Það er ekki mikið leyndarmál að ég er mikill jafnréttissinni og ákveðin manneskja í því er kemur að því að berjast fyrir réttindum minnihlutahópa. Enda hefur það einhvern veginn alltaf verið eðlilegt fyrir mér. Ef ég á að vera hreinskilin finnst mér erfitt að skilja hvernig það er ekki eðlilegt en nýleg umræða hefur svo sannarlega gert mér grein fyrir því að það eru ekki allir á sama báti og ég.
Ég hef verið sérstaklega hávær í mínu samfélagi varðandi mannréttindi „hinsegin“ fólks (LGBTQIA+) en það er málefni sem stendur mér nær vegna fjölda vina sem eru partur af LGBTQIA+ samfélaginu. En þessi barátta mín og minna vina hefur vakið þær hugmyndir hjá ansi mörgum að sjálf sé ég lesbía. Mér stendur nú alveg á sama um það að fólk leyfi sér að giska á mína kynhneigð en ég skil ekki alveg þetta viðhorf að þú getir ekki staðið upp fyrir réttindum einhvers annars án þess að vera partur af hópnum sem staðið er upp fyrir. Af hverju þarf það að fylgja sögunni að þú haldir að ég sé lesbía? Geta hvítir ekki staðið upp fyrir svarta? Geta karlar ekki staðið upp fyrir konur? Getur gagnkynhneigð manneskja ekki barist fyrir réttindum samkynhneigðra? Getur manneskja ekki barist fyrir mannréttindum annarra?
Það vilja margir halda því fram að hómófóbía sé ekki lengur til í íslensku samfélagi. Svoleiðis afneitun gerir engum gott.
Sjálf langar mig allavega ekki búa í þannig heimi þar sem við berjumst ekki fyrir réttindum hvers annars. Mínir „hinsegin“ fjölskyldumeðlimir og vinir eiga ekki að þurfa að hlusta á og lifa með þessari þröngsýni sem gerir oft vart við sig í samfélaginu. Ekki reyna að lítillækka baráttu þeirra með því að segja „hún berst bara fyrir þessu því hún er pottþétt lessa.“ Það er ekki það sem skiptir máli og kynhneigð þess er berst fyrir málstaðnum er ekki meginatriðið - þínir fórdómar eru vandamálið.
Það vilja margir halda því fram að hómófóbía sé ekki lengur til í íslensku samfélagi. Svoleiðis afneitun gerir engum gott. Aðrir vilja meina að jöfnuðurinn sé „nægur“; að hómófóbían sé nógu lítil og þess vegna sé ekki þörf á umræðunni lengur. En hvenær er jafnrétti nógu mikið jafnrétti? Allavega ekki þegar það er ekki orðið að algjöru jafnrétti. Jafnrétti er aldrei „næstum því,“ það verður að vera algjört.
Það sem ég var mest vör við þegar baráttan gegn fordómum fór að gera vart við sig í mínu samfélagi, með stofnun Hinseginfélags í framhaldsskólanum, var hræðsla þeirra gagnkynhneigðu við að taka þátt í henni, þá sérstaklega með félaginu, en margir voru hræddir um það að ef þeir tækju þátt þá „munu allir halda að ég sé samkynhneigður líka“ - en mig langar að spyrja; væri það í alvörunni endirinn á heiminum? Skiptir meira máli að einhver viti að þú sért 100 prósent gagnkynhneigður en að hinsegin fólk hljóti réttindin sem þau eiga ekki einu sinni að þurfa að berjast fyrir? Sjáið þið ekki að þetta segir okkur bara hvað vandamálið er stórt - ef þið meikið það ekki að einhver gruni það að þið séuð hinsegin, hvaða skilaboð er þá enn þá verið að senda til hinsegin fólks? Við þurfum að útrýma þeirri hugsun að það sé eitthvað skrítið við það að vera ekki gagnkynhneigður og það sé endirinn á heiminum ef gagnkynhneigð manneskja er talin samkynhneigð.
„Jóna og Stína eru hjón“ ætti að vera alveg jafn eðlileg setning í kennslubók grunnskólanema og „Jón og Jón eru hjón.“
Hinsegin fólk er nefnilega ekki vandamálið. Hinsegin fólk eyðir ekki tíma sínum í það að mana upp fordóma í börnum og öðrum í kringum sig. Hinsegin fólk berst fyrir eigin mannréttindum, mannréttindum hvers annars og eru sérstaklega núna að berjast fyrir því að hinsegin börn muni ekki alast upp við það að þau séu öðruvísi, skrítin og ekki partur af hópnum eða samfélaginu. Það er ekki verið að biðja um mikið - það er ekki verið að biðja um neitt - það er bara verið að benda á það að jafnrétti ríkir ekki í okkar „fullkomna“ samfélagi og koma með hugmyndir um það hvernig skuli breyta því. Það eru réttindi hvers og eins að upplifa sig öruggt og samþykkt í sínu samfélagi. Leyfum komandi kynslóðum að vera laus við fordóma, þau fæðast nefnilega ekki með þá.
„Jóna og Stína eru hjón“ ætti að vera alveg jafn eðlileg setning í kennslubók grunnskólanema og „Jón og Jón eru hjón.“ Ef við gerum það að „norminu“ að það sé jafn eðlilegt að eiga tvo pabba eða tvær mömmur alveg eins og það er að eiga eina mömmu og einn pabba, þá útrýmir vandamálið sér sjálft og samkynhneigðir krakkar þurfa aldrei að upplifa sig öðruvísi og þar með mun þunglyndi og sjálfsvígshugsanir meðal hinsegin barna snarminnka, en sannleikurinn er sá að tíðni þeirra er ansi há. Þetta er svo augljós lausn og þetta er svo auðvelt, það eina sem við þurfum að gera er opna augun, sjá og framkvæma.
Höfundur er forseti nemendafélags Framhaldsskólans í Austur Skaftafellssýslu.