Vaxtalaus bindiskylda getur dregið úr tapi Seðlabankans

frosti-715x320.jpg
Auglýsing

Brýnt er að draga nú þegar úr vaxta­tapi Seðla­bank­ans af við­skiptum við bank­ana. Frá hruni hefur vaxta­tapið numið rúm­lega 30 millj­örðum og enn bæt­ast við 800 millj­ónir á mán­uði. Færa má rök fyrir því að hægt sé draga úr þessu tapi um helm­ing með því að auka bindi­skyldu og hafa hana vaxta­lausa. Sam­kvæmt úttekt AGS beita 86 seðla­bankar vaxta­lausri bindi­skyldu. Seðla­banka Íslands ber að fara eins að til að draga úr tapi sínu og skatt­greið­enda.

 

Auglýsing

Óvenju­lega rúm lausa­fjár­staða bank­anna eftir hrun



Vegna rúmrar lausa­fjár­stöðu banka­kerf­is­ins eftir hrun hafa bank­arnir ekki þurft á lánum að halda hjá Seðla­bank­an­um. Bank­arnir hafa geymt um 200 millj­arða í Seðla­bank­anum og fengið meira en 30 millj­arða í vexti. Á sama tíma hefur Seðla­bank­inn fengið hverf­andi litlar vaxta­tekjur frá bönk­un­um.

Mynd 1 sýnir mán­að­ar­lega eigna- og skulda­stöðu Seðla­bank­ans gagn­vart bönk­unum und­an­far­inn ára­tug. Eignir (f. ofan strik) sýna lán Seðla­bank­ans til bank­ana en skuldir (f. neðan strik) sýna inn­lán og inn­stæðu­bréf bank­ana hjá Seðla­banka. Yfir­leitt ætti vaxta­munur Seðl­bank­ans að vera jákvæð­ur, en eftir hrun hefur vaxta­munur Seðla­bank­ans verið nei­kvæður um nálægt 10 millj­arða árlega. Á meðan staðan er óbreytt tapar Seðla­bank­inn um 800 millj­ónum á mán­uði á við­skiptum sínum við bank­ana.

Mynd 1 Við­skipti Seðla­bank­ans við fjár­mála­stofn­anir

Screen Shot 2014-12-14 at 22.35.03

Pen­inga­stefnu­nefnd er heim­ilt að beita vaxta­lausri bindi­skyldu



Seðla­bank­inn hefur sam­kvæmt gild­andi lögum og reglum afar rúmar heim­ildir til að ákveða hve mikið bindifé bankar skuli eiga á reikn­ingi í Seðla­banka og hvaða vexti þeir fá á slíka reikn­inga. Bindi­skyldu­hlut­fallið hefur verið 2% síðan 2003 en þá lækk­aði það úr 4%.  Í nóv­em­ber var bindiskylt fé (bindi­fé) aðeins 29 mia og ber sömu vexti og óbundið fé. Sam­kvæmt lögum gæti Seðla­bank­inn ákveðið bankar hefðu 100 mia bundna og að vextir á það bindifé væru 0%. Með því myndi Seðla­banki spara sér tæpa 5 millj­arða árlega. Seðla­bank­inn hefur mjög rúmar heim­ildir til að ákvarða fyr­ir­komu­lag og vexti bind­ing­ar.

Í 11. gr. laga um Seðla­banka nr. 36/2001 er Seðla­banka heim­ilað að ákveða að lána­stofn­anir skuli eiga bundið fé á reikn­ingi í Seðla­bank­an­um, þar seg­ir:

Seðla­banka Íslands er heim­ilt að ákveða að lána­stofn­anir skuli eiga fé á bundnum reikn­ingi í bank­an­um. Honum er einnig heim­ilt að ákveða að til­tek­inn hluti aukn­ingar inn­lána eða ráð­stöf­un­ar­fjár við hverja stofnun skuli bund­inn á reikn­ingi í bank­an­um, enda fari heild­ar­fjár­hæð sem við­kom­andi stofnun er skylt að eiga í Seðla­bank­anum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. þess­arar máls­grein­ar. Enn fremur er Seðla­bank­anum heim­ilt að ákveða að verð­bréfa­sjóðir skuli eiga fé á bundnum reikn­ingi í bank­an­um.

