Eins og virðist ætla að verða raunin, þá munu breytingar ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskatti og afnám vörugjalda skila velflestum heimilum í landinu auknum ráðstöfunartekjum.
Ráðast ætti í næstu skattabreytinar í tengslum við gerð nýrra kjarasamninga á næstu mánuðum. Þá þarf að lækka tryggingargjaldið verulega sem og aðra skatta á atvinnulífið. Skatta sem að hin norræna velferðarstjórn, er sat hér á síðasta kjörtímabili, kom að mestu á. Skal það gert í þeim tilgangi að veita atvinnulífinu meira svigrúm til hækkunar launa og fjölgun starfa í landinu.
Kristinn Karl Brynjarsson.
Fjölgun starfa þyrfti þó að mestu að vera í framleiðslugreinunum á kostnað þjónustugreina svo ávinningurinn af hverju nýju starfi verði sem mestur.
Á komandi haustþingi eiga svo stjórnvöld að vinna að því að færa þrep virðisaukaskatts enn nær hvort öðru til dæmis um fjögur prósent hvort um sig í átt að hvort öðru.
Verði einhverra mótvægisaðgerða þörf við þær breytingar væri óvitlaust að taka út miðþrepið í tekjuskattnum. Enda bitnar það þrep helst á millistéttinni í landinu, eða þorra þeirra sem eru á vinnumarkaði. Einnig ætti að lækka tekjuskattsprósentuna niður í 35 prósent eins og hún var árið 2008. Halda ætti hátekjuskattinum inni eitthvað áfram, en hækka viðmið hans upp í 1 - 1,2 milljónir.
Þá verður lægra þrep virðisaukaskatts komið í 15 prósent og það hærra í 20 prósent og tekjuskattur þorra launamanna í landinu verður þá 35 prósent.
Í tengslum við síðustu fjárlög kjörtímabilsins ætti svo að koma þrepum virðisaukaskatts saman í eitt þrep 17 -18 prósent.
Við alla þessa vinnu þarf þó ríkja skilyrðislaus agi í ríkisfjármálum, þ.e. að ríkissjóður verði rekinn með afgangi. Þarf í þeirri viðleitni að ráðast enn frekar á ýmsa útgjaldaliði ríkissjóðs sem ekki beinlínis falla undir grunnþarfir eða grunnþjónustu.
Jafnframt þarf hér eftir sem hingað til að forgangsraða í þágu grunnþarfa þjóðarinnar, eins og heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála, öryggismála og annarra innviða sem við sem þjóð byggjum afkomu okkar á.
Höfundur er annar varaformaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.