Þróun bóluefnis gegn COVID-19 á stuttum tíma er talið afrek og þakkað samstarfi vísindamanna, rannsóknastofa og lyfjafyrirtækja þvert á landamæri og hagsmunagirðingar. Miklu skipti einnig stuðningur stórra ríkja við lyfjaframleiðendur með fé og öðrum atbeina. Þessi samvinna brast hins vegar þegar að því kom að að skipta gæðunum. Frumskógarlögmálið og réttur hins sterka tók þá yfir. BNA og Bretland hindruðu dreifingu á bóluefnum til annarra landa og Ísrael og olíuríkin í Austurlöndum nær beittu pólítískum þrýstingi og fjármagni til að kaupa bóluefni langt umfram það sem öðrum ríkjum var mögulegt. Þessi ríki tróna nú efst á lista yfir tíðni bólusetninga.
ESB-ríkin studdu einnig þróun bóluefna og uppbyggingu framleiðslugetu lyfjafyrirtækja og tryggðu sér rétt til kaupa með því. Ríki innan ESB nýttu sér hins vegar ekki stöðu sína til þess að skara eld að eigin köku en létu eitt yfir þau öll ganga að ESA ríkjunum meðtöldum. Félagslega ábyrgð ESB og virðing fyrir jafnræði innan þess kom í veg fyrir að takmörkuðum gæðum yrði skipt með pólitísku valdi. Er ESB nú legið á hálsi fyrir það af lýðskrumurum sem kenna því um allt sem aflaga fer.
Lýðskrumarar eru ekki vanir því að rökstyðja mál sitt og svo er einnig nú. Þeir tala fjálglega um að einfalt hefði verið að hafa hér á boðstólum nægilegt bóluefni en láta þess ekki getið hvernig það skyldi gert. Þeir líta framhjá þeirri alkunnu staðreynd að framleiðslugeta á bóluefni er flöskuhálsinn í dreifingu á því. Öllum sem til þekkja er ljóst að framleiðsla lyfjafyrirtækjanna var af eðlilegum ástæðum lítil í upphafi og að það tæki mörg ár að framleiða bóluefni fyrir alla. Vígreifir gagnrýnendur hafa þó ekki haft fram að færa úrbætur í þeim efnum sem segir okkur það að aukið magn bóluefna til eins lands átti að sækja í vasa annarra.
Vð upphaf COVID-19 faraldursins var reynt að kasta rýrð á gerðir stjórnvalda en þeir sem þá voru að verki stungu haus í sandinn þegar í ljós kom að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna studdi aðgerðir stjórnvalda. Nú telja þeir líklega að þreyta af langvarandi glímu við veiruna hafi skapað jarðveg fyrir óánægju og sá fyrir henni með því að reyna að láta stöðu landsins líta illa út. Það er þó gert án talnalegra raka eða annarra upplýsinga. Rétt er því að leggja mat á stöðu landsins í ljósi fyrirliggjandi staðreynda.
Samkvæmt upplýsingum Our world in data samsvarðaði fjöldi bólusetninga í heiminum gegn COVID-19 hinn 4. apríl sl. því að 8,53% íbúa heims hefðu fengið eina bólusetningu. Í N-Ameríku er þetta hlutfall tæp 31%, í Evrópu rúmlega 18%, í S-Ameríku 9,5%, í Asíu 6,3%, í Ástralíu 3,3% og í Afríku innan við 1%. Misskiptingin stafar af því að ríki heims höfðu ekki komið sér saman um hvernig skiptingu bóluefnisins skyldi háttað og nokkur ríki höfðu notað sér pólitíska og efnahagslega stöðu til að auka sinn skerf eins og áður greinir en mismun þennan verður einnig að skoða í ljósi þess að útbreiðsla veirunnar er mikið meiri í Ameríku álfunum og Evrópu en öðrum heimsálfum þótt vanskráning þar kunni að hafa nokkur áhrif.
Það er ekki bara á sviði bólusetninga að staða Íslands er góð. Áhrif veirunnar á heilsu og líf eru óvíða minni en hér á landi. Í fyrrnefndum heimildum má sjá að meðaltal nýrra smita sjö daga var um 2,6 á hverja 100.000 íbúa hér á landi. Meðaltalið í Evrópu var tífalt hærra, í Danmörku var það fimmfalt hærra, í Bretlandi rúmlega tvöfalt hærra, í Bandaríkjunum sjöfalt hærra og í mörgum löndum Evrópu yfir tuttugu sinnum hærra. Dánartíðni vegna COVID-19, mæld sem fjöldi látinna af staðfestum smitum var talin tæp 0,5% hér á landi og hin lægsta í Evrópu þar sem meðaltalið var talið 2,3%, á Bretlandi 2,9%, í Bandaríkjunum 1,8% og um 2,2% í heiminum öllum. Margfeldi þessara tveggja hlutfalla fyrir hvert land má líta á sem líkur til skamms tíma á því að einhver látist úr COVID-19.
