Stundum koma upp mál sem eru þess eðlis að það er beinlínis þjóðhagslega mikilvægt að fjölmiðlar taki til þeirra mjög skýra afstöðu í ritstjórnarskrifum. Mál sem eru annað hvort svo nauðsynleg eða svo galin að öllu skyni bornu fólki ber skylda til að mynda sér skynsamlega afstöðu gagnvart því.
Eitt slíkt mál er Leiðréttingin, tilviljunarkennd gjöf ríkisstjórnar á 80 milljörðum króna til hóps húsnæðislántaka sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Um 90 prósent af upphæðinni fer til fólks sem er eldri en 33 ára, um 32 prósent, eða tæpir 26 milljarðar króna, fer til fólks sem er eldra en 56 ára og tæplega 30 þúsund manns sem skulda undir tíu milljónum króna fá gefins peninga. Fullt af fólki sem á fullt af peningum fékk fullt af peningum í viðbót. Gefins. Frá hinum.
Til að strá salti í sárin var Leiðréttingin kölluð „Sáttmáli kynslóðanna“ þegar fyrir liggur að engin ein efnahagsaðgerð hefur stuðlað að jafn stórtækri millifærslu á skattfé allra til einhvers hóps fólks sem margt hvert þarf ekkert á umræddri gjöf að halda. Gott dæmi um slíkan er þessi lesandi Kjarnans sem sendi okkur Leiðréttinguna sína.
Skömmin bítur í skottið á sér
Kjarninn tók afstöðu í ritstjórnargreinum gegn Leiðréttingunni. Sú ákvörðun var byggð á skynsemi og gögnum eftir að staðreyndir málsins höfðu verið skoðaðar. Það er ekki skynsamlegt að gefa hluta þjóðarinnar 80 milljarðar króna af peningum allra. Og nánast allar greiningar sem ekki voru beinlínis unnar fyrir ríkisstjórnina í tengslum við útfærslu Leiðréttingarinnar hafa komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðin væri skömm sem myndi bíta í skottið á sér. Með henni væri verið að pissa í skóinn.
Þegar allt var dregið saman blasti við ritstjórn Kjarnans að Leiðréttingin væri óréttlát og tilviljanakennd aðgerð sem væri til þess fallin að auka misskiptingu milli þeirra sem eiga mikið og þeirra sem eiga ekkert. Hún myndi valda hækkun á verðbólgu og miklum ruðningsáhrifum á fasteignamarkaði sem myndi gera það að verkum að lægst launaða fólk þjóðarinnar, sem sannarlega fékk enga Leiðréttingargjöf úr ríkissjóði, yrði í mun verri aðstöðu til að koma þaki yfir höfuðið en áður. Og almennt til að ná endum saman.
Fyrir þessa afstöðu, sem fjölmargir aðrir innan fjölmiðlastéttar og víða annarsstaðar í samfélaginu höfðu líka, höfum við þurft að þola mikið af ásökunum um óeðlilegheit. Að þessi skoðun sem sett hafi verið fram í ritstjórnargreinum eigi sér einhverjar flokkspólitískar rætur. Að hún sé runnin undan rifjun erlendra hrægamma sem áttu upphaflega að fjármagna kosningatékka Framsóknarflokksins, áður en að ákveðið var að láta ríkissjóð gera það. Að við séum svo hræðilega vont fólk að við viljum ekki leiðrétta ranglæti. Allt er auðvitað rugl, en tilgangurinn helgar meðalið.
Leiðréttingin hækkar skuldir landsmanna
En það er ekki hægt að leiðrétta ranglæti með enn meira ranglæti. Og nú eru afleiðingarnar farnar að láta á sér kræla. Því miður staðfesta þær allt það sem gagnrýnisraddirnar bentu á. Í ársskýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að Leiðréttingin kosti sjóðinn, sem er í eigu og á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda, 900 til 1.350 milljónir króna á ári vegna vaxtataps. Ríkissjóður hefur samþykkt að bæta sjóðnum þetta tjón hans, en gegn því að engin krafa verði færð á ríkissjóð vegna þess. Það þýðir á mannamáli að tap Íbúðalánasjóðs vegna Leiðréttingarinnar, sem mun uppsafnað hlaupa á milljörðum króna, verður geymt utan ríkisreiknings fyrir komandi kynslóðir að borga.
Vísitala neysluverðs hækkaði um rúmt prósentustig í síðasta mánuði. Það er ein skarpasta hækkun sem átt hefur sér stað á henni í mjög langan tíma. Og hún þýðir vitanlega að höfuðstóll allra verðtryggðu lánanna sem verið var að leiðrétta hækkar í takt við rísandi neysluverðsvísitölu.
Verðbólga á ársgrundvelli hækkaði samhliða úr 0,8 prósent í 1,6 prósent. Samkvæmt greiningaraðilum er ástæða hækkunarinnar meðal annars hækkun húsnæðisverðs, sem rakið er beint til aukins svigrúms í kjölfar Leiðréttingarinnar. Án húsnæðisliðarins er verðhjöðnun á Íslandi. Einmitt vegna þess að húsnæðisverð er hluti af neysluvísitölunni hérlendis, sem hún er ekki í flestum öðrum löndum, er Leiðréttingin vítaverð efnahagsaðgerð.
