Það má alltaf treysta því að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sé ekki með söguna á hreinu.
Marinó G. Njálsson skrifaði eftirfarandi á Facebooksíðu sína þann 12. desember síðastliðinn: „Árni Páll sagði í þinginu þegar breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum komu til atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu að hækkun á virðisaukaskatti úr 7% í 11% sé stærsta einstaka skattahækkun eftir hrun.
Kristinn Karl Brynjarsson, annar varaformaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.
Ég er ekki viss um að aldraðir og öryrkjar séu sammála þessari söguskýringu formanns Samfylkingarinnar. Ekki er ólíklegt að skattahækkunnarmetið hafi verið sett þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skerti frítekjumark lífeyrisþega um 60% í júní 2009. Til viðbótar var svo skerðing vegna tekna hækkuð úr 38,5% í 45%. Lífeyrisþegar fengu því 27% skattaglaðning á sig.
Og eigum við að rifja upp hver var félagsmálaráðherra á þessum tíma. Jú, hann heitir Árni Páll Árnason". En kannski er það bara alnafni formanns Samfylkingarinnar.
Það má svo auðvitað alltaf treysta því að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, láti ekki sitt eftir liggja þegar mikið liggur við.
Talar hún fyrir því, af mikilli sannfæringu að hækkun á bókum og geisladiskum/vinylplötum, vegna breytinga á virðisaukaskattsþrepum, megi líkja við það að verið sé að rífa lungu og nýru úr fólki.
Bók sem í dag kostar 5000 kr. fyrir vsk. hækkar um heilar 200 kr. Geisladiskur/vinylplata sem í dag kostar 2000 kr. fyrir vsk. hækkar um heilar 80 krónur. Þær hækkanir ásamt meintri aðför að RÚV verður sjálfsagt til þess að hér alist upp heilu kynslóðirnar af ólæsum börnum og menning muni nánast leggjast af ásamt því að íslenska verði ei töluð hér meir.
Eitthvað virðist svo forystusveit og fótgönguliðar stjórnarandstöðunnar misskilja vörugjöldin. Því ætla mætti að þau telji vörugjöldin eingöngu leggjast á ísskápa og flatskjái. Ætli vanþekking þeirra á viðfangsefninu sé það viðamikil að þeim yfirsjáist allir hinir 800 vöruflokkarnir?
Eða er þetta allt saman kannski bara valkvæður misskilningur?