24. febrúar næstkomandi hefur stríð Rússa gegn Úkraínu staðið í eitt ár. Fátt bendir til þess að fjandsamlegum átökum linni á árinu sem nú fer í hönd, þrátt fyrir að ráðamenn í Moskvu og í Kiev láti á yfirborðinu sem þeir sækist eftir friði.
Niðurstaða stríðsátaka eru yfirleitt fólgin í einhvers konar uppgjöri. Möguleikarnir á slíku uppgjöri ráðast að sínu leyti á vígvellinum sjálfum.
Sænski blaðamaðurinn og dálkahöfundurinn Ingmar Nevéus skrifaði áhugaverða grein í Dagens Nyheter í Svíþjóð fyrir áramótunum um framtíðarhorfur í Úkraínustríðinu á því ári sem nú er hafið. Hann segir þar, að meðan stríðandi þjóðirnar telji hvor um sig að þær geti unnið séu engar forsendur fyrir raunverulegum friðarviðræðum. Markmiðið sé að samningaviðræðurnar fari þá fyrst fram þegar svo illa sé komið fyrir óvininum að hann samþykki alla, eða nánast alla, skilmála.
Úkraína hefur aukið styrk sinn með ávinningum síðastliðið haust. Yfirvöld þar stefna því ótrauð að því að ná aftur undir sig héruðum sem Rússar hafa nú sölsað undir sig, bæði nú og 2014.
Rússland hefur fyrir sitt leyti einhliða lýst stórum hlutum Úkraínu sem sínu landi og hóta þvermóðskulega að verja þær lendur hvað sem það kostar. Nýjar tilraunir til þess að undiroka alla Úkraínu, þar á meðal Kiev, eru ekki útilokaðar.
Þrátt fyrir mótlæti á vígvellinum hafa Rússar að minnsta kosti 150 þúsund nýliða í hernum upp á að hlaupa eg enn eru yfirburðir rússneska stórskotaliðsins miklir.
Af þessum sökum er þess ekki að vænta að samið verði um frið. En hvernig mun þá annað ár stríðsins, á árinu 2023 verða?
Nevéus segir þrjá þætti ráða þar mestu um; úthald Úkraínumanna, stuðningur Vesturlanda við Úkraínu og vald Pútínstjórnarinnar yfir Rússlandi. Og dregur upp þrjár sviðsmyndir.
Sigur Úkraínu
Þessi sviðsmynd byggist á þeirri forsendu að sókn Úkraínumanna síðastliðið haust yfir að minnsta kosti eina af fleiri víglínum á svæðum, sem þeim tókst að ná til baka síðastliðið haust í suðri, haldi áfram. Á vesturbakka Dnjepr eða í austurátt að Luhansksvæðinu.
Bærinn Bachmut í Donetsk, sem sætt hefur þungum sprengjuárásum, heldur enn uppi vörnum gegn sókn Rússa. Á sama tíma getur Úkraínuher náð aftur í sínar hendur Kreminna og Svatovem sem eru minni bæir norðan til með hernaðarlega þýðingu. Þetta gæti einnig opnað leið inn í stærri borgir á borð við Lysytjansk og Sievjerodonetsk sem féllu í hendur Rússum síðastliðið sumar.
Í suðri gætu úkraínskar herdeildir brotið sér leið í gegn um víglínuna að Melitopol og enn lengra suður í átt að Azovshaf. Þetta ræki fleyg inn í hernumdu svæðin sem síðar gæti leitt til frelsunar Mariupol sem er stærsta borgin sem Rússar hafa náð undir sig frá upphafi stríðsins.
Ógöngur Rússa í suðrinu gætu leitt til þess að Úkraínuher væri á sumri komanda við eiðið að Krímskaga.
Af þessum sökum þarf margt að vera til staðar ef svo jákvæð þróun gæti orðið að veruleika fyrir Úkraínumenn.
Í fyrsta lagi þarf úkraínski herinn að halda upp þeirri herhvöt og vilja til baráttu sem einkennt hefur baráttu hans hingað til. Hryðjuverkaárásir Rússa á innviði landsins mega ekki brjóta niður baráttuþrekið hjá almenningi eða hermönnunum.
Langdrægt eldflaugakerfi á borð við bandaríska HIMARS var afar mikilvægt í vel heppnaðri sókn Úkraínuhers síðastliðið haust. Nú þurfa Úkraínumenn mikið af skotfærum, eldflaugum og lífsnauðsynlegu loftvarnarkerfi sem ver allt landið gegn eldflaugaárásum Rússa. Síðar, í þessari sviðsmynd, er að vænta sjálfvirkra vopna, hervagna af ýmsum toga og orrustuflugvéla.
Efnahagslegar refsiaðgerðir þjóðanna gegn Rússlandi eru farnar að segja til sín. Andstaðan við stríðsreksturinn eykst og fjöldi nýliða í hernum neita að berjast. Andstaða við það sem margir telja vera tilgangslaust stríð Pútíns kemur fram á opinberum vettvangi.
