Vandi heimilanna, fyrirtækjanna og þjóðarinnar er krónan, sem vegna smæðar framkallar sveiflur, verðbólgu og miklu hærri vexti en þekkjast annars staðar. Krónan er mesti óvinur íslenskra launamanna og heimila. Vegna þess að trúverðugleiki Seðlabanka Íslands og innlends hagkerfis mun seint jafnast á við trúverðugleika seðlabanka stærstu viðskiptalanda heims má búast við að innlendir vextir verði hærri en erlendir vextir um ókomna framtíð. Það hefur meðal annars það í för með sér að afborganir af fasteignalánum eru hærri og að fjárfestingar einstaklinga og fyrirtækja eru óhagstæðari. Hátt vaxtastig á Íslandi hefur orðið til þess að fyrirtæki fjármagna sig í síauknum mæli í erlendri mynt. Atvinnulífið er með öðrum orðum á undanhaldi frá krónunni.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_07/34[/embed]
Kostnaður krónunnar
Á meðan við erum með sjálfstæða mynt verðum við að halda úti gjaldeyrisvarasjóði, sem við eigum ekki fyrir og verðum þess vegna að taka að láni. Vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisvarasjóðsins er um 33 milljarðar króna á ári. Krónan veldur því að vaxtamunur á ríkisskuldabréfum og húsnæðislánum er allt að 4,5% hærri hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Þessi vaxtamunur stafar af verðbólgu og óstöðugleika, sem rekja má beint til krónunnar. Vegna hárra skulda þjóðarbúsins fara miklir fjármunir í að greiða niður vaxtakostnað skulda. Skuldir þjóðarinnar allrar (ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja) eru rétt rúmlega 4.500 milljarðar. Þjóðin öll greiðir því hátt í 200 milljarða í vaxtakostnað af krónunni. Allur
kostnaður af vöxtum lendir vitanlega á almenningi beint eða óbeint. Þannig gæti sparnaður ríkisins farið í að koma til móts við skuldsett heimili og lækkaðar skuldir fyrirtækja myndu einnig koma heimilum til góða, með aukinni fjárfestingu atvinnulífsins, hærri launum eða lægra verðlagi. Útgjöld ríkissjóðs eru rúmlega 570 milljarðar, ríkissjóður einn og sér borgar um 90 milljarða króna í vexti. Höfundur telur það glapræði að ríkið skuli borga um 16% af útgjöldum sínum í vaxtakostnað af krónunni.
Allur útflutningur á sjávarafurðum er um 230 milljarðar. Árlegur kostnaður landsmanna vegna krónunnar samsvarar því nær öllum útflutningstekjum sjávarafurða. Þessi aukakostnaður landsmanna vegna krónunnar jafngildir um 13% af landsframleiðslu. Það hljóta allir stjórnmálaflokkar að vera sammála um að engin þjóð þolir slíkan kostnað af sínum eigin gjaldmiðli.
Mesti sparnaður Íslandssögunnar yrði með því að taka upp annan gjaldmiðil. Þjóð sem notar svo dýran gjaldmiðil er langt komin með að gera stóran hluta þegna sinna eignalausa. Á síðustu fimm árum höfum við greitt yfir 1.000 milljarða í vaxtakostnað og við munum þurfa að greiða aðra 1.000 milljarða næstu fimm árin með áframhaldi krónunnar.
Verðbólga og verðtrygging
Krónan veldur einnig hærri verðbólgu. Verðbólgan er mikil af því að við erum með litla og veika mynt. Á síðustu 60 árum hefur verðbólga verið um það bil 16% að meðaltali og verðlag á Íslandi hefur sexfaldast frá árinu 1986. Verðbólga hefur einnig valdið því að kaupmáttur hefur rýrnað afar mikið síðustu áratugi. Á síðasta aldarfjórðungi hefur kaupmáttur einungis aukist um 25-30% á meðan laun hafa hækkað um 355%. Frá árinu 1989 hafa því 92% launahækkana á Íslandi brunnið upp í verðbólgu.
Hrun krónunnar árið 2009 tvöfaldaði lán í erlendum gjaldmiðlum og hækkaði verðtryggð húsnæðislán um tugi prósenta, vegna þess að verðbólgan rauk af stað við gengishrunið. Ímyndum okkur ef skuldir heimila hefðu lækkað um 20% árið 2009. Þá hefði 40 milljóna króna lán farið niður í 32 milljónir. Út af verðbólgunni væri þetta lán hins vegar komið upp í rúmlega 40 milljónir í dag.
Verðtryggingin er afleiðing af krónunni, verðtryggingin er þannig óhjákvæmilegur fylgifiskur krónnunar. Það er helst í vanþróuðum ríkjum, sem búa við óstöðugan gjaldmiðil og mikla verðbólgu, sem almenn verðtrygging tíðkast. Fólk treystir sér hins vegar ekki til þess að lána peninga hérlendis nema lánin séu verðtryggð eða með mjög háum vöxtum vegna þess að það er svo mikil sveifla í hagkerfinu. Það er því ólíklegt að mikill áhugi sé á að gera langtímasamninga í viðkomandi mynt án verðtryggingar. Það að dæma verðtryggingu ólöglega leysir ekki lánavanda heimilanna, lánavandinn mun einfaldlega breytast og ekki endilega til hins betra.
