Kristinn Karl Brynjarsson, situr í framkvæmdastjórn Verkalýðsfélags Sjálfstæðisflokksins.
Fyrir ekki svo löngu fór ég á námskeið í skyndihjálp. Ein setning var þar sögð oftar öðrum „Tryggið öryggi á vettvangi."
Ykkur finnst það eflaust fjarstæðukennt að ég fari nú að tala um fjárlagagerð og líkja henni við skyndihjálp. Samt er það nú þannig að skyndihjálp og fjárlagagerð eiga það sameiginlegt, að "tryggja þarf öryggi á vettvangi", áður en farið er í drastískar aðgerðir. Svo tryggja megi, að sem bestur árangur náist miðað við aðstæður.
„Að tryggja öryggi á vettvangi" við fjárlagagerð er að sýna aga í fjárlagavinnunni, forgangsraða í þágu grunnstoða þjóðfélagsins og skila hallalausum fjárlögum. Það er nær öruggt að útgjaldaþörf til þeirra málefna sem fólk er almennt sammála um að ríkið standi straum af og flokkast til grunnstoða þjóðfélagsins , mun aukast á komandi árum. Þar á ég við útgjöld til heilbrigðismála, velferðarmála, menntamála og annarra þeirra mála er snerta innviði þjóðfélagsins.
Þó það stefni í að fjölgun starfa, aukin verðmætasköpun og almenn hagsæld í landinu auki tekjur ríkissjóðs næstu ár, þurfa menn stöðugt að huga að því að „öryggis á vettvangi“ sé í hvívetna gætt í allri fjárlagavinnunni.
Vanhugsuð augnabliks eftirsókn eftir vindi getur hæglega snúið taflinu við. Gert ríkissjóði það enn erfiðara en þörf er á, að standa undir fyrirsjáanlegri útgjaldaþörf ríkissjóðs á komandi árum. Til allra þeirra málaflokka sem við öll erum sammála um að hann geri.
Halli á fjárlögum þýðir skuldasöfnun ríkissjóðs og er ávísun á að árangur kostnaðarsamra aðgerða fari fyrir lítið þegar kemur að skuldadögum.
Eins leiðinlega og það kann að hljóma, þá er það agi og ekkert annað en agi í ríkisfjármálum sem skilar okkur hvað bestum árangri inn í framtíðina.