Á miðvikudag var tilkynnt að hollenski seðlabankinn hefði selt afganginn af Icesave-kröfu sinni til Deutsche Bank fyrir um 96 milljarða króna. Á föstudag greindi Kjarninn frá því að Deutsche Bank hefði í raun ekkert verið kaupandinn, heldur milligönguaðili fyrir ónafngreinda og andlitslausa viðskiptavini sína sem hafa mikinn áhuga á að kaupa kröfur á gjaldþrota fyrirtæki frá haftasjúkri eyju í miðju ballarhafi sem hýsir jafnmarga og þýska borgin Bielefeld.
Styrkja stöðu sína
Í millitíðinni, á fimmtudag, greindi Kjarninn frá því að Burlington Loan Management, írskt skúffufyrirtæki sem stýrt er af risa-vogunarsjóðnum Davidson Kempner, hafi aukið eignir sínar á Íslandi um 70 prósent á árinu 2013. Það gerði þessi sjóður þrátt fyrir að hann, og fylgihnettir, væru þegar langstærsti ktöfuhafi fallina íslenskra banka. Á meðan íslenskir stjónmálamenn rifust um gjaldþrota- eða samningaleið, hversu mikið ætti að gefa fólki í skuldaniðurfellingu fyrir að kjósa Framsóknarflokkinn eða hvort seðlabankastjórarnir ættu að vera einn eða þrír þá styrktu þessir aðilar stöðu sína hérlendis verulega.
Eignir Burlington á Íslandi eru gríðarlegar. Hann er stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis, á meðal stærstu kröfuhafa Kaupþings, á umtalsverðar kröfur í bú Landsbankans, er á meðal eiganda ALMC sem seldi 67 prósent hlut sinn í Straumi fjárfestingabanka í júlí síðastliðnum, á beint 13,4 prósent hlut í Klakka (sem á 23 prósent í VÍS og allt hlutafé í Lýsingu) og keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir síðustu áramót. Auk þess hefur sjóðurinn verið að kaupa hluti í Bakkavör í Bretlandi af miklum móð, en þær eignir eru skráðar sem breskar þótt aðrir stórir eigendur séu að mestu íslenskir og rætur fyrirtækisins liggi hérlendis.
Náin tengsl Burlington og Deutsche Bank
Það fæst ekki uppgefið hverjir keyptu Icesave-kröfu Hollendinga af Deutsche Bank. Það fæst heldur ekki uppgefið hverjir keyptu Icesave-kröfur breskra sveitafélaga í febrúar síðastliðnum. Viðmælendur, bæði innanlands og erlendis, segja þó að ekki sé um mjög stóran hóp að ræða sem hefur brennandi áhuga á kröfum eins og þessum. Þar sé aðallega um að ræða stóra fjárfestinga- eða vogunarsjóði sem hafi verið að búa sér til arðvænlega stöðu á Íslandi með því að kaupa upp kröfur á hrakvirði allt frá hruni.
Það er líka fullyrt að sjóðirnir séu mjög duglegir við að taka þátt í endurfjármögnun íslenskra stórfyrirtækja, meðal annars með því að kaupa hlut í skuldabréfaútáfum þeirra í gegnum þriðja aðila.
Það liggur líka fyrir að samkurl Burlington Loan Management við Deutsche Bank hefur verið nokkuð mikið undanfarin misseri, sérstaklega hvað varðar umsýslu á íslenskum eignum.
Dótturfyrirtæki þýska bankarisans, Deutsche Bank AG í Amsterdam, heldur til að mynda á 99 prósent af hlutdeildarskirteinum í ALMC. Heimildir Burlington, eða sjóðir Davidson Kempner, eru endanlegir eigendur hluta þeirra skirteina. Þá keypti Burlington 26 milljarða króna skuldir Lýsingar af Deutsche Bank skömmu fyrir síðustu áramót.
Auk þess er ljóst að Davidson Kempner sjóðstýringarfyrirtækið, eigandi Burlington, er í miklum og nánum viðskiptum við Deutsche Bank víða um heim.
Verið að marka sér stöðu fyrir uppgjörið
Fjármálaráðherra skipaði fyrir skemmstu framkvæmdastjórn um rýmkun fjármagnshafta og réð fullt af sérfræðingum til að starfa með henni. Þessi hópur á væntanlega að ákveða einhverskonar skilyrði sem sett verða fyrir því að til greina komi að hleypa föllnu bönkunum í nauðasamninga. Rökrétt er að áætla að það sé ekkert sérstaklega langt í að þessi skilyrði verði lögð fram og í kjölfarið fari þá fram einhverskonar viðræður milli stjórnvalda og þrotabúa föllnu bankanna, sem eiga um 2.500 milljarða króna eignir, þar af um 500 milljarða í íslenskum krónum.
Stjórnvöld hafa vonandi nýtt síðastliðið ár í að undirbúa þessa lotu vel, því morgunljóst er að stærstu kröfuhafarnir hafa gert það. Þeir teygja sig sífellt í fleiri áttir. Það er meðal annars fullyrt að þessir aðilar hafi keypt kvikar krónueignir, sem hægt er að losa út úr íslensku höftunum í gegnum hin ótrúlegu fjárfestingarleiðarútboð Seðlabankans, sem veita afslætti af íslensku krónunni. Það er líka fullyrt að sjóðirnir séu mjög duglegir við að taka þátt í endurfjármögnun íslenskra stórfyrirtækja, meðal annars með því að kaupa hlut í skuldabréfaútáfum þeirra í gegnum þriðja aðila.
Tilgangurinn er að marka sér sterka stöðu þegar kemur að uppgjörinu á Íslandi. Það hefur nefnilega ekki átt sér stað. Og því meira af íslenskum eignum, kröfum og skuldum sem vogunarsjóðirnir sanka að sér því betri verður staða þeirra til að hafa áhrif á efnahagsleg örlög okkar. Því meira munu þeir hafa að segja um niðurstöðuna. Því miður.