Það gýs við Fagradalsfjall – með beintengingu við kjarna jarðar, möttulinn. Fordæmalausir tímar á Íslandi öðlast dýpri og enn stærri merkingu en áður, og var nóg fyrir.
Hvernig bregðumst við við? Þjóð sem er alin upp við óvæg náttúröfl, við mikla sviptivinda náttúrunnar eða manngerðra hamfara.
Við hreyfumst með og verðum að finna leiðir og lausnir.
Hvort sem að jarðýtunni tekst ætlunarverk sitt með háum veggjum þá er hér á ferðinni einstakt tækifæri fyrir ríki, sveitarfélag, stofnanir og landeigendur til að taka höndum saman og hanna sig eftir atburðarás og aðstæðum. Hvort sem að verið sé að horfa til framtíðar með ferðamönnum utan úr heimi eða heimamenn í sunnudagsbíltúr þá þarf innviði fyrir allt. Þessir innviðir þurfa að vera sveigjanlegir, rýna í og fylgja móður náttúru og á sama tíma tala við land og aðstæður. Efnisval og efniviður – aðgengi og salernisaðstaða – allt þarf að leysa af auðmýkt fyrir náttúruöflum.
Aðgerðarstjórn innviðauppbyggingar skipuð þverfaglegu teymi sérfræðinga ætti að vera jafnsjálfsagt mál og aðgerðastjórnirnar sem á undan koma til að tryggja öryggi fólks.
Í kringum okkur eru nýleg dæmi þar sem sést hvernig náttúran fær að njóta sín og við fáum að vera með á öruggan og góðan hátt. Við Brimketil í nágrenni eldstöðvarinnar má sjá frábært dæmi um hönnun í erfiðum aðstæðum – í sátt við umhverfið en bætir einnig við upplifunina. Stígurinn upp á Saxhól á Snæfellsnesi er annað gott dæmi, var ekki hugsaður sem beinn áfangastaður en hefur nú hlotið verðlaun um allan heim fyrir að verða góð hönnun sem les í landið. Þar stefndi í óefni vegna aukinnar umferðar gangandi náttúruskoðenda.
Nýlega tók umhverfisráðherra í notkun nýtt samræmt skiltakerfi; Vegrúnu– sem er ætlað öllum þeim sem setja upp merkingar á ferðamannastöðum eða friðlýstum svæðum. Vegrún var hönnuð til að samræma merkingar hér á landi, til einföldunar fyrir landeigendur og staðarhaldara og til að bæta upplifun ferðamanna, auka gæði, samræma upplýsingagjöf og auka öryggi.
Við Suðurstrandaveg væri tilvalið að setja upp með hraði merkingar í þessu nýja kerfi. Hönnunin klár, framleiðslulínan einnig. Frábær staður til að sýna hvað í kerfinu býr.
Það væri hægt að nefna fjölda annara dæma. Nú er einstakt tækifæri til að taka höndum saman og sýna að viðbragðshæfileikar okkar innihalda skilning á móður náttúru. Þar spilar hlutverk hönnunar stóra rullu.
HönnunarMars stendur nú sem hæst í höfuðborginni, settur á miðvikudag af ráðherra hönnunar, nýsköpunar og ferðamanna. Þessi hátíð sem fyrst leit dagsins ljós á þá fordæmalausum tímum mitt í fjármálakreppu. Erlendur fyrirlesari á fyrsta HönnunarMars (heimsþekktur hönnuður sem síðar settist hér að) sagði þá að krísan væri einstakt tækifæri til að hanna ferla upp á nýtt; hanna samfélag upp á nýtt. Hvernig okkur hefur tekist með það skal látið liggja milli hluta að sinni en við Geldingadali og Suðurstrandaveg er nýtt tækifæri til að gera vel.
Úti um alla borg eru hönnuðir sem hafa gert það að starfi sínu að leysa vandamál, bæta líf okkar og jafnvel fegra umhverfi. Felum þeim að gera rannsóknir og prófa sig áfram í að hanna glænýjan ferðamannastað, einstakan á heimsvísu, í stað þess að ryðjast af stað með jarðýtur, setja unglinga í úlpur og láta þá ganga milli bíla með posa. Skoðum það sem þegar hefur gengið vel, eins og gjaldtaka við ferðamannastaði án þess að hlaða niður tilbúnum skúrum. Leitum að lausnum sem hafa sýnt að þær virka. Notum tækifærið, vinnum saman, vöndum okkur og hugsum dæmið til enda (eins langt og hann nær).
Hér má sjá framtakið Góðar leiðir hjá Hönnunarmiðstöðinni, felur í sér kortlagningu, stefnumótun og þróun hönnunarferla við uppbyggingu, innleiðingu og viðhald innviða.
Greipur Gíslason er fyrrum stjórnandi HönnunarMars og Borghildur Sturludóttir er fyrrum stjórnarformaður Hönnunarmiðstöðvar.