Ofan á allar ógnvekjandi furður heimsins eins og til að mynda hnattræna hlýnun, hrörnun vistkerfa, fellibylji, jarðskjálfta, eldgos og aðrar hörmungar, sem ætla mætti að teldust ríkulegar ástæður til að óttast möguleika barnabarna okkar að taka við – í besta falli – sæmilegum heimi foreldra sinna; nú þegar spár segja fyrir um að um þriðjungur allra dýrategunda sé að hverfa á braut haldi fram sem horfir, þá berast okkur fregnir um hjartnæmar aðferðir frænda okkar Færeyinganna til að hafa nóg að bíta og brenna.
Ein leið vina okkar í þessum erindagjörðum fólst nýverið í þeim glæsilega „gjörningi“ að smala saman svona sirkabát +1.400 háþróuðum einstaklingum úr flokki spendýra, sem vitað er að lifa í nátengdum fjölskyldum. Eins er vitað að þessi spendýr tala saman sín á milli. Og nefna jafnvel hvert annað með hljóðmerkjum. Rétt eins og Færeyingar gera, sem og við frændur þeirra Íslendingarnir. Jón og Jógvan og hvað eina.
Þessa slátrun segjast þeir framkvæma í nafni „hefðar“. Réttlætingin fyrir þessari villimennsku þeirra virðist enn fremur felast í því að öll dýrin hafi jú verið mænustungin með skjótum hætti og að slátrunin hafi þannig verið mannúðleg.
Aukinheldur að allt hold hafi verið nýtt. Þessi gjörningur fór fram mestan part á hafi úti, þar sem yfirvegaðir „karlmenn“ stungu vopnum sínum í holdið á stórum spendýrum í von um að drepa þau öll.
Það var og.
Allt er þetta bull og þvættingur.
Það er lukkulega engin þjóðleg hefð fyrir svona villimennsku. Færeyingar geta mögulega borið fyrir sig að hafa smalað grindhvölum í aldanna rás þegar minna var um bjargálnir.
Það eru löngu liðnir tímar. Þessir sömu Færeyingar geta keypt alls konar steikur hvenær sem er; Kengúrukjöt, hreindýrakjöt, nautakjöt, lambakjöt, kjúklinga og m.a.s. strútakjöt.
Þessir lukkuriddarar sem þykjast vera sjálfstæðir Færeyingar og gadda í sig þvesti og ket margra fjölskyldna af höfrungum eru einfaldlega hræsnarar.
Flestir eru þeir með Netflix og vafalítið fylgjast margir með „ðí kardashians“.
Færeyingar virðast einfaldlega ekki færir um að geta lifað af eigin rammleik. Danmörk borgar ótrúlegar fjárhæðir með þeim á ári hverju og hefur gert alla tíð.
Ef Færeyingum þykir tilhlýðilegt að slátra mörgum fjölskyldum háþróaðra spendýra til að hafa það sæmilegt, þá þykir mér eðlilegt að þeir sjái um sig sjálfir og jafnframt að Danir láti þá róa.
Sjáum til hvernig þeir spjara sig þá.