Ágæta ríkisstjórn, lífið er fullt af endurtekningum bæði góðum og slæmum. Þegar kemur að kjarasamningum opinberra starfsmanna við ríkið þá eru minningar mínar fyrst og fremst slæmar og það sem verra er allir aðrir sem ég þekki hafa sömu minningar. Sjálfur hef ég persónulega reynslu af samningum við ríkið og hef oft velt fyrir mér hvernig er hægt að eyða svona miklum tíma í ekki neitt. Auðvitað þarf tvo til að deila en þegar annar aðilinn hefur öll fjárhagslegu trompin, og nýtir sér það út í ystu æsar, þá er ekki erfitt að sjá hver stjórnar ferðinni. Hvað er svona slæmt?
Ríkið sýnir ríkisstarfsmönnum ítrekað virðingarleysi þegar kemur að sjálfstæðum samningsrétti og á það jafnt við aðildarfélög BHM sem önnur. Í margar vikur hefur ríkið í núverandi samningaviðræðum eingöngu boðið ákveðna prósentuhækkun en ekkert annað hefur verið til umræðu. Þetta heitir einhliða ákvörðun ekki samningar. Samkvæmt nýjustu fréttum, 28. maí, hefur ríkið dregið tilboð sitt til baka og sett X í staðinn. Skrítið tilboð það! Og nú nokkrum klukkutímum seinna boðar ríkið til fundar. Vonandi ekki til að skipta á Xi fyrir ekkert.
Ímyndum okkur ríkið, lesist fjármálaráðuneytið og ríkisstjórn, sem sjálfstæða einingu sem sér um rekstur ákveðinna þátta í venjulegu fyrirtæki eða á tiltekinni stofnun. Einingu sem væri ábyrg fyrir mannauði tiltekinnar deildar og framtíðarrekstri ákveðinna þátta í samfélaginu, spítala, skóla eða öðru sem samfélag er samsett úr. Það vaknar sú spurning hvort ríkið sé yfirleitt hæft til að valda þeirri ábyrgð sem því er falið. Stundum er framkoma við ríkisstarfsmenn með þeim hætti að halda mætti að þetta væri allt saman einhver leikur, pólitískur leikur. Hvað ætlar ríkið að gera þegar efnahagslífið batnar og launamunur á milli almenna markaðarins og ríkisstarfsmanna tekur að breikka enn meir, of mikið. Hvert fer mannauðurinn þá? Er það kannski hinn pólitíski leikur, veikja opinbera starfsemi, veikja samfélagið og styrkja ákveðna hagsmunahópa?
En aftur að raunveruleikanum. Nú hafa sumir starfsmenn BHM, þökk sé þeim, verið í verkfalli í 8 vikur án þess að nokkuð hafi gerst í kjaraviðræðum. En nú þegar fer að hylla í samninga á milli verkalýðsfélaga á almennum markaði og SA þá lætur ríkið allt í einu á sér kræla, hvílíkt virðingarleysi við ríkisstarfsmenn. Svörin til BHM eru, þið getið kannski fengið það sem SA, ASÍ eða VR ákveður. Væri ekki eðlilegra að ríkið tæki að sér að vera leiðandi í samfélaginu og gengi fram með góðu fordæmi um hvernig samningar eiga að fara fram?
Fyrst ætlaði ég ekki að nota orðið hroki en sé mig tilneyddan til að nota það. Fyrst ætlaði ég reyna að nota pen orð eins og að ríkið tæki sér of langan tíma í að reikna hvað þetta eða hitt tilboðið kostaði, þyrfti að kanna hvaða áhrif tilboð hefði á efnhagslífið og ríkið kemur illa undirbúið á fund eftir fund af ásettu ráði o.s.frv. En ekkert slíkt á við framkomu ríkisins gagnvart sínum starfsmönnum og þeim mannauði sem það telur sig hafa einhver not af. Framkoman líkist engu öðru en hroka þ.e. ríkisstarfsmenn þið hafið ekki eiginlegan samningsrétt.
Talsmenn ríkisstjórnarinnar, og seðlabankastjóri, hafa ekki talið eftir sér að hóta launafólki skattahækkunum og reynt að koma tilurð verðbólgu og samviskubiti vegna hennar yfir á launafólk. Staðreyndin er hins vegar sú að verðbólga fer aðeins af stað ef þeir sem ráða t.d. vöruverði eða vöxtum hækka þá. Ekkert af þessu er í höndum launafólks. Það heyrist aldrei í umræðunni að kannski er bara komið að þeirri stundu að þeir sem eiga fyrirtækin fái bara örlítið minni ágóða og hækki ekki vörur. Að velta launahækkunum út í verðlagið er ekki náttúrulögmál. Launafólk getur ekki hækkað sitt kaup eins og eigendur fyrirtækja hækka vöru. Kannski er kominn tími til að breyta þessu.
