Loftslagsmálin verða að vera í brennidepli hjá næstu ríkisstjórn enda fékk mannkynið „rauða aðvörun“ í nýrri skýrslu IPCC eins og António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna orðaði það. Viðreisn mun berjast fyrir því að Ísland geri margfalt betur en fráfarandi ríkisstjórn lagði upp með sinni stöðnunarpólitík. Komist Viðreisn í ríkisstjórn myndi flokkurinn leggja áherslu á að ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum innihéldi tímasett markmið fyrir ár hvert svo hægt verði að veita stjórnvöldum aðhald og sjá til þess að staðið sé við stóru orðin. Það er ekki nóg að samdráttur í losun komi aðeins til vegna heimsfaraldurs.
Aðgerðir strax
Það er kýrskýrt í okkar huga að loftslagsáherslur verða að vera í forgrunni allrar ákvarðanatöku stjórnvalda. Líkt og við gerðum með jafnréttismálin. Við leggjum jafnframt áherslu á að Ísland helmingi heildarlosun (með landnotkun) á áratugsfresti og verði þannig við ákalli vísindasamfélagsins um að halda hlýnun innan 1,5C°.
Nýsköpun og græn störf
Alþjóðleg samvinna er lykilatriði í loftslagsmálunum t.d. með Evrópusambandinu. Nýsköpun í loftslagsgeiranum og græn störf innan hringrásarhagkerfisins þurfa að vera okkar ær og kýr ef við viljum taka stór skref inn í framtíðina. Íslendingar eiga töluvert langa sögu og mikla þekkingu á sviði tækniframfara í orkumálum. Tilkoma Carbfix, Carbon Recycling International og Climeworks hafa sýnt það skýrt að hér er frjór jarðvegur fyrir einhverjar framsæknustu hugmyndir heims á þessu sviði. Við eigum að þora að veðja á þessi mikilvægu fyrirtæki og hugsa stórt. Til viðbótar við sjálfbæra orkuvinnslu þarf að endurvinna fangað kolefni í nýjar vörur eða dæla því niður í berg. Þarna er mögulega „fjórða stoð hagkerfisins“ komin sem hefur verið leitað víða.
Brettum upp ermar og tökum stór skref strax!
Höfundur er formaður Viðreisnar.