 Seðla­bank­inn setur nán­ari reglur1) um grund­völl og fram­kvæmd bind­ingar sam­kvæmt þess­ari grein, þar á meðal til hvaða lána­stofn­ana hún tek­ur. Í þeim má ákveða að bindi­hlut­fall sé mis­mun­andi eftir eðli lána­stofn­ana og verð­bréfa­sjóða og flokkum inn­lána og ann­arra skuld­bind­inga sem bind­ingin nær til. Gæta skal jafn­ræðis við ákvörðun bindi­skyldu þannig að hún valdi ekki röskun á sam­keppn­is­stöðu á milli þeirra inn­lendu fyr­ir­tækja sem sæta inn­láns­bind­ing­u.“

Í 24. gr. er pen­inga­stefnu­nefnd fært vald til að ákvarða bindi­skyldu og vexti

“Ákvarð­anir um beit­ingu stjórn­tækja bank­ans í pen­inga­málum eru teknar af pen­inga­stefnu­nefnd. Stjórn­tæki bank­ans telj­ast í þessu sam­bandi vera vaxta­á­kvarð­anir hans, …, ákvörðun bindi­skyldu skv. 11. gr.”

Reglu­gerð um bindi­skyldu nr. 373 frá 15. apríl 2008 heim­ilar banka­stjórn að ákveða vexti á bindifé sér­stak­lega eins og segir í 3. mgr. 6. gr. :

“Banka­stjórn ákveður sér­stak­lega vexti bindi­fjár en með­alinn­stæða á við­skipta­reikn­ingi umfram bindi­fjár­hæð ber vexti sem banka­stjórn ákveður fyrir við­skipta­reikn­inga bindi­skyldra fjár­mála­fyr­ir­tækja í Seðla­bank­an­um. “

Í febr­úar 2009 kom sú breyt­ing inn í lög að pen­inga­stefnu­nefnd tók við þeim verk­efnum banka­stjórnar sem vörð­uðu ákvarð­anir um pen­inga­stefnu. Svo virð­ist sem gleymst hafi að upp­færa orða­lag reglu­gerðar nr. 375 um bindi­skyldu til sam­ræmis við laga­breyt­ing­una og er ráðu­neyt­inu nú bent á þetta mis­ræmi. Engin rök hníga til þess að banka­stjóri taki einn ákvörðun um vexti á bindi­fé. Ákvörðun um að greiða vext­i á bindifé er nán­ast ígildi þess að veita fé úr rík­is­sjóði til bank­anna og því ætti slíkt vald ekki að vera á einni hendi.

Rök fyrir beit­ingu vaxta­lausrar bindi­skyldu



i) Seðla­banka ber að vinna að mark­miðum sínum með hag­kvæmum hætti

Í 3. gr. laga 36/2001 um Seðla­banka Íslands segir “meg­in­mark­mið Seðla­banka Íslands er að stuðla að stöð­ugu verð­lag­i.” Einnig segir í sömu grein “Seðla­bank­inn skal stuðla að fram­gangi stefnu rík­is­stjórn­ar­innar í efna­hags­mál­um, enda telji hann það ekki ganga gegn meg­in­mark­miði sínu skv. 1. mgr.”  Stefna rík­is­stjórn­ar­innar er meðal ann­ars sú að auka hag­kvæmni í rík­is­rekstri og skila halla­lausum fjár­lög­um. Eins og öðrum rík­is­stofn­unum ber seðla­banka því að skila sínu hlut­verki með hag­kvæmum hætti.

Kjósi seðla­banki að beita ekki hag­kvæm­ustu aðferðum í verk­efnum sín­um, þarf sú stefna að byggja á vönd­uðum rök­stuðn­ingi. Allur óþarfur kostn­aður í rekstri seðla­banka bitnar á getu hans til að greiða arð í rík­is­sjóð og gengur því gegn efna­hags­stefnu rík­is­stjórn­ar­innar og þar með 2. mgr. 3. gr. laga um Seðla­banka Íslands.

ii) 100 millj­arðar myndu duga til að tryggja virkni stýri­vaxta

Seðla­bank­inn setur lág­marks­vexti í land­inu með því að bjóða bönkum 4,75% vexti á um 200 mia í inn­stæð­um. Bankar hafa ekki hag af því að lána sínum við­skipta­vinum á lægri vöxtum en þeir geta fengið á inn­stæður í Seðla­bank­an­um. Það sama myndi gilda þótt Seðla­bank­inn ákvæði að  binda 100 mia af lausu fé bank­anna á vaxta­lausri bindi­skyldu og bankar myndu fá að hafa aðra 100 mia á 4,75% vöxt­um. Virkni pen­inga­stefn­unar væri með því jafn vel tryggð og áður, en tap Seðla­bank­ans yrði helm­ingi minna.