Ríkið verður að gera sér grein fyrir því að BHM getur ekki sætt sig við annað en að fá svipaðar launahækkanir og aðrir hópar hafa fengið, t.d. læknar. Þannig virkar veruleikinn.
Það er augljóst að ástandið eftir hrun spilar inn í stöðu mála í dag. Á undanförnum árum hefur fólk skilið nauðsyn þess að reisa við íslenskt efnahagslíf og því gert minni kröfur en ella. Hinn almenni launþegi, ríkisstarfsmenn sem aðrir, gerðu þetta ekki til að hleypa aftur að einhverri auðmannafrekju. Þetta verður ekki rakið meira hér en nægir að nefna kvótakerfið og allar úttektir um eignarhald örfárra á auði landsins og sama á við á heimsvísu. Þessu þarf að breyta.
Þessi þjóðfélagsgerð sem við lifum í með trú á eilífan hagvöxt, og núverandi ríkisstjórn vill viðhalda, gerir ráð fyrir töluverðri neyslu hvort sem mönnum finnst það rétt eða rangt. Meðaltekjufólk á varla fyrir meiru en rekstri fjölskyldunnar frá mánuði til mánaðar. Ef ríkisstjórn Íslands telur að fólk eigi að lifa meinlætalifnaði þá er nóg af að taka hjá þeim sem eiga ofgnóttir af öllu. Það er tími til kominn að koma niður á jörðina og að borguð séu mannsæmandi laun fyrir þau störf sem þarf að vinna.
Mikið er talað um ábyrgðarleysi þeirra sem fara í verkfall. En það eru tveir sem deila og annar aðilinn, ríkið í þessu tilfelli, hefur sterkari stöðu og fer með hina eiginlegu samfélagslegu ábyrgð. Stéttarfélög samanstanda hins vegar af einstaklingum með mjög ólíkar skoðanir á því hvernig beri að reka samfélagið en hafa sameiginleg markmið hvað kjör varðar. Persónulega tel ég að verkföll eigi að vera ónauðsynleg en sú afstaða mín byggir á þeim forsendum að þegar kemur að samningaviðræðum um kaup og kjör þá sé ég að ræða við aðila sem eru að semja við mig um mín laun. Ekki aðila sem segir mér hvað ég eigi að fá í laun. Þessi afstaða mín byggir líka á því að samningar eigi alltaf að gilda frá þeim tíma þegar síðasti samningur rennur úr gildi. Þannig er það ekki í dag en þarf að breyta. Það á ekki að vera öðrum aðilanum í hag að tefja samninga. Það er eðlilegt að sá sem hefur völdin yfir fjármagninu taki á sig þá ábyrgð að samningar náist. Meðan að ríkið tekur ekki á sig þessa ábyrgð þá verða áfram verkföll og þau versna eftir því sem virðingarleysið og misskiptingin eykst og þau skilja eftir sig mun dýpri sár en þarf. Þetta skilar engu öðru en minni virðingu fyrir atvinnuveitandanum sem svo aftur getur bitnað á starfinu og hver er þá árangurinn.
Leysum verkfallið sem fyrst með raunverulegum samningum. Ef ríkið vantar fjármagn, sækir það þangað þar sem það liggur á lausu svo milljörðum skiptir. Þar að auki sumstaðar sem þjóðareign. Komið fjármálakerfinu í lag og gjaldmiðlinum í lag. Oft er bent á Norðurlöndin og 1-3 % hækkanir þar á launum sem fyrirmynd. Jú þar eru vextir af húsnæðislánum í kringum 2 % og hækkuðu nýlega upp í þá tölu t.d. í Danmörku. Þetta er ekki íslenskur raunveruleiki. Stjórnvöld, komið ykkur niður á jörðina. Við hin höfum verið þar í mörg ár og teljum nú komið að því að fá bætt að hluta það sem við höfum unnið að undanfarin ár fyrir samfélagið í heild en ekki einstaka hagsmunahópa. Ég fagna því ef önnur stéttarfélög ná árangri en þau semja ekki fyrir BHM.
Störf BHM félaga hjá ríkinu geta verið mjög ólík því sem gerist á almennum markaði bæði hvað varðar skyldur og réttindi, menntun, launataxta og (ó)sveigjanleika, námslán o.s.frv. Það er því virðingarleysi að semja ekki við þá sem málið varðar.
Þetta er fyrst og fremst kveðja og stuðningur til þeirra sem eru í verkfalli fyrir BHM, standið ykkur, það eru stjórnvöld sem bera ábyrgð á þessu verkfalli, samviskubitið er þeirra.
Höfundur situr í stjórn Félags íslenskra náttúrufræðinga.