Eftir ummæli Þórs Jónssonar, upplýsingafulltrúa Lýsingar hf., í fjölmiðlum í gær er ekki hægt annað en að svara fyrir sig. Það kemur reyndar ekki nema mjög lítið fram í frétt um málið á mbl.is um það sem hægt er að segja.
Raunveruleikinn er sá að í febrúar 2012 féll dómur um fullnaðarkvittanir í Hæstarétti. Í kjölfar þess dóms féllu fleiri slíkir dómar sem leiddu til þess að bankarnir þurftu að endurreikna gengistryggð lánasöfn sín upp á nýtt. Allir bankarnir gerðu þetta nema Lýsing hf. Það fyrirtæki ákvað að bíða eftir frekari fordæmum. Meðan þetta ástand varði var ekki verið að stefna Lýsingu í neinum fjölda mála til að tala um.
Fráleitar málsástæður
Síðan þegar komið er fram á mitt ár 2013 lýsa fyrirsvarsmenn Lýsingar því yfir að þeir þurfi ekki að reikna upp á nýtt og héldu fram ýmsum málsástæðum fyrir því. Allar þessar málsástæður voru og eru að mínu mati fráleitar, enda var þeim öllum hafnað með gríðarlega afdráttarlausum hætti í Hæstarétti nú á dögunum. Þeim hefur reyndar verið hafnað svo oft í héraðsdómi að ég hef ekki tölu á því, frá því að Lýsing fór að halda þeim fram og til dagsins í dag. Hins vegar tókst Lýsingu að koma sér hjá því að láta dæma um þessar málsástæður í Hæstarétti þangað til núna árið 2015. Þetta var gert með ýmsum aðferðum. Stundum greiddu þeir einfaldlega þeim aðilum sem unnu dómsmál í héraðsdómi, og eitt skiptið áfrýjuðu þeir slíku máli til þess eins að tefja það í gegnum Hæstarétt og fella svo niður áfrýjun nokkrum dögum fyrir málflutninginn í Hæstarétti. Svo borguðu þeir Írisi Fanneyju í samræmi við dóm héraðsdóms í umræddu máli. Um þennan leik fyrirtækisins má lesa ítarlega grein hér eftir Sigurvin Ólafsson héraðsdómslögmann:
Það sem Þór Jónsson heldur fram í frétt mbl.is í gær er að málareksturinn sem við höfum staðið í, hafi verið tilgangslaus og ekki snúist um neitt annað en að sækja í málskostnaðartryggingar. Sjá hér.
Þetta er svo fráleitt að það nær ekki nokkurri átt. Lýsing neitaði að borga og endurreikna lánasafn sitt. Hins vegar samþykkti Lýsing að borga á grundvelli fullnaðarkvittanaútreiknings, í þeim tilvikum sem menn voru með héraðsdóm í höndunum. Svo segir Þór Jónsson að við hefðum bara átt að leysa þessi mál utan réttar. Hvernig áttum við að leysa þau? Við kröfðum Lýsingu um greiðslu, og þeir sendu bréf þar sem kröfunni var endanlega hafnað þar sem enginn réttur væri til staðar.
Lýsing hafði áhuga á að greiða ekki milljarða
En það sem er athyglisverðast við þetta allt saman er að horfa á dagsetninguna 16. júní 2014. Meirihlutinn af þeim gríðarlega málafjölda sem mín lögmannsstofa hefur stefnt inn í héraðsdóm, var stefnt fyrri part 2014 og fram á vor 2014. Af hverju ætli það sé? Jú, skv. Árna Páls lögunum svokölluðu frá 2010, þá áttu allar endurkröfur vegna gengistryggðra lána að fyrnast 16. júní 2014. Alþingi setti síðan sérstök lög nokkrum dögum áður og lengdi þennan fyrningarfrest til 2018. En alveg þangað til að það gerðist, vorum við í þeirri stöðu að það stefndi í allsherjarfyrningu, Lýsingu í hag.
Ég skal ekki segja til um það, en margir töldu að planið hjá Lýsingu hafi frá upphafi verið að láta allar kröfurnar fyrnast í júní 2014. Við reyndum ítrekað að semja við Lýsingu en fengum alltaf sömu svörin, að okkar umbjóðendur hefðu engan rétt. Þessir umbjóðendur okkar höfðu ekki mikinn áhuga á því að tapa kröfunum sínum í fyrningu. Skiljanlega hafði Lýsing hins vegar mikinn áhuga á því að komast undan því að greiða nokkra milljarða á einu bretti. Þannig að við stefndum Lýsingu til greiðslu fyrir þá sem höfðu áhuga á því. Þessir aðilar voru margir með tryggingu fyrir svona málarekstri og því var sótt í hana og ekkert óeðlilegt við það.
Greiða í samræmi við okkar kröfur
Í framhaldinu féllu fleiri og fleiri dómar í héraði og Hæstarétti sem sýndu ítrekað fram á að Lýsing var í augljósum órétti. Samt hélt þetta áfram og öllum kröfum var hafnað. Skilaboðin voru sem sagt: „Það fær enginn greitt nema hann sé með dóm í höndunum.“ Þá má það einnig koma fram, að um leið og það lá fyrir að málin tvö væru að fara í Hæstarétt, að þá ráðlagði mín lögmannsstofa sínum viðskiptavinum almennt að hætta að stefna, nema í sérstökum undantekningartilvikum. Við sendum upp frá því einfaldlega bara kröfubréf á Lýsingu til þess að tryggja að dráttarvextir myndu byrja að telja á kröfurnar þeirra. Við höfðum auðvitað enga vissu fyrir því að Lýsing myndi greiða þrátt fyrir að við myndum vinna í Hæstarétti. Samt gáfum við þeim það „break“ að hætta að stefna þeim í marga mánuði meðan málin voru rekin fyrir Hæstarétti. Við hefðum alveg eins getað haldið áfram að stefna, það hefði ekkert verið óeðlilegt við það og mínir kúnnar óskuðu margir eftir því. Ef við hefðum bara verið á eftir málskostnaði úr tryggingum þá hefðum við getað stefnt hundruðum mála í viðbót. Það gerðum við hins vegar ekki.
Nú er svo komið að Lýsing er að greiða okkar viðskiptavinum í samræmi við okkar kröfur. Við fögnum þeirri niðurstöðu. Allir dómarar sem fjallað hafa um mál sem við höfum stefnt inn, hafa staðfest það sama. Þ.e.a.s að ekkert það sem Lýsing hefur byggt á í þessum málum hefur nokkurn tíman haldið vatni. Svo leyfir Þór sér að segja þetta:
„Ég spyr bara hvort ekki sé rétt að í eðlilegu viðskiptaumhverfi sé gengið frá málum utan réttar líkt og kostur er,“
Hvers konar spurning er þetta? Hvernig áttum við að ganga frá málum utan réttar? Hvernig áttum við að rjúfa fyrningu? Það væri gaman að sjá Þór Jónsson svara því.
Höfundur er lögmaður umbjóðenda sem hafa staðið í málarekstri við Lýsingu.