Mikið hefur verið rætt um þá dæmalausu ákvöðun aðalfundar HB Granda að hækka laun stjórnarmanna um 33,3 prósent, mitt inn í verstu og hörðustu kjaradeilur sem myndast á vinnumarkaði í áratugi. Eins og Kjarninn benti á í gær, þá hafa mörg stærstu fyrirtækin í landinu hækkað laun stjórnarmanna mikið, um tugi prósenta, á sama tíma og fólkið á gólfinu hefur ekkert hækkað.
Eitt í þessu hefur lítið verið rætt. Það er hvaða aðilar það eru sem standa á bak við ákvarðanirnar um að hækka launin hjá stjórnarmönnunum um tugi prósenta, en hreyfa ekkert við launum fólksins í gólfinu. Þar vega þyngst lífeyrissjóðirnir í landinu, en stjórnir þeirra eru skipaðar fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Af hverju stóðu þessir fulltrúar í hlutahafahópnum ekki gegn þessum hækkunum? Svo virðist sem verkalýðshreyfingin gleymi sér og loku augunum þegar kemur að þætti lífeyrissjóðanna á aðalfundum. Það verður að teljast undarlegt í þeim aðstæðum sem nú eru uppi.
Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Þannig er það í þetta skiptið. Lífeyrissjóðirnir verða líka að axla ábyrgð á stöðunni á vinnumarkaði, sérstaklega þegar þeir eru orðnir jafn umsvifamiklir í hluthafahópum fyrirtækjanna og raunin er nú.