Í dag fögnum við alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins í skugga meiri átaka á vinnumarkaði en dæmi eru um hér á landi í áratugi. Við þessar aðstæður er áhugi á verkalýðsbaráttu meiri en ég man eftir í langan tíma. Almennt launafólk finnur á eigin skinni afleiðingar gengisfalls krónunnar og þjóðin er ekki tilbúin að lifa í friði með sveiflukenndum gjaldmiðli. Um það vitna átökin nú, rétt eins og óánægja skuldugra Íslendinga með hækkun verðtryggðra og gengistryggðra lána undanfarin ár.
Hin eilífa óvissa um kaupið
Hver er þá leiðin áfram? Það er von að spurt sé. Við Íslendingar búum ein vestrænna þjóða við fullkomna óvissu um hver raunveruleg laun okkar verða í nánustu framtíð. Jafnvel þótt kjarasamningar skili kjarabótum ræðst raunverulegur kaupmáttur af gengi krónunnar. Og það er meiri háttar veðmál að áætla það rétt fram í tímann. Þýskur eða franskur launamaður veit með þokkalegri vissu hver kaupmáttur launa hans verður á samningstíma kjarasamninga. Það getur íslenskur launamaður ekki.
Baráttan fyrir gjaldgengum gjaldmiðli, sem heldur virði sínu, er því hluti stéttabaráttunnar frá upphafi. Það er með ólíkindum að sigur í þeirri baráttu hafi ekki unnist enn.
Árið 1891 lagði Skúli Thoroddsen fyrst fram á Alþingi frumvarp um greiðslu verkkaups í gjaldgengum gjaldmiðli. Það var samþykkt árið 1901. Við tók stutt tímabil þar sem fólk fékk greitt í gjaldgengum gjaldmiðli, íslenskri krónu sem var jafngild þeirri dönsku og sænsku og tryggð með gulli. En með aðskilnaði íslenskrar krónu frá hinni dönsku 1920 var íslenskt launafólk svipt þessum mikilvæga rétti. Baráttan fyrir gjaldgengum gjaldmiðli, sem heldur virði sínu, er því hluti stéttabaráttunnar frá upphafi. Það er með ólíkindum að sigur í þeirri baráttu hafi ekki unnist enn.
Íslensk verkalýðshreyfing býr því við aðstæður sem eru einstæðar á Vesturlöndum og þarf að sýna mikla útsjónarsemi til að tryggja umbjóðendum sínum fullnægjandi ávinning af kjarasamningum. Það er af þessari ástæðu sem aðkoma ríkisvalds að kjarasamningum er óhjákvæmileg og beinlínis nauðsynleg, því ríkisvaldið hefur bæði skattlagningarvaldið og ofbeldistólið sem felst í gengisskráningunni. Það er engin leið fyrir launþegahreyfinguna að semja um kjarabætur einar og sér, ef ekki eru settar einhverjar hömlur á það hvernig ríkisstjórnin beitir þeim tækjum sem hún hefur tök á.
Ágreiningurinn snýst um skiptingu
Við heyrum nú oft þessa dagana að launafólk þurfi að sýna ábyrgð og stilla kröfum í hóf. Slíkar kröfur eru innistæðulausar þegar fyrirtækin í þeim greinum sem best standa sýna fordæmalausan hagnað og yfirstjórnir skammta sér laun úr öllu samræmi við það sem venjulegu fólki er boðið. Rányrkja vildarvina á ríkiseignum, eins og í Borgunarmálinu, vekur réttláta reiði alls sómakærs fólks. Ríkisstjórnin nýtir ekki tækifæri til að skapa þjóðinni allri hámarksarð af sameiginlegum auðlindum.
Nú stendur ágreiningurinn um skiptingu arðsins og um það með hvaða hætti almenningur fær arð af sameiginlegum auðlindum.
Einu sinni þurfti launþegahreyfingin að stilla kröfum í hóf til að skapa þjóðarátak til að endurskipuleggja efnahagslífið og skapa rekstrargrunn fyrir atvinnustarfsemina. Þess vegna varð Þjóðarsáttin fræga til. Nú er blessunarlega ekki þörf á því. Flestar atvinnugreinar eru arðsamar og geta staðið undir alvöru velsæld. Nú stendur ágreiningurinn um skiptingu arðsins og um það með hvaða hætti almenningur fær arð af sameiginlegum auðlindum. Ágreiningurinn stendur líka við ríkisstjórn sem hefur létt álögum af fyrirtækjum sem helst geta greitt þær, aukið almenna greiðsluþátttöku fyrir heilbrigðisþjónustu og skólagöngu sem ætti að vera greidd úr sameiginlegum sjóðum og flutt skattbyrði á lægri tekjuhópa með tilfærslum í skattkerfinu.
Þennan ágreining er óhjákvæmilegt að leiða til lykta.
Leiðin fram á við
Eina leiðin sem hentar íslenskum aðstæðum og getur skapað einhverja von fyrir íslenskt launafólk er hið sósíaldemókratíska módel, módel hins félagslega lýðræðis. Við eigum að haga hagstjórn og kjarasamningum með sama hætti og hefur reynst svo afar vel á Norðurlöndunum enda hefur það aftur og aftur náð best að takast á við bæði uppsveiflu og samdrátt. Okkur hefur einnig tekist vel til þegar við höfum nýtt þetta kerfi. Til þess að það virki þarf ábyrga hagstjórn, sem byggir á stöðugleika, góðum aðgangi að erlendum mörkuðum. Hluti hennar er samræmd launastefna sem ýtir undir hagvöxt og fulla atvinnu og dregur úr launamun og tryggir að enginn verði skilinn eftir. Það þarf líka umfangsmikil velferðarkerfi, sem byggir á afkomutryggingu og aðgengi að þjónustu sem tryggir mikla atvinnuþátttöku og hreyfanleika launafólks, ódýra menntun og heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem fjármögnuð er með sköttum og tryggir jafnrétti í reynd. Og það þarf vel skipulagðan vinnumarkað, sem byggir á samspili milli lagasetningar og kjarasamninga og öflugri verkalýðshreyfingu.
Þess vegna höfum við í Samfylkingunni samþykkt að skuldbinda okkur til að stjórna á þennan veg í anda hins félagslega lýðræðis: Við munum í ríkisstjórn setja okkur almenna efnahagsstefnu með þessi markmið að leiðarljósi og leggja hana fyrir samráðsvettvang með aðilum vinnumarkaðarins. Að því loknu munum við leggja hana fyrir Alþingi og byggja hagstjórnina á víðtækri stefnumörkun til nokkurra ára í senn. Ný vinnubrögð og nýtt samtal um stefnuna áfram munu vonandi í framtíðinni skapa betri grunn fyrir kjarabaráttu en átökin sem við upplifum þessar vikur og mánuði.
Höfundur er þingmaður og formaður Samfylkingarinnar.