Rök gegn vaxta­lausri bindi­skyldu

Ýmis rök hafa verið sett fram gegn beit­ingu vaxta­lausrar bindi­skyldu. Hér verða þau helstu rak­in.

a) „Aðrir seðla­bankar nota ekki bindi­skyldu að ráði”

Því hefur verið haldið fram að bindi­skylda sé lítið notuð af erlendum seðla­bönk­um, virkni hennar lítt þekkt og því ekki til­efni til  að beita henni hér.

Það alrangt að bindi­skylda sé lítið notuð af seðla­bönkum heims­ins. Sam­kvæmt úttekt IMF (2010) meðal 121 seðla­banka voru aðeins níu seðla­bankar sem ekki not­uðu bindi­skyldu. Yfir­gnæf­andi meiri­hluti (71%) eða 86 seðla­bankar beita vaxta­lausri bindi­skyldu.

b) „Ekki ljóst hver áhrif auk­innar bindi­skyldu væru”

Talað hefur verið um að ekki sé hægt að segja nákvæm­lega fyrir um hver áhrifin yrðu af því að auka bindi­skyldu og greiða enga vexti af henni. Því sé ekki óhætt að fara þá leið.

Vissu­lega er erfitt að segja nákvæm­lega fyrir um áhrif­in. En sama má segja um breyt­ing­ar á stýri­vöxt­um, þó er stýri­vöxt­u­m breytt. Seðla­bank­inn hefði getað aflað reynslu af bindi­skyldu­tæk­inu með því að taka smá skref og mæla áhrif­in. Dýr­mætur tími hefur farið til spillis án þess að slíkrar reynslu hafi verið afl­að.

c) „ESÍ á að standa undir tap­inu”

Því hefur verið haldið fram að vaxta­tap Seðla­bank­ans gagn­vart bönk­unum sé alls ekki vanda­mál, því á móti komi tekjur af Eigna­safni Seðla­bank­ans (ESÍ).

Eigna­safnið taldi ríf­lega 200 mia í verð­bréfum (októ­ber 2014). Eign­irnar eiga rót sína að rekja til veða sem Seðla­bank­inn leysti til sín í kjöl­far hruns­ins. Talið var mik­il­vægt að halda eigna­safn­inu aðskildu frá öðrum eignum og við­fangs­efnum Seðla­bank­ans. Þessi aðgrein­ing frá annarri starf­semi er áréttuð í svari ráð­herra við fyr­ir­spurn á þingi :

“Með því að færa umsýslu krafna og fulln­ustu­eigna í sér­stakt félag skap­að­ist ákveðin fjar­lægð frá hefð­bund­inni starf­semi Seðla­bank­ans og þar með dregið úr hættu á að þessi við­fangs­efni rek­ist á við önnur verk­efni bank­ans auk þess sem svig­rúm fæst til að auka verð­gildi eign­anna.” – heim­ild (þing­skjal 1100/141)

ESÍ og arður af því mun ekki bæta nema brot af því gríð­ar­lega tjóni sem Rík­is­sjóður og Seðla­banki urðu fyrir við fall bank­ana. Það er því frá­leitt að líta á arð­inn af ESÍ sem ígildi vaxta­tekna frá núver­andi banka­kerfi og enn frá­leit­ara að ráð­stafa arð­inum af ESÍ til að fjár­magna vaxta­út­gjöld til nýju bank­ana.