En hvernig sjá lýðskrumar fyrir sér lausn á bóluefnaskortinum. Einfalda svarið er að þeir hafa enga lausn fram að færa enda er vegferð þeirra ekki til að finna lausnir heldur til að blekkja. Því má velta fyrir sér hvaða möguleikar séu eða hefðu verið til staðar til að auka hlutdeild ESB eða Íslands í bóluefnunum. Mistök ESB í upphafi lágu etv. í því að sjá það ekki fyrir að tvö stórveldi sem hýsa verulegan hluta framleiðslu bóluefnanna, BNA og UK, myndu hindra dreifingu þeirra til annarra landa. Ákvarðanir þessara ríkja eru skiljanlegar. Í byrjun faraldursins voru þar við stjórnvöl óábyrgir skrumarar sem tóku ekki mark á ráðgjöf fagaðila og hafa ríkin síðan barist við afleiðingarnar. Fyrir stjórnvöld þessara ríkja og þegna þeirra er mikið undir því komið að bæta fyrir mistökin og að bólusetning gangi hratt. Útbreiðslu veirunnar og dánartíðni hefur verið hærri í þessum tveimur ríkjum en að jafnaði í ESB ríkjunum. Þótt einhver ríki ESB séu sambærileg við þau í útbreiðslutölum eru önnur langtum betur sett. Ekkert samkomulag hafði verið gert um dreifingu bóluefna milli ríkja og óvíst er hvort slíkt samkomulag hefði breytt einhverju og ólíklegt er að ESB hafi nokkurn tíma verið í færum til að semja um stærri hlut sér til handa á kostnað BNA og UK.
Tilraunir til að útvega bóluefni frá framleiðendum í löndum utan V-Evrópu og BNA eru ekki líklegar til árangurs. Þótt lyf frá þeim standist gæðakröfur og fái markaðsleyfi er ekki líklegt að framleiðslugetan sé umfram þörf á heimamarkaði. Í Rússlandi eru bólusetningar rúmlega 8 á hverja 100 íbúa þ.e. um helmingur þess sem er í ESB að jafnaði. Rússar virðast hafa miðlað einhverju bóluefni til landa á áhrifasvæði sínu en þau eru það fámenn að það skýrir ekki lága tíðni bólusetninga í heimalandinu og líklegt að takmörkuð framleiðslugeta ráði mestu þar um. Sama er að segja um lyf frá öðrum löndum svo sem Indlandi og Kína. Þau eru einnig háð takmarkaðri framleiðslugetu og hafa risavaxin heimamarkað. Það skyti og skökku við að rík lönd færu í krafti fjármagns að kaupa upp lyf frá fátækari þjóðum sem þarfnast þeirra fyrir eigin landsmenn.
Fróðlegt væri að heyra hvernig íslenskir kraftaverkamenn ætla að bera sig að við að útvega Íslandi aukið bólusetningarefni við þessar aðstæður. Frá hverjum þeir ætli að taka það og hvernig þeir ætli að greiða fyrir það? Vilja þeir gerast beiningarmenn stórvelda og endurgjalda með pólitískri vild eða búa þeir yfir sjóðum til að yfirbjóða stórveldin og þau ríki sem talið er að greitt hafi margfalt hærra verð en stórveldin og ESB.
Það væri einnig fróðlegt að heyra hvernig við ættum að sýna umheiminum fram á að við verðskuldum meira bóluefni en aðrir. Dugar það að við séum „stórasta” land í heimi í eigin augum? Við höfum ekki (að því er vitað er) lagt neitt til þróunar á bóluefnunum eða framleiðslu þeirra en læknar og vísindamenn í heilbrigðiskerfi okkar og utan þess hafa séð til þess að við erum í óbrýnni þörf fyrir bóluefni en flestar aðrar þjóðir, höfum sterk tök á faraldrinum, útbreiðsla veirunnar er lítil og dánartíðni lág. Er með róttækri skynsemishyggju unnt að sannfært aðrar þjóðir eða lyfjaframleiðendur um að betra sé að senda skammt af bóluefni til Íslands en í eitthvert annað land þótt þar séu margfalt meiri líkur eru á að hann dragi úr smitun og fækki dauðsföllum en hér á landi.
Á meðan beðið er eftir svörum og töfralausnum búum við við þann góða kost að fá bóluefni með samvinnu við ESB í samræmi við vaxandi framleiðslugetu lyfjafyrirtækjanna. Við bíðum fullrar bólusetningar við betri aðstæður en aðrar þjóðir með minna smit og vægari inngrip í daglegt líf og getum glaðst yfir því að fagleg vinnubrögð sérfræðinga og stjórnvalda og samstarf við ESB hefur tryggt okkur þann árangur og það að vera á toppinum í tíðni bólusetningum ef frá eru taldar fáeinar þjóðir sem í krafti pólitískrar aðstöðu eða ríkidæmis hafa nælt sér í stærri hluta af kökunni en öðrum er kleift.
Höfundur er hagfræðingur.