Síðustu hindrunum fyrir vegagerð um Teigskóg í Þorskafirði hefur verið rutt úr vegi og framkvæmdir komnar á rekspöl. Baráttan fyrir því að vernda náttúru svæðisins og leita annarra valkosta við vegagerð hefur verið löng og á köflum óvægin. Niðurstaðan var náttúruverndarfólki mikil vonbrigði. Ódýrasta lausnin fyrir Vegagerðina varð fyrir valinu. Sú lausn er þó að mínu mati sú dýrasta. Það gleymdist nefnilega að meta til fjár þau spjöll sem unnin verða á náttúru Íslands. Slík vinnubrögð eru viðvarandi vandi sem verður að leiðrétta.
Vernduðum svæðum á náttúruminjaskrá verður spillt
Teigsskógur er eitt stærsta samfellda skóglendi á Vestfjörðum. Hann er óslitinn frá fjöru og upp í hlíðar og myndar einstakt samspil með leirum og grunnsævi. Báðar þessar vistgerðir, birkiskógurinn og leirurnar, njóta verndar í gildandi náttúruverndarlögum. Þá er svæðið allt verndað með sérlögum um Breiðafjörð og áhrifasvæði framkvæmdanna eru á náttúruminjaskrá. Vegurinn spillir þessum verðmætum og er ósamrýmanlegur framangreindum verndunarákvæðum
Eyðilegging á náttúru Íslands er ekki okkar einkamál
Veglagning um Teigsskóg brýtur í bága við ákvæði Bernarsamningsins um verndun tegunda og búsvæða sem Ísland á aðild að. Málið var tekið upp á vettvangi samningsins við lok síðasta árs og þar var varað við framkvæmdum í Teigsskógi. Í kjölfarið hefur skrifstofa Bernarsamningsins og boðað komu sína til landsins að kanna stöðu mála.
Hæstiréttur dæmdi náttúrunni í vil
Verum þess minnug að áform um vegagerð um Teigsskóg voru stöðvuð með dómi Hæstaréttar árið 2009. Vegagerðin nýtti því miður ekki dómsorð Hæstaréttar til að leita annarra og umhverfisvænni leiða til að bæta samgöngur á svæðinu. Alþingi breytti lögum um mat á umhverfisáhrifum til að liðka almennt fyrir framkvæmdum og draga úr vægi náttúruverndar. Vegagerðin notfærði sér þá breytingu og gerði nýja atlögu að Teigskógi, atlögu sem hefur heppnast.
Það er aldrei bara ein leið
Landvernd hefur um langt árabil reynt að koma í veg fyrir áform um vegagerð um Teigsskóg – eins og samtökunum ber skylda til þegar svo mikil náttúruverðmæti eru í húfi. Um leið hefur Landvernd bent á mun betri valkost frá sjónarhorni náttúruverndar fyrir þessar mikilvægu vegabætur. Sú lausn felst í því að leggja jarðgöng undir Hjallaháls og Gufudalsháls (sjá ályktun aðalfundar 2007 og skýrslu Landverndar um jarðgöng á Vestfjörðum). Sveitarfélagið Reykhólahreppur kom enn fremur með tillögu að brú af Reykjanesi yfir í Skálanes (Sveitarstjórn réði ráðgjafafyrirtækið Viaplan til að vinna skýrsluna, sem gefin var út í desember 2018 og uppfærð í febrúar 2019). Báðum þessum lausnum hafnaði Vegagerðin.
Vegagerðin valdi langversta kostinn
Mat á umhverfisáhrifum sýndi einnig að fyrir hendi voru raunhæfar, mun betri aðferðir til að útfæra þá leið sem Vegagerðin vildi. Að mati Landverndar bar Vegagerðinni því að fara að niðurstöðu valkostamats í stað þess að velja Teigsskógarleiðina sem svo miklum skaða veldur á náttúru svæðisins.
Vegagerðin reiknar vitlaust
Vegagerðin metur ekki til fjár þann skaða sem óneitanlega verður á náttúruverðmætum. Þess vegna verða útreikningarnir rangir og afleiðingin sú að leiðarval byggir á röngum forsendum.
Spyrja má hvort mat á umhverfisáhrifum sé í raun óþarft ef framkvæmdaraðilar geta þannig sleppt því að meta til fjár þann skaða sem tiltekin framkvæmd veldur.
Horfum fram á við og gerum betur
En það er ekki ástæða til að dvelja lengi við fortíðina. Náttúruverndarfólki er brugðið og íbúar á svæðinu hafa fundið sig svikna af gömlum og margítrekuðum loforðum um samgöngubætur. Drögum lærdóm af málinu og eflum baráttuna fyrir vernd íslenskrar náttúru og vinnum að samgöngubótum í sátt við náttúruna. Hlustum eftir ábendingum frá Bernarsamningnum þegar sú mikilvæga stofnun hefur kannað málsástæður. Málið verður nú lagt inn í reynslubankann. Í framtíðinni verður að koma í veg fyrir að kostnaður við framkvæmdir ráði einn um val á vegastæði. Sá kostnaður segir aðeins hluta sögunnar. Leggja verður fjárhagslegt mat á þau náttúruspjöll sem framkvæmdum fylgja svo raunverulegur kostnaður komi fram og bera valkosti saman á þeim grunni. Hagfræðin býr yfir aðferðum sem beita má í þeim tilgangi og mikilvægt að Vegagerðin tileinki sér þær. Það er löngu tímabært að Vegagerðin meti raunverulega kostnað við framkvæmdir og ákvörðun sé ekki byggð á fölskum grunni eins og vegur um Teigskóg er dæmi um.
Höfundur er formaður Landverndar.