Vera má að ESÍ hafi selt nýju bönk­unum hluta af þeim veðum sem voru í safn­inu, og bank­arnir hafi gefið út og selt Seðla­bank­anum skulda­bréf til að standa straum af þeim kaup­um. Það eru samt ekki gild rök til þess að vextir af þeim skulda­bréfum eigi að renna aftur til bank­anna í formi nei­kvæðs vaxta­munar Seðla­bank­ans. Enda njóta bank­arnir arðs af þeim eignum sem þeir keyptu af ESI.

Það er ekki hægt að rétt­læta að arður af ESI verði not­aður til að fjár­magna vaxta­út­gjöld til banka­kerf­is­ins. Afkoma ESI ætti að vera aðskilin frá hefð­bundnum rekstri Seðla­bank­ans. Skoða mætti að flytja yfir­um­sjón með ESI til Banka­sýslu Rík­is­ins til að tryggja betri aðskilnað frá dag­legum rekstri Seðla­bank­ans.

d) „Lágir vextir á bindifé eru skatt­lagn­ing”

Flestir seðla­bankar, eða um 86 af alls 121 seðla­bönkum sem könnun AGS (2010) nær til, nota vaxta­lausa bindi­skyldu. Seðla­banka Íslands er skv. lögum og reglum heim­ilt að fara eins að. Ekki er kunn­ugt um að dómar hafi fallið um að ákvæði um bindi­skyldu án vaxta séu skattur eða stang­ist á við stjórn­ar­skrá.

Bindi­skylda með lágum vöxtum er vel þekkt frá fyrri tíð og þá var henni að sjálf­sögðu and­mælt af tals­mönnum bank­anna. Í við­tali við Morg­un­blaðið árið 1990 and­mælti Tryggvi Páls­son þáver­andi banka­stjóri Íslands­banka 7% bindi­skyldu sem bar lægri vexti en útlán bank­anna og sagði að hún gerði sam­keppn­is­stöðu inn­lendra banka verri gagn­vart erlendum bönk­um, hún væri: “Ein­hliða skatt­lagn­ing og órétt­læt­an­leg” . Í sömu grein var rætt við Jóhannes Nor­dal, seðla­banka­stjóra sem sagði af því til­efni:

“En, þar að auki, þar sem bind­ing er ann­ars staðar af þessu tagi, eru engir vextir greiddir af henni, svo að ég efast um að þetta skekki mynd­ina veru­lega.”

Heim­ild Mbl. 8. maí 1990 htt­p://www.mbl.is/­greina­safn/­grein/49781/

Bindi­skylda á lágum vöxtum eða vaxta­laus er ekki ný hug­mynd. Hún hefur verið notuð á Íslandi og ekki leitt til dóms­mála svo vitað sé og henni er beitt hjá flestum seðla­bönk­um.

Bankar eiga ekki sjálf­sagðan rétt á því að fá raun­vexti á bindifé á kostnað skatt­greið­enda. Hafa ber í huga að það er ofgnótt lausa­fjár í kerf­inu og Seðla­banka er skylt að bregð­ast við þeirri stöðu með þeim stýri­tækjum sem duga. Bind­ing án vaxta er ekki alslæm fyrir banka, enda nýtur bindifé í Seðla­banka rík­is­á­byrgð­ar. Bindifé án vaxta gefur bönkum auk þess hvata til að vinna gegn verð­bólgu og styður þannig við mark­mið seðla­bank­ans um verð­stöð­ug­leika.

Þótt 100 mia bindifé yrði án vaxta, þá myndu bank­arnir áfram fá vexti á aðra 100 millj­arða sem þeir munu áfram eiga óbundna í Seðla­bank­an­um. Bank­arnir munu vissu­lega græða eitt­hvað minna á Seðla­bank­anum en áður. En samt myndu bank­arnir græða á við­skiptum við Seðla­bank­ann án þess að taka nokkra áhættu. Það er ekki skatt­lagn­ing.

e) „Af­koma Seðla­bank­ans auka­at­riði”

Seðla­banka­stjóri svar­aði spurn­ing­unni um hvor ekki bæri að nota bindi­skyldu til að draga úr tapi Seðla­bank­ans þannig:

„Það er ekki rétt í okkar huga að ræða þetta með stjórn­tækin út frá því hvort það er tap eða hagn­aður á bank­anum vegna þess að það er second-ert í þessu sam­bandi. Heldur hitt; eru stjórn­tækin nógu góð til að ná þessum mark­miðum sem bank­anum eru sett,“Visir 17. 11. 14

Það verður ekki fall­ist á að afkoma Seðla­bank­ans sé “second-ert” enda getur hún ráðið úrslitum um afkomu rík­is­ins í heild. Það hlýtur að vera sjálf­sögð skylda allra rík­is­stofn­ana að upp­fylla hlut­verk sitt án óþarfa kostn­að­ar.

