Í umfjöllun um niðurstöður verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar lýsti formaður verkefnisstjórnar því ítrekað yfir að nefndin teldi ekki að hún ætti að taka tillit til jákvæðra áhrifa nýrra virkjana á kolefnisbúskap og hlýnun andrúmsloftsins ef orkan frá þeim væri notuð í stað jarðefnaeldsneytis. Nefndin gerði heldur ekkert með ábendingar um að vatnafræðilegar forsendur hennar um vatnsbúskap flóðasvæða Héraðsvatna í Skagafirði væru vafasamar og neikvæð áhrif miðlunar í Austari-Jökulsá á lífríki þeirra því stórlega ofmetin.
Ennfremur er í áætlunum um Bugslón skipulagðar stíflur og varnir þannig að lónið hafi ekki áhrif á svokallaðar Orravatnsrústir. Úr niðurstöðu verkefnisstjórnar má hins vegar lesa að þeim verði raskað. Það er skoðun greinarhöfunda að vel athuguðu máli að tillaga verkefnisstjórnar um afdrif virkjanakosta í Austari-Jökulsá í Skagafirði þurfi mun ítarlegri umfjöllun áður en þeim verði ráðstafað í vernd eða nýtingu.
Almennt þarf líka við greiningu samfélagslegra áhrifa að taka tillit til þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir um orkuþörf vegna orkuskipta og framtíðar uppbyggingar í landinu. Nú er líka hafið stríð í Evrópu og alvarlegur orkuskortur fyrirsjáanlegur með hækkandi orkuverði. Því þurfum við Íslendingar hugsanlega að hraða enn frekar uppbyggingu á framleiðslu rafeldsneytis sem hluta af samstarfi við okkar bandalagsþjóðir um lausnir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum viðskiptaþvingana og óreiðu á orkumarkaði á öryggi, efnahagslíf og almenn lífskjör .
Einhliða sjálfbærnigreining
Löggjöfin um rammaáætlun kveður á um alhliða sjálfbærnigreiningu í anda þeirrar stefnu sem kennd er við Gro Harlem Brundtland fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, þ.e. náttúrufræðilega greiningu, greiningu á áhrifum á menningu og atvinnuhætti, samfélagslega þætti og áhrif á efnahagslífið. Í þriðja áfanga rammaáætlunar má telja að fyrstu tveimur þáttunum hafi verið sinnt af nokkrum metnaði. Það liggja fyrir greiningar á áhrifaþáttum sem varða náttúrufar, ferðamennsku og menningarminjar í nákvæmum excelskjölum þannig að ekki þarf að huga að því að taka upp rökin eftir þá vinnu.
Hins vegar hafa frá fyrstu greiningum rammaáætlunar verið felld inn ný og teygjanleg áhersluatriði eins og víðerni, minja- og menningarheildir og allt sem hönd á festir hefur þar verið fært undir skilgreind verndarandlög eins og votlendi og eldhraun. Það skortir því hvergi eldsmat þegar menn byrja að safna glóðum elds að höfði nýrra virkjanaáfanga. Það sem áður snerist um að vernda afmörkuð verðmæt náttúrufyrirbrigði fyrir raski og spjöllum hefur í mjög auknum mæli farið að snúast um huglæg orsakasamhengi þar sem það er talið rýra verulega gæði upplifunar við skoðun náttúru og menningarminja að sjá eða vita af orkumannvirkjum í jafnvel tuga kílómetra fjarlægð. Verðmætasti útsýnisstaður á landinu er, án samlíkingar, Hakið við Þingvallavatn. Frá Hakinu blasir Nesjavallavirkjun við í 13 km fjarlægð. Með aðferðafræði þriðja áfanga Rammaáætlunar myndi virkjunin gjörsamlega rústa verðmæti Haksins sem ferðamannastaðar og verðmætum menningarheildum.
