Í skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána, sem var kynnt í árslok 2013, kom fram að lækka ætti verðtryggð lán niður um fjárhæð sem samsvaraði „verðbótum umfram tiltekið viðmið sem féllu á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010". Í skýrslunni var tímabilið skilgreint út frá þeim tíma sem verðbólga var yfir 4,8 prósent.
Þegar lög um leiðréttinguna voru lögð fram í fyrra var búið að breyta þessu viðmiðunartímabili. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu sagði að tillaga sérfræðingahópsins um að leiðrétta ofangreint tímabil hefði verið „háð þeim annmarka að verðtrygging lána er ekki reiknuð út frá 12 mánaða verðbólgu, heldur hækkun á vísitölu milli mánaða. Afleiðingin er sú að viðmiðunartímabilið var skilgreint of vítt í þingsályktuninni. Ef horft er til mánaðarhækkunar vísitölu, eins og verðtryggð lán eru reiknuð út frá, kemur í ljós að forsendubresturinn hafði eingöngu áhrif á verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 og því liggur staða verðtryggðra lána yfir það tímabil til grundvallar útreikningi samkvæmt frumvarpinu.“
Í stuttu máli var forsendubresturinn sem sérfræðingahópurinn reiknaði út því rugl og þess vegna var ákveðið að styðjast ekki við hann. Þess í stað var ákveðið að gefa bara sömu upphæð og hópurinn hafði reiknað sig niður á, 80,4 milljarða króna, til þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009. Þetta var gert til að efna kosningaloforð Framsóknarflokksins.
Markaðurinn löngu búinn að leiðrétta verðbólguskotið
Frá árinu 2010 hefur efnahagsbati staðið yfir á Íslandi. Heimili landsins hafa sannarlega ekki farið varhluta af því. Eigið fé Íslendinga í fasteignum sínum jókst úr 1.143 milljörðum króna í árslok 2010 í 1.966 milljarða króna í árslok 2014, samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Það er aukning upp á 72 prósent.
Hluta ástæðunnar er að finna í því að gengislán voru dæmd ólögmæt (188 milljarðar króna alls), vegna sértækrar skuldaaðlögunar og 110 prósent leiðarinnar svokölluðu (56 milljarðar króna samtals). Þorri þessarra greiðslna kom frá fjármálafyrirtækjum. Ríkið greiddi engan beinan kostnað vegna þeirra. Það greiddi hins vegar sérstakar vaxtabætur til verðtryggðra fasteignaeigenda upp á 12,3 milljarða króna.
Helsta ástæða þess að eiginfjárstaðan hefur batnað svona mikið er hins vegar sú að fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega hratt á tímabilinu. Frá því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu náði eftirhrunsbotni sínum í febrúar 2010 hefur það hækkað um 43,4 prósent. Íbúð sem metin var á 30 milljónir króna 2010 er nú metin á 43 milljónir króna.
Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkað um 19 prósent. Fasteignaverð hefur því hækkað margfalt umfram verðbólgu, sem hefur nú verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands í 20 mánuði. Og greiningaraðilar spá því að fasteignaverð mun hækka um 23,5 prósent á tímabilinu 2015 til loka árs 2017.
Markaðurinn er því löngu búinn að leiðrétta verðbólguskot eftirhrunsáranna með hækkun á fasteignaverði. Í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands kemur til dæmis fram að sé horft fram hjá leiðréttingunni OG notkun fólks á eigin séreignarsparnaði til niðurgreiðslu húsnæðislána hefðu „skuldir heimila í hlutfalli við landsframleiðslu lækkað um 9 prósentustig í stað 12“.
Leiðréttingin var þar af leiðandi algjörlega óþörf og sagan mun dæma hana fyrir það sem hún var, svæsin kaup á völdum með því að gefa hluta Íslendinga tugi milljarða króna.
Allskonar ríkt fólk fékk fullt af peningum frá ríkinu
Alls fengu 94 þúsund einstaklingar og börn þeirra þessa 80,4 milljarða króna. Það er sirka helmingur Íslendinga sem er á vinnumarkaði. Hlutfallslega voru flestir sem fengu leiðrétt á aldrinum 46 til 55 ára, þorri upphæðarinnar fór á höfuðborgarsvæðið og um tekjuhæsti fimmtungur landsmanna fékk samtals 19,8 milljarða króna í niðurgreiðslur á lánum sínum. 1.250 manns sem greiddu auðlegðarskatt, og áttu þá yfir 75 til 100 milljónir króna í hreinni eign, fékk 1,5 milljarð króna. Þeir sem voru þegar búnir að borga upp verðtryggðu húsnæðislánin sín fengu 5,8 milljarða króna í svokallaðan sérstakan persónuafslátt. Sem á mannamáli þýðir bara reiðufé. Og hluti leiðréttingarinnar fór til fólks sem borgar hvorki skatta hérlendis né skuldar krónu í verðtryggðum íslenskum krónum.
