Sumarið 2009 ákvað meirihluti Alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu og setti þar með stærsta hagsmunamál lýðveldisins í farveg. Viðræður gengu vel. Þegar leið á kjörtímabil vinstristjórnarinnar og sá til lands í viðræðunum jókst hinsvegar til muna sú ramma andstaða við ferlið sem var til staðar innan Vinstri grænna.
Stjórnin haltraði lokametra kjörtímabilsins sem minnihlutastjórn. Þá stöðu nýtti forysta VG sér í byrjun árs 2013 og þvingaði samstarfsflokkinn til þess að setja umsóknarferlið á ís. Bakland umsóknarinnar brast og í níu ár hefur umsóknin beðið lúkningar í formi þjóðaratkvæðagreiðslu um endanlegan samning.
Framsóknarflokkurinn eða Miðflokkurinn (eða hvað þau nú hétu) þóttust hafa dregið umsóknina til baka með bréfi. Að því var hlegið um gervalla Evrópu. Umsóknin um aðild er góð og gild, og samningsdrögin bíða þess að verða tekin upp aftur.
Færa má góð rök fyrir því að heppilegra hefði verið að leggja það beint fyrir þjóðina hvort viðræður skyldu yfirleitt hafnar. Tryggja þannig lýðræðislegt umboð fyrir þeirri stóru ákvörðun og koma í veg fyrir að íhaldsöflin til hægri og vinstri gætu frestað því að ljúka viðræðunum líkt og raun ber vitni um. Því verður vitaskuld ekki breytt núna, en mikilvægt að taka mið af því þegar ákvörðun er tekin um framhaldið.
Aukaaðildin að Evrópusambandinu í formi EES-samningsins hefur komið landinu betur en allir aðrir samningar sem Íslendingar hafa gert, en ágallarnir eru augljósir: Skortur á lýðræðislegri aðkomu ákvörðunum sambandsins, og um leið möguleg upptaka evru og aðild að peningastefnunni.
Við erum að óbreyttu ekki evrópsk þjóð meðal þjóða.
Þeir sem vilja hugsa praktískt mættu hugleiða tvennt: Samfélag fræða og vísinda varð sjálfkrafa af milljörðum þegar aðildarviðræðum var slitið. Þar er alla jafna verið að bítast um milljónir á hverju ári, og fátt skiptir okkur þó meira máli en rannsóknir og nýsköpun.
Og svo hitt, sem er sumum okkar hinna nærtækt: Byggðastefna Evrópusambandsins er sú framsæknasta sem um getur. Á Íslandi hefur aldrei verið mótuð byggðastefna, alveg sama hvað Framsóknarflokkurinn eða þessi hinn þarna segja. Sú meinta stefna hefur alltaf byggst á þessu:
„Kjóstu mig. Þá byggi ég frystihús. Eða brú. Eða malbika nokkra kílómetra.“
Hin svokallaða byggðastefna á Íslandi hefur alltaf verið í greipum Reykjavíkurvaldsins, og stjórnmálamanna sem hafa sótt völd til hennar.
Í Evrópu hefur fólk fyrir löngu lært að almennar reglur eru bestar. Það þjónar hagsmunum okkar allra að bæta samgöngur og nettengingar, og alveg sérstaklega í hinum dreifðu byggðum. Í Evrópu á fólk slíkar framfarir ekki undir því hvaðan samgönguráðherrann er. Almennar reglur gilda.
Sennilega væri ekkert hagkvæmara landsbyggðunum – og landinu í skilningi náttúrunnar – en að ganga í Evrópusambandið. Fordæmin eru fjölmörg, stuðningur við landbúnað, skynsamlega landnýtingu, umhverfisvernd og sjálfbærni.
En til þess arna þarf samt að ná samningum. Íhaldsöflin vilja það ekki. Óbreytt ástand hentar þeim. Þau vilja að láglaunafólk semji um kjör í ónýtum krónum, en stórfyrirtækin geri upp í evrum og dollurum. Þetta gildir ekki síður um VG en Sjálfstæðisflokkinn.
En Evrópusamvinnan snýst þó ekki um þetta í stóru myndinni.
Til Evrópusamvinnunnar var stofnað fyrir liðlega sjö áratugum til þess að tryggja frið og hagsæld í álfunni sem staðið hafði í ljósum logum stríðsátaka fyrri og síðari heimsstyrjalda – og löngu fyrr vitaskuld.
Nú þegar blikur eru á lofti með villimannslegri innrás Rússa í Úkraínu minnir sagan á sig og um leið mikilvægi þess að taka ítrasta þátt í samstarfi vestrænna þjóða. NATO og Evrópusambandinu.
Hún snýst ekki um peninga, en framfarir í víðum skilningi. Frið, lýðræði og mannréttindi.
Ekkert af þessu er sjálfsagt. Eins og nýleg saga ætti að kenna okkur.
Þess vegna þurfum við að klára samningaviðræður við nágranna okkar í Evrópu.
Fyrir því liggja miklu fleiri og aðrar ástæður en hafa verið raktar hér, en ef einhvern tímann var ástæða til að verða þjóð meðal þjóða, þá er það núna.
Höfundur er fyrrverandi ráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar.