Árið 1944 sluppum við undan Dönum sem margir telja að hafi ráðskast með okkur í lengri tíð. Um þessar mundir fögnum við því, afmælinu hans Jóns og íslensku lýðveldi. Danirnir vildu kannski fyrst og fremst tryggja eigin gróða frá nýlenduþjóðinni Íslendingum. Sjálfstæðisbaráttumenn með Jón í fararbroddi vildu sjálfstæði til þess að búa til gróskusamfélag þar sem dugnaður skilaði hagnaði, þar sem hagur borgaranna stjórnaði ferðinni, sem getur talist göfugt markmið.
Hvað var það við Danina sem við kunnum ekki við? Svarið er fremur einfalt: Við treystum þeim ekki til góðra verka. Við treystum þeim ekki til þess að vinna fyrir hag almennings. Við töldum þá ekki vera í tengslum við raunveruleikann, okkar raunveruleika. Við vorum ekki rík, en það sem við áttum vildum við nýta vel og njóta þess sjálf, landsins okkar og vinnuseminnar. Jón vildi skapa samfélag þar sem hinn almenni borgari fengi að ráða og þar sem það skipti ekki máli hvort þú nefndist Jón eða séra Jón, eða hvort þú varst Íslendingur eða Dani. Hann var alþjóðlega sinnaður maður, svo það sem skipti hann mestu máli var ekki þjóðernið heldur jafnréttið.
Jón vildi skapa samfélag þar sem hinn almenni borgari fengi að ráða og þar sem það skipti ekki máli hvort þú nefndist Jón eða séra Jón, eða hvort þú varst Íslendingur eða Dani. Hann var alþjóðlega sinnaður maður, svo það sem skipti hann mestu máli var ekki þjóðernið heldur jafnréttið.
Í dag stendur landið okkar frammi fyrir miklum erfiðleikum. Almenningur hefur það ekki nógu gott. Kaupmátturinn er of rýr og fjölmargir flýja land til að leita að betra lífi í nágrannalöndunum. Tvennt veldur þessu. Ónóg þjóðarframleiðsla og ójöfnuður. Við mælumst með minni þjóðarframleiðslu enn þau lönd sem við líkjum okkur við og hana þyrfti að auka. Þetta er meðal annars hægt að gera með aukinni menntun. Nýlega var ákveðið að skera svo niður í námslánum nema erlendis að frá og með haustinu 2015 verður fullkomlega ómögulegt fyrir hinn almenna borgara sem ekki á ríka foreldra að fara til útlanda í nám. Þetta er gríðarlega alvarlegt. Landið mun tapa og misskipting auðs mun aukast. Við höfum ekki úr jafn miklu að moða og frændur okkar í Skandinavíu, sérstaklega í ljósi þess að Ísland er einangruð eyja langt frá öðrum ríkjum. En hvað varðar ójöfnuð þá mælumst við sem eitt af þeim löndum þar sem jöfnuður er hvað mestur. Ójöfnuður getur þá ekki verið orsök þessa slæma ástands, eða hvað?
Það verður að muna að ójöfnuður hefur aukist frá hruni. Einnig að þar sem minna er til skiptis hefur allur ójöfnuður verri áhrif en í ríkari löndum eins og í Noregi og Danmörku. Jöfnuður snýst heldur ekki aðeins um krónur og aura á mann, hann snýst um réttlæti.
Það verður að muna að ójöfnuður hefur aukist frá hruni. Einnig að þar sem minna er til skiptis hefur allur ójöfnuður verri áhrif en í ríkari löndum eins og í Noregi og Danmörku. Jöfnuður snýst heldur ekki aðeins um krónur og aura á mann, hann snýst um réttlæti. Við höfum einfaldlega ekki efni á neinni ósanngirni eða óréttlæti ef við viljum að allir hafi það gott og séu sáttir á Íslandi. Þess vegna verðum við að gera enn betur hvað varðar jöfnuð. Það er hægt að sætta sig við tekjumun sem stafar af réttlátum og eðlilegum ástæðum, þar sem allir eiga í sig og á og hafa jafna möguleika með dugnaði og vinnusemi. Það sem ekki er hægt að sætta sig við er lífsgæðamunur sem stafar af pólitík sem vinnur fyrir ákveðna samfélagshópa á kosnað hins almenna borgara. Það er hinn raunverulegi ójöfnuður.
Ríkisstjórnin er rúin trausti. Borgararnir trúa því ekki að hún vinni fyrir sig. Að sumu leyti virðist ný gerð Dana vera búin að ná heljarkrumlu á ríkisstjórninni, en á okkar tímum kallast hún ekki Danir, heldur sægreifar og bændastéttin. Þetta kemur til meðal annars vegna ójafns vægis atkvæða. Það er því hægt að segja að arfleifð sjálfstæðisbaráttunnar, ríkisstjórnarflokkarnir, séu orðnir Danaflokkar okkar tíma, sérhagsmunaflokkar sem ekki er í tengslum við almenning. Hjúkrunarfræðingaverkfallið var einfaldlega bannað. Kosningaloforð sem komu stjórninni að eru svikin. Bændastéttin fær enn sem áður að ráða hinum gríðarlegu tollum sem lagðir eru á matvæli. Almenningur tapar. Það er vegið að lýðræðinu og ójöfnuðurinn fer stígandi.
Hinn almenni borgari er hafður að háði og spotti. Jón yrði sorgmæddur ef hann yrði vitni að þessu, ríkisstjórn sprottin af hans arfleifð sem vinnur gegn öllum hans gildum. Réttlæti verður að ráða skiptingu auðs, en ekki spilling eða ósanngirni. Til þess að tryggja að íslenskar ríkisstjórnir geti notið trausts til þess að vinna fyrir almenning verður að styrkja lýðræðið og þingræðið. Kosin ríkisstjórn verður að hafa traust borgaranna, sem þurfa að geta trúað því að hún vinni fyrir sig en ekki einhverja aðra. Aðeins þá kemst á friður.