Ávinningur og tap
Hér að neðan munum við fjalla nánar um helstu ástæður þess að verkefnisstjórn lagði til að Skagafjarðavirkjanir yrðu settar í verndarflokk. En endanleg ákvörðun getur ekki byggt eingöngu á því sem tapast heldur einnig á því sem ávinnst. Sem dæmi þá myndi Skatastaðavirkjun framleiða um eina Terawattstund á ári eða einn milljarð kílówattstunda. Ef söluverð á raforku er 4 kr á kWst skapar sú orka tekjur sem nema 4 milljörðum á ári. Útflutningstekjur frá raforkutengdum iðnaði skila nú um 25 milljörðum á hverja Terawattstund og í framtíðinni má sjá fram á minni áfanga og fjölbreyttari fyrirtækjaflóru í þessum geira. Þetta mun með markvissum orkuskiptum skila aukinni framlegð, fleiri vel launuðum störfum og möguleikum til aukinnar sjáfbærni í öðrum greinum eins og sjávarútvegi og ferðamennsku.
Ef þessi orka kæmi í staðinn fyrir ósjálfbæra orkugjafa eins og jarðefnaeldsneyti, hvort sem það er innanlands eða í alþjóðaviðskiptum, þá gæti nýting hennar hindrað koltvísýringslosun sem nemur milljón tonnum á ári sem er u.þ.b. jafn mikið og heildarlosun bifreiða, fiskiskipa,og millilandaflugs á Íslandi 2018. Virkjun í Skagafirði myndi binda saman og auka enn á öryggi í samfelldu sterku virkjana- og flutningssvæði frá Fljótsdalsvirkjun að Blöndu. Tengipunktur í Skagafirði með vatnsaflsvirkjun og sterkar flutningslínur til beggja átta myndi vera í sérflokki hvað varðar afhendingaröryggi orku og sérstaklega ef horft er til þess að virkjunin væri utan gosbeltisins og þekktra hamfarasvæða. Staða Skagafjarðar til þess að efla atvinnulíf og laða að nýja fjárfestingakosti myndi gjörbreytast. Alla þessa þætti sem og auðvitað áhrif á flúðasiglingar og hestaferðir þarf að vega með ábyrgum hætti inn í heildardæmið, áður en ákvörðun er tekin um hugsanlega vernd eða nýtingu.
Myndir 1 og 2 sýna mikinn breytileika eftir landshlutum og á milli ára.
Vatnsbúskapur sunnan og norðan hálendis
Eins og landsmenn hafa orðið vitni að undanfarna mánuði getur vatnsbúskapur verið breytilegur milli ára. Ólíklegt er að margir sem ekki liggja yfir rennslisgögnum geri sér grein fyrir því hve mikil sveiflan er og hvernig hún er breytileg á milli landshluta. Brautir lægða liggja gjarnan á svipaðan hátt um nokkurt tímabil og er þá stundum talað um lægðarennu. Hluti landsins í getur þá verið í úrkomuskugga á meðan úrkomusamt er öðrum stöðum. Þannig getur dregið úr rennsli til virkjana á Þjórsársvæðinu á meðan rennslið í jökulánum fyrir norðan er langt yfir meðaltali, sjá myndir 1. og 2. Stór hluti virkjaðs vatnsafls á Íslandi er á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Ársframboð raforku á landinu sveiflast því mikið með ástandinu þar. Ef lögð verður áhersla á frekari virkjanir þar án áherslu á aðra landshluta eykur það enn á þá sveiflu.
Rennsli vatnsfalla í einstökum landshlutum getur og verið undir langtímameðaltali mörg ár í röð, sjá mynd 3. Dreifing virkjana um landið með góðri tengingu mundi minnka þessar framboðssveiflur og auka nýtingu. Samkeyrsla vatnsaflsvirkjana sem nýta vatn úr miðlunarlónum virkjana á Þjórsársvæðinu með virkjunum í jökulánum á norðanverðu landinu er þess vegna mjög æskileg og til þess fallin að skapa meira orkuöryggi á landinu.
Við skipulag hugsanlegra vindorkugarða er einnig mikilvægt að þeir séu á mismunandi veðursvæðum og að gert sé ráð fyrir samnýtingu þeirra og miðlunarlóna vatnsorkuveranna. Það segir fjarri því allt um virkjun hversu mörg megawött hún er, en mun meira hver orkuframleiðsla hennar er í kílóvattstundum. Hugsanlega verða nýjar vatnsaflsvirkjanir með miðlunarlóni, byggðar með víðari vatnsvegum og aflmeiri túrbínum. Þannig væri hægt að ganga hratt á vatnsforðann og framleiða mikið þegar framboð á vindorku er minna, en vatni væri safnað í lónin þess á milli. Þannig er hægt að nýta vindrafstöðvar án þess að vera algerlega háður sveiflukenndu framboði þeirra. Skatastaðavirkjun C er virkjun með stóru miðlunarlóni.
