Íslendingar rífast. Það er mjög íslenskt. Fólk hefur enda mismunandi skoðanir á því hvernig samfélag manna á að vera og í svona miklu návígi og fámenni eins og er hérlendis þá er kannski eðlilegt að meira beri á þessu endalausa karpi en í stærri samfélögum.
En hin skörpu skil sem virðast vera á milli þeirra með andstæðar skoðanir á samfélagsgerðinni virðast vera að skerpast mjög hratt.
Í Jesú og ríkisins nafni
Í desember er, líkt og venjulega, rifist um trú. Er í lagi að opinberar stofnanir sendi skólakrakka í kirkju til að hlusta á predíkanir og er boðlegt að RÚV sýni poppuðu trúarinnrætinguna Jesús og Jósefínu dulbúið sem jóladagatal? Upp rís miðaldra karlægur og sjálftitlaður meirihluti og segir já, að sjálfsögðu. Við erum kristin þjóð og þetta er okkar menning.
Þegar afstaða þjóðarinnar til trúmála eins og hún birtist í könnunum er skoðuð virðist samt fjarri vera einhugur um þessi mál. Í aldurshópnum 18 til 29 ára eru til dæmis 84 prósent hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju. Þrír af hverjum fjórum á fertugsaldri eru sama sinnis. Síðan trappast andstaðan við veru trúar á fjárlögum niður eftir því sem fólk verður eldri og hjá yfir 60 ára er einungis 42 prósent hlynnt aðskilnaði.
Afstaða til trúmála fer ekki bara eftir aldri, heldur líka stjórnmálaskoðunum. Alls eru 84 prósent kjósenda Framsóknarflokksins á móti aðskilnaði ríkis og kirkju og sex af hverjum tíu Sjálfstæðismönnum. Á meðal þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina eru hins vegar tæplega átta af hverjum tíu á þeirri skoðun að trú eigi ekkert erindi í ríkisbúskapinn.
Eldri karlar með háar tekjur og litla menntun
Raunar er kynslóðabilið mjög sýnilegt í flestum könnunum sem snúa að afstöðu til stjórnmála. Erkitýpan af þeim sem eru ánægðir með störf sitjandi ríkisstjórnar og ráðherra hennar eru eldri karlmenn, af landsbyggðinni með háar tekjur og litla menntun. Ungt og menntað fólk er hins vegar verulega ósátt. Hjá aldurshópnum 18 til 29 ára eru til dæmis átta af hverjum tíu óánægt með forsætisráðherrann Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Þeir sem kunna best að meta hann eru 50 ára og eldri.
Heilt yfir er minnst ánægja og mest óánægja með störf ráðherra ríkisstjórnarinnar á meðal fólks sem er með háskólapróf.
Bylting í neyslu og tækni skerpir bilið
Það eru ekki bara skoðanir sem aðskilja kynslóðirnar. Það er líka hegðun. Ungt fólk notar til að mynda fjölmiðla á allt annan hátt en það sem er eldra. Í nýlegum tölum frá Ofcom kemur að langmikilvægasti miðillinn í lífi fólks á aldrinum 16 til 34 ára í Bandaríkjunum er snjallsíminn. Í gegnum hann neytir þessi hópur frétta og afþreyingar. Snjallsíminn spilar hins vegar miklu minni rullu hjá eldri hópum en sjónvarpið. Og notkun hans mælist varla hjá þeim sem eru eldri en 65 ára.
Þessi öra breyting á neyslu fjölmiðlunnar er líka mjög sýnileg á Íslandi. Samkvæmt samantekt Kjarnans á sjónvarpsáhorfi landsmanna í nóvember á hverju ári, sem byggir á mælingum Capacent, hefur áhorf landsmanna á línulega dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva dregist saman um 46 prósent í aldurshópnum 12 til 49 ára frá árinu 2008. Nokkuð víst er fækkunin er mest í yngsta lagi þessa hluta þjóðarinnar.
Lestur á dagblöðum hefur líka hríðfallið undanfarin ár. Meðallestur Morgunblaðsins, stærsta áskriftarblaðs landsins, hefur minnkað um helming frá árinu 2006 og risinn Fréttablaðið hefur misst rúmlega fimmtung lesenda sinna á átta árum. Þegar horft er sérstaklega á yngri hluta þjóðarinnar, 18-49 ára, þá er lestur Morgunblaðsins kominn niður í 19 prósent (úr 33 prósent 2009) og Fréttablaðsins í 50 prósent (úr 64 prósent 2010), þrátt fyrir að vera frítt og vera sett óumbeðið í alla póstkassa sem fyrir blaðberum þess verða.
Einn Bjartur í Sumarhúsum í hverju einbýlishúsi
Ein áhugaverðasta könnunin sem gerð hefur undanfarið var á heilsuvenjum Íslendinga. Þar kom meðal annars fram að þeir sem studdu Framsóknarflokkinn væru, að eigin sögn, síður líklegri til að taka þátt í uppbyggilegri samveru með öðru fólki en aðrir. Ótrúlegt en satt þá var ungt fólk líka miklu líklegra til þess að stunda slíka samveru en það sem eldra er.
Í nákvæmlega þessu, uppbyggilegri samveru, felst kannski stærsti munurinn á komandi kynslóðum og þeirri sem er að kveðja bílstjórasætið í samfélaginu. Sú sem er hægt og rólega að troða sér í framsætið vill að samfélagið verði byggt upp með langtímahagsmuni í huga og það að leiðarljósi að Ísland framtíðar verði sem álitlegast til að búa og starfa á. Séreignarkynslóðin sem nú stýrir jeppanum, með einn nútíma Bjart í Sumarhúsum í hverju afgirtu einbýlishúsi, spyr hins vegar meira hvað þú getir gert fyrir hana en hvað hún geti gert fyrir samfélagið.
Sú næsta alltaf betri en sú síðasta
Það er kannski ekkert skrýtið að ungt fólk sé óánægt og vilji breytingar. Það fékk ekki skuldaniðurfellingu heldur fasteignabólu vegna hennar sem gerir þeim nánast ókleift að flytja út frá mömmu og pabba. Það er ekkert í skýjunum með þá staðreynd að þurfa að fara til nágrannalanda í framtíðinni til að fá sérhæfða læknisþjónustu vegna þess að allir íslensku læknarnir verða fluttir þangað. Það er ekki að deyja úr spenningi yfir því að lífeyriskerfið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar þegar það verður loksins orðið gamalt vegna þess að séreignarkynslóðin neitaði að grípa til aðgerða sem myndu gera kerfið sjálfbært. Það skilur ekki að Skagafjörður sé miðja alheimsins, að öruggasta leiðin til að einkavæða ríkiseignir sé að stýra þeim í fang réttra aðila né af hverju útlendingar og maturinn þeirra séu svo hættulegir að reglur samfélagsins þurfi að vernda íbúa þess fyrir þeim.
Það er svo margt sem ungt fólk skilur ekki. Og eldra fólk skilur ekki unga fólkið. Hver kynslóð sem fæðist er hins vegar upplýstari, klárari og færari en sú sem kom á undan. Í því felst framþróun okkar sem mannkyns. Mín kynslóð er hæfari en sú sem kom á undan mér og sú sem kemur næst á eftir tekur mína í nefið. Hennar tími mun alltaf koma.
Við það getum við alltaf huggað okkur.
Gleðileg jól.