Hlaðvarp (e. podcast) ætti, eitt og sér, að vera eina ástæðan fyrir því að eiga snjallsíma. Íslendingar virðast vera búnir að uppgötva þennan frábæra miðil, til að mynda hafa fréttasíður landsins tekið upp á því að búa til skemmtilega hlaðvarpsþætti.
Hlaðvarp er frábær miðill til þess að nálgast skemmtilegt og ekki síst fræðandi efni um það sem þú hefur áhuga á. Sjálfur hef ég mikinn áhuga á umhverfismálum og fór því að leita að hlaðvarpsþáttum þeim tengdum. Einn góðan veðurdag á Hornafirði (þeir eru það reyndar flestir) varð ég svo uppnuminn af snilldinni sem ómaði í eyrum mér, að ég sá mig tilneyddan til að deila þeim með öllum.
Í tilefni af degi jarðar ætla ég að deila með ykkur bestu umhverfishlaðvörpunum að mínu mati.
5. Radio Ecoshock
Í þessum þáttum talar þáttastjórnandinn Alex Smith við hina ýmsu fræðinga og aktívista á svið umhverfismála. Aðalumfjöllunarefnið í þessum þáttum er hnattræn hlýnun og niðurstöður vísindamanna í rannsóknum þeim tengdum.
4. Nature Podcast
Hlaðvarp á vegum tímaritsins Nature. Þar er fjallað um það helsta sem er í tímaritinu í hverri viku. Þarna eru einnig viðtöl við vísindamenn og fréttaskýringar frá vísindablaðamönnum um allan heim.
3. Living Planet
Þýskt umhverfishlaðvarp, örvæntið ekki, þetta er á ensku. Þátturinn hefur hlotið verðlaun fyrir umfjöllun sína. Þeir taka fyrir málefni tengd umhverfinu alls staðar að úr heiminum, bæði ógnum er steðja að því, sem og því sem vel er gert.
2. Living on Earth
Bandarískur umhverfisfréttaþáttur. Þessi þáttur bindur umfjöllun sína aðallega við málefni tengd Norður-, Mið- og Suður Ameríku en það slæðast þó oft með önnur alþjóðleg mál. Þessir þættir hafa hlotið nokkurn fjölda verðlauna.
1. Costing the Earth
BBC hið breska á heiðurinn af þessu podcasti og því besta. Töluvert er fjallað um málefni tengt umhverfismálum í Bretlandi, s.s. London sem reiðhjólaborg og baráttuna við hina framandi grá íkorna. Þeir ferðast þó einnig um heimin og segja frá aðkallandi vandmálum sem og hugsanlegum lausnum. Rétt er að geta þess að Ísland var til umfjöllunar þann 15. febrúar s.l.
Þessi listi er langt frá því að vera heilagur og ef að fólk saknar einhvers hlaðvarpsþáttar endilega tweetið, facebookið eða hreinlega gerið annan pistil. Mér þykir það mjög miður að ekkert umhverfishlaðvarp hafi verið sett á lagirnar hér á landi og skora ég á áhugasama að stofna slíkt. Það gæti þó aldrei farið svo að undirritaður geri umhverfishlaðvarp.
Höfundur er verkefnastjóri Jöklaleiðar.