Núverandi óheft markaðshagkerfi styður ekki við sjálfbæra þróun. Það tekur m.a. ekki með í reikninginn þá staðreynd að náttúrulegar auðlindir jarðarinnar eru takmarkaðar og að við verðum að lifa samkvæmt því. Einnig hefur ójöfnuður og óréttlæti aukist, bæði innan og milli ríkja.
Margir virðast álíta að við eigum enga aðra möguleika en núverandi hagkerfi. Aðallega er talað um að gera breytingar innan núverandi kerfis og heyrast í því samhengi orð eins og grænn hagvöxtur og grænar fjárfestingar. En mikilvægt er að ræða fyrir alvöru það sem þarf að ræða – hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað svo hagkerfið styðji raunverulega við sjálfbæra þróun, þ.m.t. við réttlæti, náttúruvernd og frá verstu sviðsmyndum loftslagshamfara?
Gildi samfélaga
Gildi og jafnframt forsendur sjálfbærrar þróunar eru m.a. nægjusemi, samfélagshyggja, samvinna, langtímasjónarmið og réttlæti. Sjálfbær þróun virðir þolmörk náttúrunnar og gengur út frá þeirri staðreynd að náttúrulegar auðlindir eru takmarkaðar og mynda lokuð kerfi sem samfélag og hagkerfi eru hluti af. Sjálfbær þróun byggir á jafnvægi en ekki á hagvexti og stuðlar að góðu lífi fyrir alla en ekki á hámörkun hagnaðs fyrir fáa. Eitt af aðaleinkennum sjálfbærrar þróunar eru réttlæti innan og milli kynslóða.
Núverandi óheft markaðshagkerfi byggir á gagnstæðum gildum. Það þarf á óheftri neysluhyggju að halda til þess að knýja áfram hagvöxt. Kerfið þarf á samkeppni, efnis- og einstaklingshyggju að halda til þess að kynda undir hagnaðarmöguleikum. Kerfið byggir á skammtímasjónarmiðum því augljóst er að kerfið getur ekki gengið upp til langs tíma þar sem óendanlegur vöxtur sem byggir á takmörkuðum auðlindum jarðar er ómögulegur. Öll þessi gildi núverandi hagkerfis hafa litað samfélögin okkar og einstaklinga, oft meira en við gerum okkur grein fyrir.
Hvernig á núverandi hagkerfi að stuðla að sjálfbærri þróun ef hagkerfið byggir á gildum sem eru í mótsögn við sjálfbæra þróun? Við verðum að koma á nýju og öðruvísi hagkerfi sem fyrst sem hefur sömu gildi að leiðarljósi og sjálfbær þróun.
Hugsanaskekkja
Í dag einkennast viðhorf til náttúrunnar oftast af því hvernig hægt sé að hámarka nýtingu og fá sem mest út úr henni með sem minnstum tilkostnaði. Markmiðið er skammtímagróði.
Hingað til eru oftast bein tengsl á milli aukins hagvaxtar og aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Hvernig hljómar það að horfa á hagvöxt út frá þeirri forsendu? Væri ekki kaldhæðnislegt að segja að stefnt væri að árlegri aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. um a.m.k. 3%?
Margir hafa haldið því fram að tækniþróunin bjargi okkur og muni koma okkur á braut sjálfbærrar þróunar. En tækniþróun ein og sér getur lítið gert ef gildi núverandi ríkjandi hagkerfis verða áfram þau sömu. Með tækniþróun má að vísu minnka notkun hráefna, vinnuafls og fjármuna sem fer í framleiðslu vara og einnig minnka mengun. Tækniþróun er því hluti af lausninni en ekki aðalatriði. Vegna virkni núverandi hagkerfis og hungurs manna í að eiga sífellt meira, hefur þessi ávinningur verið „étin upp“ fram að þessu. Þetta kallast „afturkastsáhrif“ eða á ensku „Rebound-Effect“. Þannig þurfa bílar í dag minni orku á hverja stærðareiningu og á hvern ekinn km. Á móti kemur að bílarnir eru oft stærri og þyngri en áður, auk þess sem að hver fjölskylda á fleiri bíla og keyrir meira. Sama gildir um heimilistæki. Þau þurfa minna rafmagn en fyrir nokkrum áratugum, en á móti kemur að við eigum miklu fleiri tæki og oft eru tækin ekki eins langlíf og áður. Til þess að geta nýtt tækniframfarir til góðs fyrir umhverfið og samfélög má hagvöxtur ekki vera meginmarkmiðið.
