Anna Jonna Ármannsdóttir, verkfræðingur og
kerfisstjóri UNIX kerfa hjá Reiknistofnun Háskóla Íslands.
Verðbólguskotið sem fylgdi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hefur orðið mörgum þungbært og þar á meðal undirritaðri. Verðtryggð húsnæðislán eru rukkuð í verðtryggðri húsnæðislánakrónu, en tekjur heimilanna í óverðtryggðum launakrónum. Oft raskast mikið gengið milli húsnæðislánakrónunnar annarsvegar og launakrónunnar hinsvegar. Þetta er það sem veldur heimilinum búsifjum til skamms tíma eins og í hruninu.
Grein Aðalsteins Hákonarsonar um sanngirni og nauðsyn verðtryggingarinnar, í Kjarnanum varð greinarhöfundi að umhugsunarefni. Sérstaklega samanburður hans við að „Sá sem fengi lánaðan einn pott af mjólk átti að skila einum potti af mjólk til baka með einhverjum vöxtum, þannig átti kerfið að virka.“
Nú langar mig að taka þetta mjólkurdæmi Aðalsteins og sýna hvernig það lítur út varðandi mitt húsnæðislán. Til að vinna með þægilegar tölur má einn lítri af mjólk tákna eina milljón húsnæðislánakróna frá september 2007.
Lánið hljóðaði upp á 20 lítra af mjólk sem eru afhentir með afföllum sem felast í að lánveitandi svolgrar í sig heilt mjólkurglas upp á 0,2 lítra, á kostnað lántaka í svokallað lántökugjald.
Árlegir vextir eru 6% að undanskildri verðbólgu sem að auki reynist vera um 6% að meðaltali frá 2004 til 2014. Næstu 40 árin greiðir lántaki samtals um 200 lítra af nýmjólk!
Spurningin er hvort kerfið hafi í raun átt að virka þannig.
Alíslenskt mjólkurokur
Útreikningar þessara afborgana eru ekki einfaldir og ólíklegt er að margir lántakendur skilji þá fátækragildru sem þeir skrifuðu undir. Fyrstu mánaðarlegu afborganirnar af mjólkurláninu samanstóðu af 1 desilítra í vexti og 1 centilítra til að greiða niður höfuðstól mjólkurskuldarinnar. Verðbólgan bætti hinsvegar við 6 centilítrum við skuldina á hverjum mánuði og þannig jókst heildarskuldin. Næsta mánuð bætist einnig við 6 centilítrar af mjólk við skuldina en greiðslan af höfuðstólnum er áfram 1 centilítri. Vaxtagreiðslan er 1 desilítri að viðbættum vöxtum af þeim hálfa desilítra (6 mínus 1 centilítri) sem bættist við skuldina mánuðinn áður. Lántakandi er með öðrum orðum látinn greiða vexti af verðbættri mjólk sem hann fékk aldrei að láni. Nú þykri lántakanda nóg komið og vill skila höfuðstólsgreiðslu, vaxtagreiðslu ásamt verðbættu mjólkinni. Tekur lánveitandi þá fram risastórt mjólkurglas og hellir 3 desilítrum í það og fær sér gúlsopa. Sé einhver rest eftir það, neyðist lánveitandi að taka á móti því en það er ekki vel séð því þar missir lánveitandi vexti af verðbótunum.
Tekur lánveitandi þá fram risastórt mjólkurglas og hellir 3 desilítrum í það og fær sér gúlsopa. Sé einhver rest eftir það, neyðist lánveitandi að taka á móti því en það er ekki vel séð því þar missir lánveitandi vexti af verðbótunum.
Nú 7 árum seinna er búið að greiða 15 lítra af þessum 20 lítrum en samt er skuldin komin í 30 lítra af nýmjólk. Þá gæti lántaki reynt að vera snjall og endurfjármagna lánið en það er ekki hægt því lánveitandi lánar að hámarki 24 lítra af nýmjólk.
Ganga af íslenskri alþýðu dauðri
Þetta minnir óneitanlega á skuldainnheimtur kirkjunnar á 18. öldinni af leigu fátækra kotbænda á löngu dauðu sauðfé. Þegar Árni Magnússon lét dæma slíka verðtryggingu ólöglega, bakaði hann sér fjandskap íslensku eignastéttarinnar. Síðan leyfð hann sér þá ósvífni að senda danska konunginum skýrslu sem komst að þeirri niðurstöðu að íslenska eignastéttin og íslenska embættismannastéttin væru að ganga af íslenskri alþýðu dauðri. Nú eru aðrir tímar og íslendingar stéttlausir og frjálsir.
Þegar verðtryggingin var sett á, voru þess engin fordæmi að útlánastofnanir gætu lánað út peninga í hvað sem er algerlega áhættulaust, en sett alla áhættu á lántakandann.
Þegar verðtryggingin var sett á, voru þess engin fordæmi að útlánastofnanir gætu lánað út peninga í hvað sem er algerlega áhættulaust, en sett alla áhættu á lántakandann. Með setningu verðtryggingarinnar, var öll áhætta færð frá útlánastofnunum yfir á lántakendur. Þegar fjármálastofnanir veðjuðu gegn íslensku launþegakrónunni var það algerlega áhættulaust fyrir eignir þeirra í verðtryggðum húsnæðislánakrónunum. Launþegar voru hinsvegar blóðmjólkaðir og örmögnuðust sumir undan þrælkuninni.
Fátæktargildra
Þegar til lengri tíma er litið, er verðtryggingin þess valdandi að lántakendur festast í fátækragildru. Verðbólgan og verðbæturnar ásamt verðbótavöxtum, valda því að þegar lántaki er orðinn eftirlaunaþegi, eru greiðslurnar svo háar að blóðmjólka þarf kýr lántaka til að skila mánaðarlegum mjólkurgreiðslum. Slíka meðferð þola kýrnar ekki lengi og drepast á endanum, ef yfirdýralæknir hefur ekki þegar stöðvað miskunnarleysið.
Samkvæmt útreikningum mínum, verða greiðslur af verðtryggðu húsnæðisláni mínu, hærri en sem nemur ellilífeyri þegar ég kemst á lífeyrisaldur. Það kallast fátæktargildra á íslensku.