1. Vertu bíll.
Fyrir bíla er rekið fullkomið niðurgreitt húsnæðiskerfi. Öllum bílum er útvegað húsnæði á jarðhæð í höfuðborginni. Leigan er niðurgreidd með almannafé.
2. Vertu búfénaður.
Mun betur er staðið að húsnæðismálum búfjjár en mannfólks á Íslandi. Ef búfénaður fer á vergang í húsnæðismálum skerst ríkisvaldið í leikinn og sér til að skepnurnar komist í skjól.
3. Vertu milljarðamæringur.
Á Íslandi er rekin manneskjuleg húsnæðispólítík fyrir milljarðamæringa. Bankar og lífeyrissjóðir í eigu almennings byggja turna við sjávarsíðuna fyrir þennan þjóðfélagshóp. Þú færð flott útsýni fyrir 200 milljónir.
4. Vertu útlendingur.
Bankar og lífeyrissjóðir í eigu almennings byggja fjölbýlishús (hótel) fyrir útlendinga á 18 mánuðum. Ef þú ert með alvöru gjaldmiðil sjá fjármálafyrirtæki um að flæma Íslenska launþega burt úr miðbænum. Þú býrð svo í húsnæði sem var ætlað þeim.
5. Vertu banki eða lífeyrissjóður.
Stjórnvöld leyfa þér að komast upp með hvað sem er í húsnæðismálum. Þú getur manipulerað markaðinn eins og þér sýnist. Stjórnvöld byggja skjaldborg um bankana, gjaldborg um heimilin og rifna tjaldborg um leigumarkaðinn. Þú getur tjakkað upp fasteignabólu á örfárra ára fresti. Stjórnvöld standa alltaf með þér. Ef bólan springur, þá hirðir þú bara húsin ofan af íbúunum og hangir á þeim fram í næstu bólu.
6. Vertu af efnafólki kominn.
Ef foreldrar þínir eru efnafólk, geta þau keypt íbúð fyrir þig.
7. Ekki vera venjulegur launþegi.
Í undirstöðu eða þjónustugreinum atvinnulífsins. Krafa launþega um 230.000.kr lágmarkslaun eftir skatt (300.000 brúttó) duga ekki fyrir húsnæðiskostnaði samkvæmt reiknivél velferðarráðuneytisins. Lágmarksframfærsla einstaklings á höfuðborgarsvæðinu er um 236.000 kr fyrir utan húsnæðiskostnað skv. sömul reiknivél.
8. Horfðu á landakortið.
Beygðu beint til hægri eftir efnahagslega undralandið úti í hafinu.
9. Farðu til Keflavíkur.
Þaðan er tveggja til þriggja stunda ferðalag til staða með boðlega húsnæðispólítík.
10. WIN.
Lausn fyrir ungt fólk í íslenskum húsnæðismálum = WOW, Icelandair, Norræna.
Höfundur er sjómaður og áhugamaður um launa- og húsnæðismál íslenskrar alþýðu.