Þegar umræða um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru stóð sem hæst í kjölfar efnahagshrunsins 2008 bentu margir á að Ísland gæti seint, ef nokkurn tímann, uppfyllt Maastricht-skilyrðin svokölluðu um verðlags- og gengisstöðugleika auk ákjósanlegrar skuldastöðu hins opinbera.
Skilyrðin þurfa ríki Evrópu að uppfylla ætli þau sér að taka upp evru. Þótt afar ólíklegt sé að Íslandi taki upp evru á næstunni, eru skilyrðin engu að síður góð og gild, varpa ljósi á stöðuna í samanburði við önnur Evrópulönd og eru mælikvarði á efnahagsástandið með tilliti til gengisstöðugleika og ríkisskulda.
Í ljósi þess að Ísland hefur upplifað mikinn efnahagsbata undanfarin misseri er vert að velta því fyrir sér hvort Ísland standist Maastricht-skilyrðin fimm eins og staðan er í dag?
Verðbólga má ekki vera meiri en 1,5 prósentum yfir meðaltali verðbólgu hjá þeim þremur ESB-ríkjum sem hafa minnsta verðbólgu.
-Verðbólga í ríkjum Evrópusambandsins er í dag aðeins 0,2 prósent að meðaltali. Hæst er hún í Möltu, um 1,2 prósent í júlí, en lægst í Kýpur. Þar mælist verðhjöðnun upp á 2,4 prósent. Ef undanskilin eru þau lönd þar sem verðhjöðnun ríkir, þá er verðbólga í löndunum þremur með minnsta verðbólgu aðeins um 0,1 prósent.
Verðbólga á Íslandi mældist 1,9 prósent í júlí, lítillega yfir Maastricht-markmiðinu. Þetta skilyrði hefur verið ansi nálægt því að vera uppfyllt á síðustu misserum, en verðbólga er sögulega lá á Íslandi og hefur verið á annað ár.
Langtímavextir mega ekki vera meira en tveimur prósentum hærri en að meðaltali í þeim þremur ESB-ríkjum sem hafa minnsta verðbólgu.
-Löndin þrjú sem búa við lægsta verðbólgu eru Spánn (0,0%), Eistland (0,1%) og Þýskaland (0,1%). Langtímavextir í Þýskalandi eru sérlega lágir, aðeins um 0,5 prósent, og á Spáni eru vextir á tíu ára ríkisbréfum ríflega tvö prósent. Vextir á óverðtryggðum ríkisbréfum íslenska ríkisins til tíu ára eru í dag um 6,5 prósent.
Halli á hinu opinbera má ekki vera meiri en þrjú prósent af vergri landsframleiðslu.
-Afgangur var af rekstri hins opinbera 2014.
Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60 prósent af vergri landsframleiðslu nema þær fari lækkandi í átt að því hlutfalli með ásættanlegum hraða.
-Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt undanfarin ár, og enn meira eftir nýleg uppkaup á skuldabréfaflokki í Bandaríkjadollurum. Heildarskuldir ríkisins nema nú um 1.403 milljörðum króna, eða 63,8 prósent af vergri landsframleiðslu.
Gengisfyrirkomulag þarf að vera aðili að gengissamstarfi Evrópu, ERM-II, í a.m.k. tvö ár án gengisfellinga og gengi gjaldmiðils verður að vera innan 15 prósent vikmarka.
-Þetta skilyrði hefur ekki verið uppfyllt af neinu leyti.
Ísland uppfyllir því ekki öll Maastricht skilyrðin. Það sama á raunar við um sum evruríkin í dag. En Ísland er nær því að uppfylla skilyrðin en oft áður.