Jákvæðir skilmálar friðar fyrir Úkraínu gætu falist í þeim forsendum sem hér hafa verið raktar.
Sigur Rússlands
Þessi sviðsmynd gerir ráð fyrir því að mati Ingmar Nevéus að herdeildir Rússa nái að endingu Bachmut, borg norðvestan við Donetsk, á sitt vald en þar hafa bardagar staðið linnulaust í marga mánuði. Þetta greiðir einnig leið herja Rússa að Kramatorsk og Slovjansk enn norðar em eru enn í höndum Úkraínumanna.
Þrátt fyrir minnkandi baráttuvilja innan Rússahers munu hundruð þúsunda nýliða við víglínuna skipta miklu máli á sama tíma sem Surovikin hershöfðingi sameinaði aðrar herdeildir, þar á meðal Wagner-leiguliðana, undir sinni stjórn.
Síðla vors gæti Pútín haldið fram að búið væri að frels aallt Donbass héraðið það er Donetsk og Luhansk héruðin. Hann gæti fyrirskipað nýja sókn mót suðri í átt að Cherson og Zaporizjzja, og hugsanlega til norðurs frá Belarus (Hvítarússlandi) í átt að Kiev.
Á sama tíma færi i baráttuþrek úkrínsk almennings þverrandi eftir margra mánaða hungur og kulda í kjölfar sprengjuárása Rússa á innviði eins og raforkukerfin. Stuðningur við Zelenski færi þverrandi og stjórnmálamenn hlynntari Rússum tækju frumkvæðið.
Meðal vestrænna ríkja færi stuðningurinn við Úkraínu einnig þverrandi vegna hækkandi orkuverðs og verðbólgu sem rekja mætti til stríðsrekstursins.
Heima fyrir hefur Pútín tekist að draga tennurnar úr allri mögulegri andstöðu gegn stjórnarfari sínu. Ríkir ólígarkar sjá enga aðra leið en að taka þátt í stríðsrekstri hagkerfisins og umbreyta verksmiðjum sínum í þágu vopnaframleiðslu. Óbreyttir Rússar treysta að mestu á áróður stjórnvalda sem halda því áfram að fólki að „sértækar hernaðaraðgerðir“ í Úkraínu séu nauðsynlegar fyrir tilvist rússnesku þjóðarinnar í framtíðinni.
Í lok árs fellst stjórn Úkraínu í Kiev á vopnahlé, í meginatriðum á skilmálum Rússa.
Óbreytt staða
Í þessari sviðsmynd heldur stríðið áfram nokkurn veginn eins og það hefur gert hingað til segir Nevéus í grein sinni í DN. Hvorugur aðili nær árangri sem kveður að. Yfir vetrarmánuðina halda úkraínskir og rússneskir hermenn sig í skotgröfum og sækja að hvor öðrum með stórskotaliði. Víglínan langa verður um það bil sú sama og nú með einstaka landvinningum hér og þar á báða bóga með tilheyrandi fórnum mannslífa og eyðileggingu.
Segja má að styrkleiki og veikleiki beggja aðila jafni út hvor annan. Hvorugt lið hefur afl til þess að hefja sókn sem skipt gæti sköpum.
Lélegur baráttuvilji innan rússneska hersins og ófullnægjandi þjálfun er á vissan hátt bætt upp með fjöldanum. Og nýliðar streyma að. Úkraínumenn eru baráttuglaðari en þreyttir og beygðir af áhyggjum vegna ástands meðal ættingja og vina sem búa við skort á vatni og rafmagni. Hryðjuverkaárásir Rússa um allt land halda áfram, varla þó jafn umfangsmiklar og áður.
Hagkerfi Úkraínu hefur rýrnað um helming miðað við umsvif þess áður en stríðið hófst. Rússland hefur að hluta beygt hagkerfið undir stríðsreksturinn og líður fyrir efnahagslegar refsiaðgerðir Vesturlanda. Þjóðartekjurnar minnka. En tekjur af olíu- og gasútflutningi halda áfram að streyma inn í landið, nú aðallega frá Kína og Indlandi. Almenningur lætur í ljós óánægju sína en stjórn Pútíns situr tryggilega á sínum valdastóli.
Vesturlönd halda áfram að senda vopn til Úkraínu og veita landinu fjárhagslegan stuðning. Fjarri því þó svo mikinn sem Kiev þarf á að halda. Hótanir frá Moskvu um að beita kjarnavopnum gera það að verkum að mörg lönd eru mótfallin því að veita Úkraínu þann stuðning sem gæti gert þeim kleift að vinna sigur.
Við áramótin 2023 er vígvöllurinn líkt og var. Enn hafa um tíu þúsund hermenn og borgarar hafa látið lífið til viðbótar. Engar friðarviðræður eru í sjónmáli þar eð skilmálar uppgjörs milli Rússlands og Úkraínu eru ósamrýmanlegir.
Höfundur er blaðamaður. Efni greinarinnar er að mestu byggt á grein Ingmar Nevéus sem birtist í Dagens Nyheter um áramótin.