Verðbólga á ársgrundvelli hækkaði samhliða úr 0,8 prósent í 1,6 prósent. Samkvæmt greiningaraðilum er ástæða hækkunarinnar meðal annars hækkun húsnæðisverðs, sem rakið er beint til aukins svigrúms í kjölfar Leiðréttingarinnar. Án húsnæðisliðarins er verðhjöðnun á Íslandi. Einmitt vegna þess að húsnæðisverð er hluti af neysluvísitölunni hérlendis, sem hún er ekki í flestum öðrum löndum, er Leiðréttingin vítaverð efnahagsaðgerð.
Á sama tíma verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir hina, sem eru annað hvort fastir á leigumarkaði þar sem leiga hefur hækkað um 41 prósent á fjórum árum eða reyna að nurla saman fyrir útborgun fyrir eigin íbúð, að borga fyrir húsnæði.
Leiðréttingin hefur því aukið skuldir landsmanna og gert þeim verst settu enn erfiðara fyrir að takast á við sín stærstu hversdagslegu vandamál.
Fordæmi komið svo popúlisminn geti endurtekið sig
Þetta er staðan og hún magnast enn frekar vegna þeirra stóru vandamála sem eru framundan. Fyrst ber að nefna það stríð sem geisar á vinnumarkaði og yfirvofandi fjöldaverkföll vegna þess. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að hífa lægstu laun upp í möguleikann á því að geta bæði borðað og búið einhvers staðar eru að hluta til bein afleiðing af þeirri stöðu sem er á húsnæðismarkaði. Og sú staða hefur verið gerð enn erfiðari með Leiðréttingunni.
Auk þess hafa bæði seðlabankastjóri og fjármála- og efnahagsráðherra sagt nýverið að einhver losun fjármagnshafta sé framundan í nánustu framtíð. Þau skref munu alltaf valda einhverju efnahagslegu ójafnvægi og meðal annars gæti verðbólga aukist. Þá væri gott að hafa sleppt handvirku verðbólguaukningunni sem Leiðréttingin skilaði okkur.
Og draumur Framsóknarmanna um að banna verðtryggð lán virðist ákaflega fjarlægur. Neytendur vilja enda taka verðtryggð lán þrátt fyrir allt. Í nýlegri fréttaskýringu Kjarnans kom meðal annars fram að 65 prósent nýrra íbúðalána Landsbankans, sem lánaði langmest allra út í ný íbúðalán í fyrra, hefðu verið verðtryggð.
Við næsta verðbólguskot, sem íslensk efnahagssaga segir okkur að sé óumflýjanleg, þá mun þessi hópur verðtryggðra lántakenda auðvitað heimta Leiðréttingu. Og popúlisminn endurtekur sig.
Velkomin í afleiðingarnar
Gagnrýni á Leiðréttinguna eldist ákaflega vel. Hún hefur opinberað sig sem mjög óréttlát, misskipt og ómarkviss aðgerð sem ráðist var í til að standa að einhverju leyti við loforðið sem fleytti Framsóknarflokknum í ríkisstjórn. Mikil er ábyrgð hins stjórnarflokksins sem kokgleypti þessa vitleysu.
Eftir að þriðji Leiðréttingarblaðamannafundur leiðtoga stjórnarflokkanna var haldinn í nóvember, þar sem útfærsla peningagjafanna var útskýrð, bjuggust eflaust margir við því að fylgi stjórnarflokkanna myndi æða upp. Þeir voru enda að gefa fólki peninga.
Mjög margir þeirra sem fengu lottóvinning eru ákaflega ósáttir við hversu lítið situr eftir af honum þegar búið er að draga öll hin skuldaúrræðin sem þeir voru þegar búin að nýta frá. Hinir sem hafa séð aðgerðina fyrir það sem hún er, ákaflega óréttlátt lýðskrum, hafa styrkst í andstöðu sinni gegn henni ef eitthvað er. Einu sem virðast virkilega sáttir eru hinir mjög ríku sem fengu óvænta uppfærslu á skíðafríin sín næstu árin í boði íslenskra skattgreiðenda.
Annað hefur hins vegar komið í ljós. Mjög margir þeirra sem fengu lottóvinning eru ákaflega ósáttir við hversu lítið situr eftir af honum þegar búið er að draga öll hin skuldaúrræðin sem þeir voru þegar búnir að nýta frá. Hinir sem hafa séð aðgerðina fyrir það sem hún er, ákaflega óréttlátt lýðskrum, hafa styrkst í andstöðu sinni gegn henni ef eitthvað er. Einu sem virðast virkilega sáttir eru hinir mjög ríku sem fengu óvænta uppfærslu á skíðafríin sín næstu árin í boði íslenskra skattgreiðenda. Fyrir vikið er fylgi Sjálfstæðisflokksins pikkfast í kjarnafylginu og Framsókn, sem mælist með um ellefu prósent fylgi á góðum degi, er óvinsælli en flokkurinn var áður en að Sigmundur Davíð tók við sem formaður.
Morgunljóst er að reiðin í garð aðgerðanna á bara eftir að aukast næstu misserin með aukinni verðbólgu og hækkandi húsnæðisverði. Skýrsla Bjarna Benediktssonar um endanlega misskiptingu fjárhæðarinnar á milli tekju- og aldurshópa, sem væntanleg er á þessu vorþingi, mun án nokkurs vafa virka sem olía á þann eld.
Velkomin í afleiðingar þess sem gerist þegar stjórnmálaflokkur kaupir kosningar.