Tónlistarnám er í eðli sínu dýrt. Það krefst hljóðfæra, sérhæfðra kennara, kennslu í tónfræðum, einkatíma og tíma með undirleikara ef vel á að vera. Því er það svo, víða um heim, að tónlistarmenntun er aðeins aðgengileg börnum ríka fólksins. Á Íslandi hefur reyndin verið önnur og tónlistarmenntun verið jafnt á færi barna bænda sem og ráðherra, í þétt- og dreifbýli. Má meðal annars þakka góðan árangur íslensks tónlistarfólks á alþjóðavettvangi þessum jöfnu tækifærum til náms. Óháð árangri fólks á alþjóðavettvangi þá er tónlistarkennsla barna mjög mikilvæg. Rannsóknir hafa sýnt að tónlistarnám styður við annað nám barna, hefur jákvæð áhrif á samhæfingu, minni og hefur auk þess forvarnargildi og veitir mikilvæga lífsfyllingu.
Langtíma stefnumörkun fyrir tónlistarnám hefur þó verið ábótavant, t.a.m. er Aðalnámskrá fyrir tónlistarskóla tuttugu ára gömul og lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla komin til ára sinna og þurfa gagngera endurskoðun.
Mætti jafnvel segja að stjórnvöld hafi sofnað á verðinum þegar kemur að því að hlúa að tónlistarmenntun og nú eru víða alltof langir biðlistar í tónlistarnám auk þess sem kostnaður við námið hefur aukist mjög, sem skapar gífurlegan ójöfnuð. Efnameiri fjölskyldur hafi frekar efni á að greiða fyrir einkatíma á meðan beðið er eftir inngöngu í opinbera tónlistarskóla og skólagjöld í þá opinberu hafa líka hækkað. Algengur kostnaður við fullt nám á grunnstigi í hljóðfæraleik er 100.000-180.000 kr. fyrir skólaárið og hefur nærri tvöfaldast á áratug.
Það er mikilvægt að tryggja að tónlistarskólar geti boðið öllum börnum tónlistarkennslu, um allt land, óháð efnahagsstöðu, uppruna þeirra, fötlun og öðrum þáttum. Kortleggja þarf biðlista um allt land sem og hlutfall nemenda í námi eftir uppruna, en hlutfall barna af erlendum uppruna í tónlistarnámi er mun lægra en í samfélaginu almennt. Tryggja þarf að upplýsingar um námið nái til innflytjenda og ráða þarf kennara sem tala önnur mál en íslensku. Þá þurfa tónlistarskólar að fá stuðning til þess að bjóða upp á nám fyrir nemendur með ólíkar þarfir, t.d. fatlaða nemendur. Þá þarf að tryggja aðgengi nemenda tónlistarskólanna á landsbyggðinni að námi á höfuðborgarsvæðinu þegar þeir fara í nám þar, með fjárstuðningi.
Tónmennt er mikilvægur þáttur í að kynna nemendur fyrir tónlist en skortur er á tónmenntakennurum, sér í lagi á landsbyggðinni. Efla þarf samstarf milli grunnskóla og tónlistarskóla, enda tónmenntakennsla oft fyrsta skref nemenda til að kynnast tónlistarnámi. Gæta þarf þess að tónmenntakennsla komi ekki í stað tónlistarkennslu, þar sem nemendur fá aðgang að sérhæfðu námi á tiltekið hljóðfæri, góða kennslu í tónfræði og tónlistarsögu og einkatíma með kennurum. Á sama tíma og tónmennt á grunnskólastigi er efld má hún ekki draga úr aðgengi barna úr öllum hópum samfélagsins að tónlistarskólum.
Ný ríkisstjórn sem tekur við í haust þarf að fara í gagngera endurskoðun á aðalnámskrá tónlistarskóla, mynda sér stefnu og gera aðgerðaráætlun til þess að takast á við fyrrnefndar áskoranir til þess að Ísland haldi stöðu sinni á heimsvísu í tónlistarmenntun barna og ungmenna.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, listfræðingur og baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks, skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands í Suðvesturkjördæmi.