Rík­is­stjórnin leggur áherslu á ábyrga efna­hags­stjórn, halla­laus fjár­lög og lækkun skulda og er afkoma Seðla­bank­ans alls ekki auka­at­riði í því sam­hengi. Færa má rök fyrir því að skuldir rík­is­sjóðs gætu í dag verið 15 millj­örðum minni ef Seðla­bank­inn hefði beitt vaxta­lausri bindi­skyldu eftir hrun til að binda helm­ing þess lausa­fjár sem hefur verið á vöxtum í Seðla­banka.

f) „Vaxta­munur bank­anna gæt­i ­aukist”

Ef hagn­aður banka af við­skiptum við Seðla­banka minnkar má búast við að þeir reyni að bæta sér það upp með því að hækka útláns­vexti eða lækka inn­láns­vexti eða hvort tveggja. Hækkun á bindi­skyldu geti bitnað á við­skipta­vinum bank­anna.

Það er ekki hægt að úti­loka að bankar auki vaxta­mun sinn. Við­skipta­vinir bank­anna hafa þá tæki­færi til að færa við­skipti sín til þeirra banka sem auka vaxta­mun­inn minna eða bjóða betri kjör. Þótt sam­keppni á banka­mark­að­i ­mætti vera meiri, þá er hún samt ein­hver.

Af tvennu illu er betra að vaxta­munur banka hækki og neyt­endur geti brugð­ist við því, það er skárra en að bankar fái millj­arða úr vösum skatt­greið­enda á ógagn­sæjan hátt og án þess að skatt­greið­endur get­i rönd við reist.

Um sjálf­stæði Seðla­bank­ans



Seðla­bank­anum er falið mikið sjálf­stæði í mótun og fram­kvæmd pen­inga­stefnu. Með sjálf­stæði seðla­banka er ætl­unin fyrst og fremst sú að koma í veg fyrir að rík­is­stjórnir eða stjórn­mála­menn beiti sér fyrir aukn­ingu pen­inga­magns eða lækkun stýri­vaxta í aðdrag­anda kosn­inga í þeim til­gangi að auka vin­sældir sín­ar. Seðla­bank­inn þarf að sjálf­sögðu að geta staðið gegn slíkum þrýst­ingi.

Með þess­ari grein er ein­göngu gerð krafa um aukið aðhald í rekstri Seðla­bank­ans. Þar með er ekki ætl­unin að vega að sjálf­stæði Seðla­bank­ans, enda hvorki verið að leggja til aukn­ingu pen­inga­magns eða lækkun stýri­vaxta. Til­efnið er að draga úr tapi af við­skiptum Seðla­bank­ans við bank­ana og verja með því hags­muni rík­is­sjóðs og skatt­greið­enda.

Nið­ur­staða



Með því að beita vaxta­lausri bindi­skyldu gæti Seðla­banki dregið úr nei­kvæðum vaxta­mun sínum við bank­ana um hund­ruð millj­óna á mán­uði. Í stað þess að nota vaxta­lausa bindi­skyldu til að draga úr tapi sínu hefur Seðla­bank­inn fjár­magnað hall­ann með tekjum af ESI og seðla­prent­un. Engin rök hníga til þess að arður af ESI og seðla­prentun eigi að renna til nýju bank­anna með þessum hætti.

Flestir erlendir seðla­bankar beita vaxta­lausri bindi­skyldu og Seðla­bank­inn ætti að fara að þeirra fyr­ir­mynd til að draga úr tapi sínu. Seðla­bank­inn gæti byrjað á því að afnema vexti af þeim 29 millj­örðum sem þegar eru á bindi­skyldu. Í fram­hald­inu getur Seðla­banki aukið bindi­skyld­una í skrefum upp í 100 millj­arða og þannig dregið úr tapi sínu um 4 millj­arða á árs­grund­velli.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiÁlit
None