Fyrsta bók Móse: „… verið frjósöm, fjölgið ykkur og uppfyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“
Í tilefni jólanna langar mig að setja umræðuefni mín í fyrri greinum hér hjá Kjarnanum í sérstakt samhengi og birta ykkur hugleiðingar frá föstudeginum langa árið 2020 sem urðu að kafla í bók minni Heimurinn eins og hann er:
„Frans páfa sá ég í Úganda fyrir nokkrum árum. Hann var á yfirreið um Afríku, lenti í Naíróbí til að fara í fátækrahverfin alræmdu (á miklu minni bíl en fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem voru með honum). Í millilendingu í Úganda ávarpaði hann okkur, sérlega sendimenn á flugvellinum og svo almenning á íþróttavellinum, til að ræða um flóttamenn sem nóg var af í landinu – margfalt fleiri en Evrópu sameinaðri hafði nokkurn tímann látið sér detta í hug að taka á móti. Flaug svo til Mið-Afríkulýðveldsins og fór rakleiðis inn í mosku í höfuðborginni að hitta múslima til að segja kristna meirihlutanum að hætta að ofsækja þá. Rauður þráður í öllu sem hann sagði var sköpunarverkið. Ég heyrði hann aldrei minnast á guð í ræðum sínum en líklega vegna þess að ég sótti ekki messurnar.
Þessi páfi reynir nú að sveigja af bókstaflegum trúnaði á sköpunarsöguna í fyrstu Mósebók:
„… verið frjósöm, fjölgið ykkur og uppfyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“
(Þetta er það sem við lærðum í Biblíusögum í barnaskóla. Þær voru sérstök námsgrein. Guðfræðingar vinir mínir segja mér reyndar núna að Mósebók sé ekki svona eindregin og önnur klausa sé mun meira í „takt við tímann“, hafi bara ekki verið hampað eins og þessari.)
Þessa gömlu guðfræði hefur páfi nú uppfært í anda tímans eins og menn fá sér nýtt stýrikerfi í snjalltæki. Í frægu umburðarbréfi frá 2015 er hann á hraðferð frá miðlægu hlutverki mannsins á jörðinni með sérstöku umboði frá guði til að deila og drottna. Maðurinn verður nú ráðsmaður í aldingarðinum til að þjóna lífinu og er stutt í það hjá bæði lúterskum og kaþólskum að maðurinn og vistkerfið séu eitt. Ekkert smáferðalag frá sköpunarsögunni og vandséð hvort allar kirkjudeildir hafi vinnsluminni fyrir nýja kerfið.
Ekki nóg með það, páfi bætir um betur í bréfi sínu og tengir græðgi og ágang við fátækt og kvöl og heldur því blákalt fram að þeir fátæku eigi jafnan rétt til lífs og hinir ríku. Hvert er ráðið? Flýtihnapparnir í nýja forritinu eru þeir sömu og fyrr: Að iðrast, biðja, taka sinnaskiptum. En svo kemur framandi sniðmát: Taka upp nýtt líf í og með sköpunarverkinu.
Þetta síðasta frá Péturskirkjunni er mjög í anda stóru ráðstefnanna sem við fylgjumst með þessi misserin og í samræmi við skýrslurnar ógnarlegu um ástand og horfur: Samsekt mannsins sem tegundar. „Við“ höfum framið glæp gegn náttúrunni.
Hver erum ,,við”?
„Við“ erum alls ekki öll á sama báti. Að segja öllum að iðrast er valdatæki þeirra sem drottna því að auðvitað er barnalegt að halda að þeir sem njóta yfirgengilegra forréttinda og aðstöðumunar taki upp á því að iðrast út af slæmu ástandi og horfum. Hvenær gerðist það síðast að forréttindastéttir í miðju bílífinu fengu bakþanka og afsöluðu sér löndum og lausum aurum í þágu fátækra?
Allar þessar greinargóðu skýrslur og áköll um nýjar leiðir komast sjaldan að þeim kjarna málsins að í heiminum geisar grimmileg valdabarátta, hernaðarleg, pólitísk, efnahagsleg og jafnvel trúarleg og siðferðisleg. Þessi barátta er ekki milli ríkra landa og fátækra, hún er stéttabarátta milli þeirra fátæku hvarvetna og hinna ríku alls staðar.
Það eina sem er sameiginlegt er tilvistarógnin. Hana eigum „við“ öll. Ráðstefnur í hásölum og ítarlegar úttektir sem sýna mannkyn sem skaðvald hafa oftast rétt fyrir sér, en líka rangt, með því að forðast kjarna málsins og búa til samsekt sem er valdatæki á sama hátt og iðrunarkrafa trúarstofnana.
Langstærsti hluti af útblæstri gróðurhúsalofttegunda kemur frá mjög litlum hluta mannkyns og langminnst frá þeim eru á vonarvöl.
„Sjötta útrýmingin“ sem árás manna á lífríkið hefur verið kölluð er svo sannarlega ekki „á ábyrgð okkar allra“ þótt eyðingaröflin herji á okkur öll.
Hvernig fórum við að þessu?
Alltaf lendum við á sömu spurningunni sem er svo ömurlega illskeytt:
Hvernig?
Þetta eina spurnarfornafn er niðurstaða ársins 2022.
Hvernig?
Hvernig förum við eiginlega að þessu?
Ég skrifaði hjá mér þennan föstudaginn langa sem páfi messaði í einrúmi vegna samkomubanns og enginn fór með honum í krossagöngu um Róm að eitt væri alveg klárt:
„Það er ekki satt, þetta sem eitt sinn á að hafa verið sagt: „Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“
Þeir vita nefnilega fullkomlega hvað þeir gjöra.“
Þessi grein er unnin upp úr kafla í bók höfundar, Heimurinn eins og hann er. Í heimildaskrá er sérstaklega getið um: Sólveig Anna Bóasdóttir. „Trú og loftslagsbreytingar.“ Ritið 1. 2016. Myndir eru úr Heimurinn eins og hann er.