Gengissveiflur og gjaldeyrishöft
Gjaldeyrishöft kallast þau höft sem ríkið setur á gjaldeyrinn. Þetta þýðir að erlendir fjárfestar mega einungis taka ákveðna upphæð af peningum úr landinu. Þetta fælir erlenda fjárfesta og veldur meðal annars því að hér á landi er fjárfesting nú í sögulegu lágmarki. Höftin hindra það að fjármunir séu nýttir þar sem þeirra er mest þörf og valda því að innlendur fjármálamarkaður missir tengsl við alþjóðlega fjármálamarkaði. Þannig takmarka höftin möguleika innlendra aðila til að sækja sér fjármagn, sem dregur úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti. Þrátt fyrir þessa ókosti eru þessi höft hins vegar nauðsynleg hér á landi. Einkum vegna þess að höftin koma í veg fyrir að efnahagurinn á landinu hrynji og skapar jafnframt vissan stöðugleika. Þannig getur það verið stórhættulegt að afnema gjaldeyrishöft og um leið halda í krónuna. Einnig gætu frjáls gjaldeyrisviðskipti með núverandi snjóhengju til staðar leitt til verulegs gengisfalls krónunnar og óðaverðbólgu.
Saga gengis krónunnar er samfelld sorgarsaga sveiflna, sem aðallega hafa verið niður á við. Gengissveiflur gera alla áætlunargerð fyrirtækja sem stunda inn- eða útflutning afar erfiða. Sífellt flökt krónunnar hefur hingað til reynst inn- og útflutningsfyrirtækjum hér á landi dýrkeypt því aldrei má vita með fullri vissu hvað fáist fyrir vöruna erlendis eða hvað það á endanum muni kosta að fá vörur hingað til lands. Þar sem íslenska hagkerfið er fremur lítið er það háð innflutningi. Þar af leiðandi hafa gengissveiflur krónunnar óhjákvæmilega áhrif á verðlagið. Þessu hafa landsmenn orðið vitni að á undanförnu.
Allt frá upphafi íslensku krónunnar hefur hún aldrei verið til friðs til lengri tíma litið, hvort heldur sem hún var bundin eða látin fljóta. Hér á landi var til að mynda mikil umræða í gangi upp úr aldamótunum 2000 í kjölfarið á ofhitnun efnahagslífsins. Þá var mikill viðskiptahalli og verðbólguþrýstingur, sem varð meðal annars til þess að gengi íslensku krónunnar lækkaði umtalsvert.
Með áframhaldi krónunnar þurfum við að sætta okkur við það sem fylgir henni. Við þurfum að búa við háa verðbólgutíðni, miklar gengissveiflur, háa vexti og þann kostnað sem fylgir þeim. Við þurfum að sætta okkur við gjaldeyrishöft og fjárfestingu í lágmarki, við þurfum að sætta okkur við stökkbreytt húsnæðislán, hátt verðlag og mikla kaupmáttarrýrnun, einnig þurfum við að sætta okkur við mikla lífskjaraskerðingu. Eins og staðan er núna notum við meingallaðan gjaldmiðil og miklar takmarkanir á viðskiptum og gengisfellingar eru það eina sem getur haldið gjaldmiðlinum okkar gangandi.
Stöðugt efnahagsumhverfi og trú viðskiptalanda á Íslandi eru forsendur þess að þjóðin geti byggt upp atvinnulíf sem getur selt verðmætar vörur og þjónustu úr landi. Á Íslandi er hins vegar ekki stöðugt efnahagsumhverfi til staðar og hefur í raun aldrei verið. Einnig er trú viðskiptalanda á Íslandi lítil sem engin. Ekki má síðan gleyma því að opið hagkerfi með lítinn gjaldmiðil er auðveldur skotspónn spákaupmanna. Síaukin hnattvæðing gerir það svo að verkum að smáir gjaldmiðlar verða viðkvæmari fyrir spákaupmennsku og breytingum í hinu alþjóðlega fjármálaumhverfi.
Að lokum
Krónan er ein helsta viðskiptahindrun Íslands. Til þess að Ísland haldist samkeppnishæft í framtíðinni verðum við að skipta krónunni út fyrir annan stöðugri gjaldmiðil. Íslendingar geta ekki leyft frjálsa för fjármagns, fylgt sjálfstæðri peningastefnu og um leið viðhaldið stöðugu gengi. Flestir Íslendingar halda reyndar í þá trú að þetta sé mögulegt. Það er hins vegar ekkert nema tálsýn. Þegar öllu er á botninn hvolft er það því ekki spurning um hvort heldur hvenær við munum taka hér upp nýjan og stöðugri gjaldmiðil.