Það þarf kjark og hugrekki til að hafa mannréttindahugsjónir og standa með þeim í okkar popúlíska samfélagi. Viðhorf okkar til mannréttinda er í raun gegnsýrt af tækifærismennsku. Við tölum fyrir öflugri mannréttindavernd og verður gjarnan heitt í hamsi þegar við teljum brotið gegn þeim mannréttindum sem okkur hugnast. En svo kemur fyrir að mannréttindin verða óþægileg og eiginlega vond. Þá færum við rök fyrir því að þau eigi ekki lengur við eða geti ekki gilt um tiltekið tilvik eða einstakling. Mannréttindi eiga til dæmis ekki að gilda í tilviki grunaðra kynferðisbrotamanna, útrásarvíkinga eða Snorra í Betel.
Nýjasta dæmið um mannréttindaóþol af þessari gerð er vernd heimildarmannsins í Lekamálinu svokallaða. Málið er í raun ágætur prófsteinn á heimildarmannaverndina, enda heimildarmaðurinn sjálfur skúrkurinn í málinu. Ýmsir hafa orðið til þess að hvetja viðkomandi blaðamenn til að afhjúpa heimildarmann sinn og fáir hafa treyst sér til að halda uppi vörnum fyrir þetta stærsta og mikilvægasta prinsipp blaðamennskunnar.
Fleygjum ekki barninu út með baðvatninu
Blaðamenn hafa það lýðræðislega eftirlitshlutverk að upplýsa almenning í málum er varða hagsmuni almennings. Forsenda þess er að þeir geti aflað upplýsinga, meðal annars í gegnum heimildarmenn sem vilja ekki láta nafns síns getið. Án traustrar verndar kynnu heimildarmenn að forðast að veita fjölmiðlum slíkt liðsinni, sem getur leitt til þess að grafið verði undan eftirlitshlutverki fjölmiðla og dregið úr möguleikum þeirra til að miðla nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum.
Hver sem er getur verið heimildarmaður blaðamanns; starfsmenn á hvaða þrepi valdastigans sem er, hvort heldur sem er í einkageiranum eða hjá hinu opinbera; æðstu valdhafar, forstjórar, millistjórnendur og undirtyllur, ruslakallar, skúringakonur, barnfóstrur, fangar, barþjónar, fíklar, eiturlyfjabarónar o.s.frv. Án heimildarverndarinnar gæti heimildarmaður þurft að þola hefndaraðgerðir atvinnurekanda, stjórnvalda eða annarra sem hagsmuni hafa af því að upplýsingum sé haldið leyndum. Starfsöryggi hans og fjárhagslegt öryggi kann að vera í húfi eða traust yfirmanns, samstarfsfélaga og jafnvel vina og fjölskyldu. Þá kann upplýsingagjöfin að varða skaðabóta- eða refsiábyrgð og í einstaka tilvikum getur líf eða líkamlegt öryggi heimildarmannsins og fjölskyldu hans legið við.
Vernd heimildarmanna er hins vegar þess eðlis að hún getur ekki snúist eingöngu um það tiltekna mál sem er til meðferðar hverju sinni eða vernd og hagsmuni eins tiltekins heimildarmanns. Vernd heimildarmanna er púsl í stærri heild og varðar stærri hagsmuni. Afhjúpun heimildarmanns, jafnvel þótt um skúrk sé að ræða, getur haft alvarleg kælingaráhrif á heimildarmenn framtíðarinnar. Blaðamenn gætu ekki með sama öryggi lofað heimildarmanni sínum nafnleynd og þeir sem búa yfir upplýsingum sem varða almenning yrðu tregari til að miðla þeim til fjölmiðla. Fyrir vikið fengjum við ekki þær upplýsingar sem okkur ber til að lýðræðið geti fúnkerað. Heimildarverndin þarf umfram allt að vera traust og stöðug til að blaðamenn geti sinnt hlutverki sínu í lýðræðissamfélagi.
Þetta er grundvallarástæða þess að Hæstiréttur tók afstöðu með heimilarverndinni í Lekamálinu, þegar það kom til kasta Hæstaréttar að taka afstöðu til þess hvort blaðamanni yrði gert skylt að upplýsa um nafn heimildarmanns síns. Hagsmunir og persónuleg velferð tiltekins heimildarmanns eru í raun aukaatriði, enda snýst heimildarverndin, þegar upp er staðið, fyrst og fremst um lýðræðislegan rétt almennings til upplýsinga.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_10/42[/embed]
Vernd heimildarmanna blaðamanna í fimmtán liðum
Til að átta sig á í hverju heimildarverndin felst og hvernig hún fúnkerar þarf að líta til settra lagaákvæða, lögskýringagagna og dómafordæma, bæði Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu. Í stað þess að setja hér langa samansúrraða lögfræðitölu hef ég sett saman lista um meginþætti verndarinnar í fimmtán liðum.
1. Ákvæði um vernd heimildarmanna „á rót sína að rekja til ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um tjáningarfrelsi og byggist á þeim sjónarmiðum, að það sé almennt æskilegt og í samræmi við lýðræðishefðir, að almenningur fái að fylgjast með því, sem er að gerast í þjóðfélaginu“ (Hrd, 419/1995 Agnes Bragadóttir).
-
Blaðamönnum og öðrum starfsmönnum fjölmiðla er beinlínis óheimilt að gefa upp nafn heimildarmanns, án hans leyfis (25. gr. fjölmiðlalaga).
-
Brot gegn banni skv. 2. lið er refsivert og varðar sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum (56. gr. fjölmiðlalaga).
