Þann 22. apríl s.l. birti Hagstofa Íslands niðurstöðu sína varðandi útgjöld til rannsókna og þróunar (R&Þ) fyrir árið 2013. Niðurstaða Hagstofunnar er að heildarútgjöld til R&Þ árið 2013 hafi numið 35.398 milljónum og jafngildir það 1,88% af landsframleiðslu Íslands það ár.
Rannís hefur undanfarna áratugi annast þessa upplýsingasöfnun, eins og kveðið er á um í 12. gr. laga nr. 3/2003, með rekstri Rannsóknavogar. Ástæða þess að verkefnið var flutt til Hagstofunnar er að kostnað við R&Þ á að færa sem fjárfestingu í þjóðhagsreikningum sem Hagstofan sér um. Yfirfærslan fór fram í góðu samstarfi við Rannís.
Niðurstaða Rannís fyrir árið 2011 var að útgjöld til R&Þ námu 42.427 milljónum eða 2,5% af landsframleiðslu (talan var 2,6% þegar tölurnar voru birtar, en landsframleiðslan hefur hækkað við endurskoðun, nú síðast í mars 2015). Hér er um að ræða lækkun um fjórðung, ef miðað er við hlut af landsframleiðslu. Hér er greinilega meiri munur á niðurstöðum en sem nemur eðlilegum skekkjumörkum og því eðlilegt að skoða þennan mismun nánar. Tekið skal fram að handbók sem fylgt er við söfnun upplýsinga er hin sama bæði árin, þ.e. Frascati-handbók OECD (Frascati Manual 6.0, 2002).
Þess má geta að allt verklag Rannís við Rannsóknavogina 2011 var endurskoðað og leitast við að bæta það eins og kostur var, sem fólst m.a. í einföldun á spurningaeyðublöðum og að færri breytur en áður voru mældar. Hliðsjón var höfð af spurningalistum frá Noregi, Írlandi og Finnlandi. Af hálfu Rannís var útbúinn þýðislisti yfir fyrirtæki og stofnanir sem Rannís var kunnugt um að stunduðu rannsóknir. Á umræddum þýðislista voru árið 2012 tæplega 1100 fyrirtæki, sem voru misvirk í R&Þ, og meira en 200 stofnanir. Rannís lagði mikla áherslu á að staðfesta svör sem berast varðandi umfang R&Þ og bera þau saman við önnur gögn s.s. ársreikninga og ársskýrslur viðkomandi aðila, auk þess að bera þau saman við önnur gögn Rannís. Viðtöl voru tekin við stjórnendur fyrirtækja og stofnana til að staðfesta skilning og tölugildi. Í samskiptum við aðila breyttist niðurstaða oft frá svari í spurningalista, ýmist til hækkunar eða lækkunar.
Hér að neðan er gerður samanburður á niðurstöðum Hagstofu Íslands fyrir 2013 og Rannís 2011. Miðað við sama verðlag hafa heildarútgjöld lækkað um tæp 24%, framlög fyrirtækja um tæp 25%, háskólastofnanir eru með svipað umfang, en opinberar stofnanir og sjálfseignarstofnanir lækka um tæplega helming að umfangi.
Heildarútgjöld R&Þ árin 2013 og 2011 | ||||||
Milljónir króna | Hagstofa Íslands | Rannís | ||||
Útgjöld 2013 | Útgjöld 2011 | Verðl. 2013 | Breyting | |||
Fyrirtæki | 18.548 | 22.543 | 24.632 | -24,7% | ||
Háskólastofnanir | 11.630 | 11.189 | 12.226 | -4,9% | ||
Aðrar opinberar stofnanir og sjálfseignarstofnanir | 5.220 | 8.695 | 9.501 | -45,1% | ||
Samtals allar einingar | 35.398 | 42.427 | 46.358 | -23,6% |
Það er lækkun á framlagi fyrirtækja sem vegur þyngst. Ein skýring á þessum mun getur verið mismunandi framsetning á skilgreiningum á R&Þ í Rannsóknavog 2011 og Rannsókn Hagstofu frá 2013. Önnur skýring getur verið raunverulegar breytingar á starfsemi fyrirtækjanna sem hafi lýst sér í minna rannsóknaumfangi fyrirtækja. Þennan mismun þarf að skýra og greina nánar. Í Rannsóknavog 2011 voru útgjöld 10 stærstu fyrirtækjanna 14.928 milljónir kr. en í Rannsókn Hagstofu 2013 er umfang sömu 10 fyrirtækja einungis 8.707 milljónir kr. Úr þessu má lesa að rannsóknaumfang stærstu fyrirtækjanna hefur dregist mikið saman frá 2011.
Í þessu sambandi er bent á að í aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs (V&T) er sérstaklega fjallað um skattalega hvata til að örva R&Þ hjá fyrirtækjum, og nýsköpun almennt. Ennfremur að hlutfall fyrirtækja í R&Þ er talsvert lægra hér á landi en í nágrannalöndunum, eða 52% skv. mælingu Hagstofunnar en í nágrannalöndunum nær 60%. Í aðgerðaráætlun V&T var stefnt að hlutfallslegri aukningu fyrirtækja í framlögum til R&Þ upp í 57% árið 2016. Samkvæmt nýjustu mælingum Hagstofunnar stefnum við ekki í þessa átt og þörf er á að skoða hvað veldur minni þátttöku fyrirtækja í framlögum til R&Þ hér á landi miðað við nágranna okkar.
Opinberar stofnanir lækka verulega, þó er nokkuð gott samræmi í mælingum á rannsóknaútgjöldum stærstu stofnananna. Hins vegar er mikill munur á fjölda þeirra sem telja fram útgjöld til R&Þ. Í Rannsóknavog Rannís voru það ríflega 100 stofnanir sem mældust með rannsóknaútgjöld en í rannsókn Hagstofunnar eru þær ekki nema tæplega þrjátíu. Þessi mismunur er sláandi og þarfnast nánari skoðun stjórnvalda. Hvernig stendur á því að rannsóknaumfang stofnana sem hafa þann yfirlýsta tilgang að stunda rannsóknir og fá m.a. framlög frá hinu opinbera til að sinna þeim mælist ekki í Rannsókn Hagstofu? Hér þarf atbeina viðkomandi fagráðuneyta og Ríkisendurskoðunar að málinu.
Niðurlag: Það er ljóst að ekki er um að ræða sambærilega tímaröð varðandi útgjöld til R&Þ árin 2011 og 2013. Eðlilegt er að þessar niðurstöður verði skoðaðar mjög vandlega til að geta lagt þær til grundvallar stefnumörkun um rannsóknir og nýsköpun hér á landi. Fullyrðingar um að útgjöld til R&Þ í fyrri könnunum hafi verið ofmetin orka tvímælis. Nærtækara virðist vera að skoða hvað það er í starfsemi stofnana og fyrirtækja sem veldur svo mikilli lækkun R&Þ-útgjalda frá 2011 til 2013.
Höfundur er forstöðumaður Rannís, Rannsóknamiðstöðvar Íslands.