakinu. Múrhúð jarðhæðarinnar er mótuð til að líkja á einfaldan hátt eftir húsvegg sem hlaðinn er úr grjóti. Útlit bygginganna er í anda klassískrar byggingarlistar með rómantísku ívafi eins og flestar þær byggingar sem Guðjón teiknaði á fyrsta skeiði starfsævi sinnar. Teikninguna gerði Guðjón áður en íslensk þjóðernishyggja tók að móta byggingar hans.
Eftir bæjarbrunann í Reykjavík 1914 teiknaði Guðjón stórhýsi Nathans og Olsens á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis sem byggt var 1917. Húsið fellur að danskri þjóðlegri rómantík þessa tíma og sver sig að ýmsu leyti í ætt við þekktar byggingar finnska arkitektsins Eliel Saarinen sem var frumkvöðull í þjóðlegri finnskri rómantík í byggingarlist með jugendívafi. Skömmu síðar teiknaði Guðjón endurbyggingu og stækkun Landsbankans við Austurstræti sem brann árið 1914. Upphaflega húsið var hlaðið úr höggnu grágrýti en viðbygging og stækkun Guðjóns var gerð úr steinsteypu, en mótuð þannig að ekki sáust skil milli þess upphaflega og stækkunarinnar.
Landsbankahúsið í Austurstræti.
Upp úr þessu breyttust viðfangsefni Guðjóns og hann tók að glíma við form og hefðir íslenska burstabæjarins sem hann vildi yfirfæra og móta í þeim nýju húsum sem honum var falið að teikna. Um tveimur áratugum seinna voru þær tilraunir að baki og eftir það mótaði hann hús sín að miklu leyti í anda módernisma en þó með ívafi af klassískum tilvísunum og þjóðernisrómantískum hugmyndum.
Byggingarlist Guðjóns, eins og flestra ef ekki allra arkitekta, þróaðist sem sagt á starfsævi hans og endurspeglaði samfélagið á hverjum tíma. Byggingartækni fleygði fram, ný byggingarefni komu til sögunnar og samfélagsþarfir sem kölluðu á ný hús voru síbreytilegar.
Tillaga um að leggja umrædda teikningu Guðjóns til grundvallar samkeppni milli arkitekta um viðbyggingu við Alþingishúsið er ekki góð ef taka á hana bókstaflega. Engum væri greiði gerður með því að reyna að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Teikning Guðjóns endurspeglar tíðaranda í byrjun 20. aldar og kann að hafa verið góð hugmynd sem þó kom ekki til framkvæmda. Ekki er fráleitt að ætla að ef Guðjón hefði gert aðra tillögu um tíu árum seinna, þá hefði hann reynt að móta viðbyggingu í formi burstabæjar og enn tíu árum seinna hefði hann ef til vill gert teikningu af húsi sem bar keim af módernisma en þó með klassískum mónúmentalisma í anda Sundhallar Reykjavíkur.
Í umræðu sem átt hefur sér stað um hugmynd forsætisráðherra undanfarna daga hefur verið vísað til þess að fordæmi séu um að gömul hús í miðbæ Reykjavíkur hafi verið endurreist með góðum árangri og bent hefur verið á endurbyggingu húsa við Aðalstræti og á horni Lækjargötu og Austurstræti í því samhengi.
Tillaga um að leggja umrædda teikningu Guðjóns til grundvallar samkeppni milli arkitekta um viðbyggingu við Alþingishúsið er ekki góð ef taka á hana bókstaflega. Engum væri greiði gerður með því að reyna að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.