-
Þrátt fyrir almenna vitnaskyldu, er blaðamönnum og starfsmönnum fjölmiðla sem kvaddir eru fyrir dóm sem vitni í einkamáli óheimilt að svara spurningum um heimildarmann sinn (a. liður, 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála).
-
Þagnarskylda fjölmiðla samkvæmt 4. lið er fortakslaus og þrátt fyrir að dómari geti eftir atvikum ákveðið að aflétta þagnarskyldu annarra starfstétta t.d. félagsráðgjafa, sálfræðinga, presta, lögfræðinga, endurskoðenda o.fl. hefur dómari ekki heimild til að aflétta þagnarskyldu blaðamanns um heimildarmann sinn (b. liður 2. mgr. og 3. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála).
-
Þrátt fyrir almenna sannleiksskyldu þeirra sem kvaddir eru til vitnis í sakamálarannsóknum er fjölmiðlafólki óheimilt að bera vitni um nafn heimildarmanns (a. liður 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála).
-
Þagnarskyldu fjölmiðlafólks skv. 6. lið verður aðeins aflétt með ákvörðun dómara, að uppfylltum ströngum skilyrðum um knýjandi nauðsyn (3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála).
-
Þótt heimildarmaður hafi aflað upplýsinga með ólögmætum hætti, dugar það eitt og sér ekki til að rjúfa heimildarverndina (athugasemdir með 25. gr. fjölmiðlalaga, dómar MDE).
-
Heimildarverndinni verður ekki aflétt í þágu viðskiptahagsmuna (athugasemdir með 25. gr. fjölmiðlalaga, dómar MDE).
-
Trúnaðarbrot opinbers starfsmanns dugar ekki til að aflétta heimildarverndinni nema það teljist stofna öryggi ríkisins eða almennings í mjög mikla hættu (MDE í Ernst o.fl. gegn Belgíu, 15. júlí 2003).
-
Það skiptir ekki máli fyrir heimildarverndina hvað heimildarmanninum gekk til með upplýsingagjöfinni eða hvort hann hafði af henni sérstaka hagsmuni, enda væri það tekið fram í lögunum ef svo væri.
-
Heimildarverndinni verður ekki aflétt í þágu sakamálarannsóknar nema „í húfi séu mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vega augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðils af trúnaði við heimildarmann“ (Hrd. 403/2014 Lekamálið)
-
Heimildarverndinni verður einungis aflétt til að „koma í veg fyrir eða upplýsa alvarlegan glæp á borð við morð, nauðgun, mannrán, misnotkun barna, landráð eða sambærilega glæpi“ (athugasemdir með 25. gr. fjölmiðlalaga; MDE í Goodwin gegn Bretlandi, 27. mars 1996).
-
Það er blaðamannsins að meta hvort upplýsingar sem hann fær frá heimildarmanni eigi erindi til almennings (24. gr. fjölmiðlalaga og meginreglan um ritstjórnarlegt sjálfstæði).*
-
Blaðamaðurinn eða eftir atvikum ábyrgðarmaður fjölmiðils ber ábyrgð á því efni sem miðlað er, ekki heimildarmaðurinn (a. og c. liður 1. mgr. 50. og 51. gr. fjölmiðlalaga, Hrd. 403/2014 Lekamálið).*
*Það er óljóst af dómi Hæstaréttar hvort það skiptir máli fyrir heimildarverndina að upplýsingar eigi erindi til almennings. Það er hins vegar ljóst að Hæstiréttur telur fjölmiðilinn bera ábyrgð á því efni sem hann birtir og veltir upp þeirri spurningu hvort réttlætanlegt hafi verið af hálfu mbl.is að birta efni með viðkvæmum trúnaðarupplýsingum.
Stóra gloppan í heimildarverndinni
Í nýföllnum dómi Hæstaréttar er fólgið mikilvægt dómafordæmi um vernd heimildarmanna. Af dóminum má hins vegar greina alvarlega hættu sem að heimildarverndinni steðjar. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að lögreglan hafi aflað gagna um farsímanotkun tiltekinna ráðuneytisstarfsmanna og af gögnunum megi ráða að einn þeirra hafi átt nokkur samtöl við starfsmenn, blaðamenn og/eða fréttastjóra annars vegar Vísis og hins vegar Morgunblaðsins stuttu áður en fréttir um málið birtust á vettvangi téðra fjölmiðla. Þetta þýðir að lögregla aflaði þessara upplýsinga hjá fjarskiptafyrirtækjum beinlínis í þeim tilgangi að finna og bera kennsl á heimildarmann blaðamannsins.
Notkun fjarskiptagagna í þágu sakamálarannsókna er mun tíðari en ástæða er til og lög leyfa. Þessum rannsóknarúrræðum, hvort sem um er að ræða símhlustun, upptökur eða rannsókn annarra fjarskiptagagna, er ekki einungis beitt í alvarlegustu málum, eins og lög áskilja, heldur einnig í minniháttar málum. Þeim er beitt sem forvirkum rannsóknarheimildum, þau eru notuð til að fylgjast með samskiptum sakborninga og verjenda. Og nú er ljóst að þeim er beitt til að afhjúpa heimildarmenn blaðamanna. Samkvæmt dómafordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu er óheimilt að nota hjáleiðir sem þessar til að ljóstra upp um samband heimildarmanns og blaðamanns. Þetta er áréttað í athugasemdum með 25. gr. fjölmiðlalaga. Þar sem ljóst er að hjáleið þessi er notuð hér á landi er að engu orðin sú vernd sem útlistuð er í fimmtán liðum hér að framan. Það er viðfangsefni næstu greinar.
Höfundur er lögfræðingur, stjórnarmaður í IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi og starfsmaður þingflokks Pírata.