Sá hópur landsmanna sem á dýrustu eignirnar og mesta auðinn fékk skaðabætur úr ríkissjóði vegna verðbólgu. Til að sýna hversu mikið þessi hópur þurfti á þessum peningum að halda er hægt að vísa í tölur Hagstofunnar um skuldir og eignir einstaklinga. Þar kemur fram að eigið fé þeirra 20 prósent landsmanna sem er með hæstu tekjurnar í fasteignum sínum hafi aukist um 536,4 milljarða króna frá árinu 2010 og til loka árs 2014. Hin 80 prósentin hafa séð eigið fé sitt í fasteignum vaxa um 286,8 milljarða króna, eða um rúmlega helmingi lægri upphæð.
Steypan sem leiðrétting á húsnæðislánum eignafólks er sést síðan enn betur þegar heildareigið fé ríkasta fimmtungsins er borið saman við það sem hinir eiga í húsnæðinu sínu. Efsta lagið á nefnilega eigið fé í fasteignum upp á 1.536 milljarða króna á meðan að heildareigið fé allra hinna í húsnæði sínu er 430 milljarðar króna, eða rúmur fjórðungur af því sem ríkari hluti landsmanna á.
Stefnir í efnahagslegt stórslys
Þessi aðgerð hefur aukið einkaneyslu og hækkað innlenda verðbólgu. Hún hefur vaxið um fjögur til fimm prósent milli ára. Innflutt verðbólga hefur hins vegar dregist saman, að mestu vegna falls á heimsmarkaðsverð á olíu, og það hefur falið þessi áhrif.
Og það virðast nánast allir hagfræðingar og greiningaraðilar sammála um að framundan sé ný efnahagslega kollsteypa. Það stefnir að óbreyttu í efnahagslegt stórslys, sagði framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins nýverið. Glórulausar launahækkanir allra upp á tugi prósenta, þensla í ferðaþjónustu og byggingageiranum, stóriðjuverkefni og losun hafta með tilheyrandi aukningu á vaxtamunaviðskiptum eru á meðal þeirra þátta sem valda mestum ótta. Við erum að gera allar vitleysurnar sem við höfum áður gert, aftur.
Verður fordæminu fylgt?
Nú gera verðbólguspár ráð fyrir verbólguskoti strax á næsta ári. Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér sviðsmynd þar sem gert er ráð fyrir að verðbólga geti farið yfir tólf prósent strax á árinu 2017. Gangi sú spá eftir reiknast samtökunum til að höfuðstóll verðtryggðra skulda heimilanna muni hækka um allt að 475 milljarða króna fram til loka árs 2018.
Til samanburðar má nefna að hinn svokallaði forsendubrestur, sem upphaflega var forsenda leiðréttingarinnar, átti að hafa orðið á árunum 2007 til 2010. Á því tímabili, frá lokum árs 2007 og fram til loka árs 2010, hækkuðu íbúðalán Íslendinga úr 862 milljörðum króna í 1.207 milljarða króna, eða um 345 milljarða króna. Þar er verið að tala um öll lán, ekki bara verðtryggð.
Því er rökrétt að velta því fyrir sér hvort leiðréttingar á verðtryggðum lánum seú ekki komnar til að vera. Það er búið að setja fordæmið, „forsendubresturinn“ sem er framundan er meiri um sig en sá gamli og því auðvelt að rökstyðja nýja skaðabótagreiðslu vegna næsta verðbólguskots. Sérstaklega vegna þess að efnahagslega stórslysið sem sagt er að stefni í er að gerast á vakt þeirra flokka sem bera ábyrgð á því fordæmi og það eru kosningar sem þarf að kaupa árið 2017.
Kannski munu stjórnmál framtíðar bara snúast um þetta. Að flokkar lofi endurtekið stórum millifærslum úr ríkissjóði til valinna hópa í aðdraganda kosninga og fái í staðinn völd til að gera það sem þeim dettur í hug. Aðkoma þjóðarinnar verður einungis sú að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti með útréttar hendur í von um fjárhagslegan bitling.
Maður vonar samt ekki.