Umræðan er komin á skrýtin stað. Stjórnmálaflokkur sem býður upp á oddvita sem varar við því að ein trúarbrögð fái úthlutað lóð samkvæmt landslögum fyrir hús til að biðja í, af ótta við að það endi með landslagasetningu til að koma í veg fyrir þvinguð hjónabönd, lýsir því hneykslanlega yfir þegar hann er gagnrýndur að hugmyndafræði hans byggi á frjálslyndi og skynsemi. Það að hræðast eitthvað einvörðungu vegna þess að það er öðruvísí, og reyna síðan að telja öðru fólki trú um að það eigi að vera hrætt við það, er í raun andstaðan við frjálslyndi og skynsemi.
Líkt og alltaf rís svo pólitísk rétttrúnaðarkirkja og fordæmir viðkomandi einstaklinga og stjórnmálaflokka með allt of miklum ofsa og vill meina þeim að fá að vera heimsk, jafnvel með lögum. Í kjölfarið vakna sjálfskipaðir frjálshyggjupáfar og fordæma réttrúnaðinn fyrir að vilja skerða frelsi og bara leyfa „réttar“ skoðanir en sleppa því að tækla þá staðreynd að í upphaflega málflutningnum er verið að takmarka frelsi ákveðinna trúarbragða að byggja sér kofa við umferðaræð.
Það er nefnilega ókosturinn við frelsið að margir kjósa að misnota það til að kæfa eða skaða aðra. Það sást vel í bankahruninu. Í þeirri umræðu sem nú geisar á það við um alla ofangreinda hópa.
„Ég er ekki rasisti, en...“
Íslendingar vilja meina að við séum mjög umburðarlynd þjóð. Sem heild erum við það ekki. Stórir hópar innan samfélags okkar kunna til dæmis mjög vel að vera skíthræddir við hluti sem þeir skilja ekki, þekkja ekki og vita í raun ekkert um.
„Ég er ekki rasisti, en...“ er byrjun á setningarunu sem ég hef heyrt í óteljandi skipti á minni ævi frá fólki innan fjölskyldunnar, sem ég hef verið með í skóla, unnið með eða hitt á öðrum stað í litrófinu. Í kjölfarið fylgir iðulega annað af tvennu: blammering á einhverri tegund kynþáttar eða þjóðar fyrir að vera til trafala á Íslandi eða ósmekklegur brandari þar sem svartur maður er kallaður „niggari“ eða Asíubúi „grjón“. Þessi andúð og hræðsla byggir iðulega á tilfinningu, ekki rökum. Og þar sem tilfinningar eru oft skynsemi eða rökræðu sterkari eru þær gerðar að aðalatriðinu þegar ákvarðanir eru teknar. Ákvarðanir á borð við að kjósa.
Hræðsla sem vinsælt kosningatrikk
Það er því vinsælt kosningatrikk til að hala inn atkvæði með því að höfða til tilfinninga þeirra sem láta þær stýra ákvörðunartöku sinni. Það skiptir ekki máli hvort tilfinningin er hræðsla, upplifun á óréttlæti eða samstaða gegn meintum óvinum. Slík kosningatrikk eiga oft ekkert að duga lengur en fram yfir kosningar og eru sannarlega ekki alltaf hluti af grundvallarstefnu þeirra stjórnmálaflokka sem taka þau upp á sína arma.
Þegar trikkið er ekkert annað en innihalds- og rakalaus hræðsluáróður sem í felst að minnsta kosti ýjun að skerðingu á stjórnarskrárvörðum mannréttindum einhverra minnihlutahópa þá eru töframennirnir oft ásakaðir um að iðka fasisma. Og verða mjög sárir og reiðir í kjölfarið.
Það er skiljanlegt að stjórnmálahreyfingar vilji ekki láta kenna sig við fasisma. Hann er enda mjög ómanneskjuleg og mótsagnarkennd hugmyndafræði sem hefur valdið heimsbyggðinni ómældu tjóni og sársauka í gegnum aldirnar. Og þann fasisma sem náði fótfestu í mörgum stórum ríkjum Evrópu í byrjun 20. aldarinnar er auðvitað ekki hægt að yfirfæra á neitt, eða alla vega mjög fátt, sem fyrir finnst í íslenskri umræðu.
En ýmislegt í fasistastefnunni lifir góðu lífi þar og er fóðrað af ranghugmyndum, lélegum upplýsingum og hræðslu við hið óþekkta af skammlausum stjórnmálamönnum. Því fasismi er meðal annars andstaða við einstaklingsfrelsi, varðstaða um kristilegt siðgæði, höfnun mannréttinda ef það er talið til hagsbóta fyrir þá hugmynd um almannahag sem viðkomandi hefur og hvatning til að mynda einingu gagnvart meintum óvinum þjóðarinnar. Og stundum fylgir honum líka rík kynþáttahyggja, þar sem einn kynþáttur, trúarhópur eða þjóðflokkur er sagður æðri öðrum.
Það getur varla talist annað en andstaða við einstaklingsfrelsi og höfnun á grundvallarmannréttindum þegar ýjað er að því að trú einhvers sé innviðum samfélags svo hættuleg að útbreiðslu hennar verði að stöðva með almannahag að leiðarljósi. Annars geti hún verið ógn við inngróið kristlegt siðgæði. Og hvatning til einingu gagnvart meintum óvinum þjóðarinnar er eitthvað sem við erum orðin þrælvön á eftirhrunsárunum. Hvort sem hinn meinti óvinur eru Bretar og Hollendingar, Evrópusambandið eða vondir hrægammasjóðir. Sum hráefni í hinum órökrétta fasisma er því sannarlega að finna í íslenskri umræðu, þótt enginn einn flokkur hafi gert þau að sínum helstu stefnumálum.
Stjórnarskrárvarinn réttur
Það er ekkert nýtt af nálinni að ala á ótta við Islam. Raunar hefur það verið nokkuð leiðandi stef í stjórnmálum margra vestrænna ríkja á undanförnum árum, sérstaklega í kjölfar hryðjuverkaárásanna á tvíburaturnanna í New York í september 2001.
En rétturinn til að trúa á himnafeðga, Múhammeð, skurðgoð, inniskó eða lúpínuseyði er stjórnarskrárvarinn réttur hvers og eins. Þótt hluti þeirrar sirka 1,6 milljarð manna sem teljast til Islam-trúar nýti sér sína túlkun á trúarbrögðunum til að brjóta á sjálfsögðum mannréttindum þá er það engin ástæða til að hræðast það að þeir rúmlega 700 múslimar sem búa á Íslandi fái að byggja sér mosku. Þeir lúta enda allir íslenskum lögum og þau öfgafullu mannréttindabrot sem framin eru í nafni Islam víðsvegar um heiminn standast ekki þau lög.
Sama má raunar segja um fjölda þeirra sömu brota sem framin hafa verið, og eru enn víða framin, i nafni kristni. Stjórnarskrá okkar tiltekur líka að mannréttindi séu virt og lög okkar verja þau mannréttindi. Sá sem vill brjóta gegn þeim mannréttindum, hvort sem það er á grundvelli kynhneigðar, trúar, kyns eða hvers sem er, kemst ekki upp með það. Skiptir engu hvort viðkomandi sé Islam-trúar, kristinn eða bara eitthvað handahófskennt hefðbundið, illa upplýst íslenskt kreddu-fífl.
Getur ekki átt kökuna og étið hana líka
Það eru jákvæðar hliðar á því að Framsóknarflokkurinn hafi náð inn tveimur borgarfulltrúum í Reykjavík með því að ala á hræðslu við múslima. Nú getur sá stjórnmálaflokkur, og raunar enginn annar heldur, ekki lengur átt kökuna og étið hana líka. Þeir geta ekki boðið fram frambjóðendur sem boða umburðarleysi en samt fengið að skilgreina sig sem umburðarlynda flokka.
Nú verða þeir annað hvort að koma fram fyrir skjöldu og gangast við því að stefna þeirra sé að tengja við lægsta samnefnarann eða hafna slíkum málflutningi. Og einhverjir munu örugglega gera það, enda virðist vera til nóg af íslenskum kjósendum sem er móttækilegur fyrir útlendingaandúð. Tími volksins er liðinn. Velkomin í gerbreyttan veruleika.