Þarna er um alvarlegan rugling eða misskilning að ræða. Hér er vísað í dæmi þar sem gömul hús sem ýmist hafa verið vanrækt í langan tíma eða skemmst í bruna eru endurbyggð til þess að glata ekki sögulegum þáttum í umhverfi borgarinnar. Nú til dags er flestum ljóst að söguleg vídd byggðarinnar í miðborginni er mikilvægasti eiginleiki hennar. Hvert gamalt hús sem hverfur af sjónarsviðinu rýrir umhverfið og jafnvel þótt vel takist til um byggingu nýs húss í stað gamals, þá er eftirsjá af því. Nýtt hús öðlast auðvitað sögulega vídd eftir því sem tímar líða en nær aldrei sömu dýpt og húsið sem hvarf hefði haft. Hefð er fyrir því að gömul hús séu endurbætt og stækkuð þegar aðstæður leyfa og þannig getur gamla byggðin aðlagast nýjum þörfum en haldið sögulegu gildi sínu. Brunaskemmdir og tímabundin vanræksla gamalla húsa eiga alls ekki að geta réttlætt niðurrif þeirra.
Tillaga Guðjóns er auðvitað af allt öðrum toga. Hún var aðeins hugmynd sem aldrei varð að veruleika. Hún hefur þannig ekkert umhverfislegt gildi. Slíkt hús, ef byggt yrði nú, myndi villa um fyrir fólki. Þeir sem ekki þekktu til bakgrunnsins myndu vafalítið ætla að þetta væri hús frá upphafi 20. aldar sem það svo sannarlega væri ekki. Jafnvel þótt forsætisráðherra segði: „Við erum ekki að villa um fyrir fólki. Við ætlum bara að byggja eftir teikningu frá 1916 og þess vegna erum við ekki að falsa neitt“ þá yrði útkoman engu að síður hið gagnstæða. Orð hans myndu ná eyrum fárra og gleymast fljótt en byggingarnar myndu segja sína sögu og leiða menn á villigötur.
Vert er að vekja athygli á því að tvær viðbyggingar hafa þegar verið reistar við Alþingishúsið. Kringlan sem reist var 1909 hefur þegar verið nefnd. Árið 1986 var efnt til samkeppni um nýbyggingu fyrir skrifstofur Alþingis. Þá voru menn þeirrar skoðunar að ekki væri við hæfi að byggja beinlínis við Alþingishúsið. Sú tillaga sem fékk fyrstu verðlaun gerði ráð fyrir því að húsaröðin við Kirkjustræti, vestan við Alþingishúsið yrði rifin og þar risi stórt, nýtt hús sem tengdist Alþingishúsinu neðanjarðar. Um þessar mundir voru viðhorft til gömlu byggðarinnar í miðbænum að breytast og þessi tillaga kom því aldrei til framkvæmda. Í staðinn voru gömlu húsin gerð upp og tekin í notkun sem skrifstofur fyrir Alþingi.
Arkitektunum sem unnu samkeppnina 1986 var síðar falið að teikna miklu minna hús, svokallaðan þjónustuskála, sem viðbyggingu við Alþingishúsið og var hann tekinn í notkun árið 2002. Um er að ræða nútímalega, vandaða byggingu, sem sýnir Alþingishúsinu fulla virðingu og fellur áætlega að henni.
Viðbyggingar Alþingishússins eru báðar með ágætum, hvor með sínum hætti og endurspegla hvor sinn tíðaranda.
Umræðan um tillögu forsætisráðherra um tillögu Guðjóns frá 1916 gæti hins vegar orðið til þess að leiða athyglina að því hve mikilvæg bygging Alþingishúsið er og að táknrænt gildi þess er meira en flestra annarra húsa borgarinnar.
Við eigum að ljúka uppbyggingu á Alþingisreitnum í samræmi við mikilvægi staðarins. Þær byggingar sem þarna rísa þurfa að falla að sögulegu mikilvægi staðarins og samhengi byggðarinnar sem fyrir er. Ný hús þurfa að lúta ásýnd byggðarinnar sem fyrir er á svæðinu og bæta jafnframt við hana í anda okkar tíma án þess að sýna sögulegu yfirbragði staðarins hroka eða yfirgang.
Höfundur er arkitekt.