Tvær vikur eru í dag liðnar frá því að ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda var sett á stofn. Tvær vikur þar sem ekkert hefur komið frá nefndinni annað en að hún sé að skoða málin, á meðan flóttamannakrísan heldur áfram að stigmagnast.
Undanfarna daga hafa ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hins vegar fundið sér tilefni til þess að hnýta í Evrópusambandið og klykkja út með frösum um fullveldi Íslands í viðtölum þar sem rætt er um þessa risavöxnu og aðkallandi flóttamannakrísu sem nú á sér stað í heiminum.
Síðast í morgun talaði Eygló Harðardóttir um það að stjórnvöldum hugnist ekki að láta Evrópusambandið miðstýra því hversu mörgum flóttamönnum Ísland eigi að taka við. Það hversu mörgum flóttamönnum yrði tekið við yrði vera ákveðið á forsendum Íslands „sem fullvalda ríkis“. Um helgina talaði Bjarni Benediktsson um að það væri ekki boðlegt að stilla þjóðum upp við vegg með þessum hætti, íslensk stjórnvöld myndu ekki láta undan hótunum. Nálgun Evrópusambandsins væri ekki „boðleg nálgun við fullvalda þjóð.“ Í gærkvöldi talaði Gunnar Bragi Sveinsson um að Evrópusambandið gæti ekkert stillt okkur upp við vegg, Ísland muni taka ákvörðun í flóttamannamálum á eigin forsendum.
Evrópusambandið hefur vissulega gert mörg mistök og að mörgu leyti meðhöndlað þessa krísu illa. Það fer ekkert á milli mála. Það má alveg gagnrýna það eins og svo margt annað í tengslum við krísuna.
En það er ósmekklegt að notfæra sér ástandið sem ríkir til að minna á skoðanir sínar á Evrópusambandinu og fullveldi Íslands. Ekki nóg með það heldur er það líka ótrúlega langt frá því að vera aðalatriði í málinu, er eingöngu til þess fallið að drepa málinu á dreif og draga athyglina frá því sem ekki er verið að gera á Íslandi. Það velkist nefnilega enginn í vafa um skoðanir ráðherranna á Evrópusambandinu almennt eða um mikilvægi fullveldis Íslands. Þeir þreytast aldrei á að tala um skoðanir sínar, en nú er bara ekki tíminn til þess að minna á þær.
Vandinn er núna
Nú ætti nefnilega að vera tími aðgerða, ekki þess að slá einhverjar pólitískar fullveldiskeilur. Því eins og Bjarni Benediktsson sagði líka, og réttilega, í viðtölum helgarinnar er verið að fást við neyðarástand í flóttamannamálum. Það er ein hliðin á peningnum og hin er langtímastefnumótun Íslands og mögulegar breytingar á henni. Neyð er aftur á móti þess eðlis að það verður að takast á við hana núna. Svo er hægt að halda áfram að vinna í málunum til langs tíma litið.
Íslenskur almenningur hefur verið alveg skýr um það að hann vill axla sína ábyrgð og taka á móti fólki í vanda. Níutíu prósent vilja taka á móti flóttafólki. Það ætti að vera aðalatriðið í því sem íslenskir stjórnmálaleiðtogar hafa að segja þessa dagana hvað þeir ætla að gera til þess að þjóna vilja almennings og siðferðislegum skyldum sínum. Og ef þeir vilja endilega sýna fullveldi sitt og sjálfstæði í verki er það ekki best gert með tali, heldur með því að drífa í að taka þessar umtöluðu ákvarðanir og grípa til aðgerða.