Að undanförnu hefur komið skýrt fram að fólk virðist frekar vilja taka verðtryggð lán en óverðtryggð, í það minnsta sé horft til hlutfallslegrar skiptingar nýrra húsnæðislána eftir tegund lána. Líklega er skiptingin um það bil 70 prósent velja verðtryggð en um 30 óverðtryggð, en uppfærðar upplýsingar um þróun þessara mála má oft lesa í reglulegum skýrslum Seðlabanka Íslands.
Sveiflurnar í þessum efnum eru reyndar umtalsverðar, og ræður þar ein breyta meiru en aðrar. Það verðbólgan. Hún mælist nú 2,2 prósent og hefur haldist undir 2,5 prósent marki seðlabankans í um eitt og hálft ár. Á þeim tíma haf vinsældir verðtryggðra lána aukist, enda er mánaðarleg greiðslubyrði þeirra um það bil 30 prósent minni heldur en óverðtryggðra, að meðaltali.
Eftir hrun fjármálakerfisins hafa lánastofnanir - að Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum undanskildum - boðið óverðtryggð húsnæðislán og nutu þau töluverðra vinsælda skömmu eftir hrunið, þegar verðbólga var töluverð. Sérstaklega voru vinsældir lána þar sem hægt var að festa vexti í þrjú og fimm ár, sem fyrst var boðið upp árið 2011, miklar og voru á því tímabili mun fleiri sem völdu óverðtryggð lán en verðtryggð.
Ástæðan fyrir því að þetta er rifjað upp, er að þrátt fyrir að það hafi verið mikið áherslumál hjá Framsóknarflokknum í kosningabaráttunni 2013, og raunar einnig eftir að flokkurinn komst til valda, þá hefur ekkert bólað á útfærslum á því hvernig eigi að „afnema“ verðtrygginguna. Ekkert liggur fyrir um hvað eigi að gera.
RS - Willum: "Ef þetta fer ekki að koma frá ríkisstjórninni, verðum við þingmenn að taka það upp."Willum Þór Þórsson þingmaður ræddi við okkur um afnám verðtryggingar af húsnæðislánum.Posted by Framsókn on Wednesday, September 23, 2015
Greinilegt er að þolinmæðin í baklandi Framsóknarflokksins er á þrotum í þessum efnum, og nefndi Willum Þór Þórsson, þingmaður flokksins, það í útvarpsviðtali að eftir ríkisstjórnin færi ekki að gera eitthvað í málinu, þá þyrftu „þingmenn að taka það upp“.
En stóra spurningin er, hvort þetta verði til vinsælda fallið að afnema verðtrygginguna ef miklar sveiflur verðbólgu og vaxta verða áfram hluti af íslenskum veruleika? Svo virðist sem vinsældir verðtryggingarinnar fari nákvæmlega eftir því hvernig verðbólgan er að þróast. Það ætti að gefa vísbendingu um að hugsanlega séð það ekki verðtryggingin sem slík sem sé vandamálið, eitt og sér, heldur kannski frekar stóra samhengi peningakerfisins sem verðtryggingin er hluti af.