Heildarrennsli vatnsfalla frá ári til árs getur breyst um tugi prósenta. Eins og sjá má á mynd 3 fyrir Djúpá í Fljótshverfi geta léleg vatnsár varað samfellt í mörg ár.
Áhrif virkjana á flæðiengjar stórlega ofmetin
Sem dæmi um neikvæð áhrif af völdum virkjunarinnar er nefnt að flæðiengjar við Héraðsvötn í Skagafirði muni ekki lengur fá yfir sig leysingaflóð á vorin ef farið verður að stýra rennslinu og stöðva leysingavatnið uppi á heiði. Seinni hluta sumars, í júlí og ágúst, þegar vatnið í Héraðsvötnum er mettað af jökulaur flæðir aldrei þarna yfir. Hins vegar liggur vatn og ís yfir svæðinu á vetrum vegna fyrirstöðu ísskara. Það væri frekar að ágangur vatns ykist þegar virkjunin væri keyrð með mikilli vatnsnotkun um miðjan vetur. Síðastliðin fimm ár hefur verið rekinn af Veðurstofu Íslands síritandi vatnshæðarmælir í Glaumbæjareyju.
Sjá má á mynd 4. að vatnshæðin ræðst af ísmyndun og klakastíflum en ekki mikið af rennsli við Skatastaði. Yfirborð landsins við mælinn er í 5,64 m yfir sjávarmáli. Í þau skipti sem flæðir yfir er það utan jökulleysingatíma eins og sjá má á mynd. Flóðtoppurinn um mánaðarmótin maí/júní við Skatastaði er snjóleysing úr dölum og hlíðum og lægri hluta heiðarinnar. Gögn frá vatnshæðarmæli við Grundarstokk í Héraðsvötnum eru samstíga þessu.
Mikil breyting hefur orðið á farvegi Héraðsvatna síðan 1930. Öflugur veitugarður var settur inn við Vindheima gagngert til þess að varna því að vötnin leituðu vestur í Húseyjarkvísl og minnka þannig álagið á flæðiengjar vestanmegin við Hegranesið og draga úr landbroti í Hólminum. Mörgum bakkavörnum og görðum hefur einnig verið ýtt upp. Skurðir voru grafnir í flæðiengjar til þess að gera landið véltækt og breyttist flóran þá mikið. Nú þegar, eru aðstæður við flæðiengjasvæði því mikið breyttar af mannavöldum vegna sjónarmiða sem ríkt hafa um nýtingu á landinu og vart er hægt að skilgreina þau sem flæðiengjar lengur.
Frekari gögn frá fleiri vatnshæðarmælum á vatnasvæði Héraðsvatna liggja fyrir, sem og niðurstöður aurburðarrannsókna sem rennt gætu frekari stoðum undir greiningu á hugsanlegum áhrifum virkjunar í Austari-Jökulsá á frjósemi og náttúru grundanna umhverfis Héraðsvötn.
Vatnsaginn yfir landinu seinni hluta vetrar hlýst helst af því að áin bólgnar upp vegna ísmyndunar.
Lokaorð
Að vel athuguðu máli er það skoðun greinarhöfunda að það væri mikið og skaðlegt fljótræði ef Alþingi samþykkti á grundvelli ófullkominna upplýsinga og án frekari greiningar tillögu verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar um að setja virkjanir í Héraðsvötnum og þá sérstaklega þann kost sem nefnist Skatastaðavirkun C í verndarflokk.
Snorri Zóphóníason er jarðfræðingur og hefur unnið að vatnarannsóknum hjá Vatnamælingum Orkustofnunar og síðar Veðurstofunnar um áratuga skeið.
Guðni A. Jóhannesson er verkfræðingur og fyrrverandi prófessor við Konunglega verkfræðiháskólann í Stokkhólmi og orkumálastjóri.