Velferð okkar í vestrænum heimi byggir að hluta til á því að við höfum í gegnum hnattvæðingu getað úthýst bæði ofnýtingu auðlinda og mengun til annarra landa. Ójöfnuður í heimunum hefur aukist mikið og velferðin sem hefur skapast hefur aðallega nýst ríkum minnihluta heimsbyggðarinnar á kostnað annarra og náttúrunnar. Þessi velferð og neysla er s.s. að hluta til stolin frá fátækum meirihluta og frá framtíðarkynslóðum.
Ný hugsun og nýjar skilgreiningar
Við þurfum að endurhugsa hvernig hið góða eftirsóknarverða líf á að vera og hvernig við öðlumst það. Ríkjandi gildi nútímans byggja á þeirri hugmyndarfræði að velferð og hamingja sé afleiðing og/eða háð auknum kaupmætti, aukinni neyslu og valfrelsi. Þar er verið að rugla saman, annars vegar skammtímaánægju sem fæst m.a. í gegnum neyslu og hins vegar, raunverulegri hamingju sem hefur dýpri rætur og byggir ekki síst á góðum og innilegum tengslum við aðra þegar grunnþörfum um fæðu, skjól, menntun og heilbrigði hefur verið náð. Einnig er kominn tími til að endurskilgreina hvað við teljum til framfara manna. Í núverandi hagkerfi eru hagvöxtur, tækniframfarir og aukinn kaupmáttur oft beintengdir við almennar framfarir samfélaga. Hvernig væri að hafa t.d. minni kolefnislosun, minni fátækt, meiri jöfnuð, aukið jafnrétti, virðingu mannréttinda, vernd og endurheimt vistkerfa og aukna hamingju sem framtíðarmælikvarða á framfarir mannkyns?
Það er mikilvægt að breyta núverandi línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi. En það eitt og sér mun hvorki duga til þess að minnka ofneyslu né stuðla að auknum jöfnuði og réttlæti. Ýmsar aðrar útfærslur á hagkerfi eru í alþjóðlegri umræðu sem ganga lengra en hringrásarhagkerfið eins og Kleinuhringjahagkerfið, Sældarhagkerfið, sósíalískt markaðshagkerfi, „degrowth“/niðurvaxtarhagkerfi o.fl. Sérfræðingar víðs vegar um heiminn eru búnir að hanna ný og öðruvísi hagkerfi sem byggja m.a. á öðrum mælikvörðum á velgengni þjóðar en hagvöxt og geta gjörbreytt því hvernig við umgöngumst náttúruna og hvert annað.
Auk þess að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti snúast alvöru loftslagsaðgerðir um að breyta hagkerfinu, breyta framleiðsluháttum með umhverfið og réttlæti að leiðarljósi, vernda og endurheimta náttúru, minnka framleiðslu og neyslu, hætta sóun, breyta lífsstíl og rækta lífsgildi sem stuðla að sjálfbærri þróun.
Við megum ekki láta hagkerfið stjórna okkur heldur verðum við að stjórna því. Hagkerfið á að þjóna hagsmunum okkar en ekki við hagsmunum þess. Til að geta unnið okkur frá loftslagshamförum og auknu misrétti þurfum við rótækar breytingar á ríkjandi markaðshafkerfi nútímans, hanna og taka upp nýtt hagkerfi byggt á grunngildum sjálfbærrar þróunar. Þannig getum við skapað okkur heim sem á framtíðina fyrir sér.
Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd.