Nú þegar myndin er tekist að skýrast enn frekar, varðandi losun fjármagnshafta, þá blasir við enn eitt jákvæða skrefið sem stigið er í endurreisninni á íslenska hagkerfinu eftir hrun fjármálakerfisins. Núna hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fengið sitt til baka og er farinn frá landinu, eftir góð störf í þágu Íslands. Það reyndist Íslandi vel að fá gjaldeyrislán frá sjóðnum. Icesave málið er úr sögunni, og losun fjármagnshaftanna er á næsta leyti. Skuldir hafa verið lækkaðar hratt, og hagkerfið hefur eflst. Þrátt fyrir pólitísk átök, sem eru fordæmalaus í sögu landsins, þá hefur þessi árangur náðst fram, og eiga stjórnmálamenn hrós skilið fyrir það.
Ríkið á 98 prósent í Landsbankanum og mun að öllum líkindum eignast allt hlutafé Íslandsbanka líka, samkvæmt tilboði kröfuhafa Glitnis. Hlutur ríkisins í Arion banka er þrettán prósent.
Nú er sem sagt að koma á daginn, að íslenska ríkið er að koma einkar vel út úr því, að hafa fengið kröfuhafana að borðinu og inn í hluthafahópinn, þegar bankarnir voru endurreistir eftir hið fordæmalaus hrun Kaupþings, Glitnis og Landsbankans dagana 7. til 9. október. Stóra myndin er sú, að ríkið er nú með almannahagsmuni í fanginu, og fjármagnshöftin hafa allan tímann tryggt það að kröfuhafar gætu ekki farið úr landi með ávinning úr kerfinu. Bankakerfið var endurskipulagt í samstarfi við kröfuhafa, og réttur Íslands var virtur til þess að stýra ferðinni þegar á reyndi.
Víglundur Þorsteinsson og Sigurður G. Guðjónsson hrl. hafa margítrekað sakað ráðamenn þjóðarinnar, þingmenn, ráðherra og embættismenn, um lögbrot við endurreisnina, og sagt að kröfuhafar hafi náð 400 til 500 milljörðum af heimilum og fyrirtækjum. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, var fengin til að fara yfir málið þegar þeir félagar höfðu komið því til þingsins með bréfi og skilaði skýrslu 17. febrúar síðastliðinn. Í henni tók Brynjar ekki undir ásakanir Víglundur um að svikum og blekkingum hefði verið beitt við endurreisn bankakerfisins til að gæta hagsmuna erlendra aðila. Það gerðu raunar fæstir, sem höfðu kynnt sér málið.
Það er kannski til of mikils mælst að þeir félagar biðjist afsökunar á frumhlaupi sínu, nú þegar ríkið er að fara eignast stóran hluta af þessum „ávinningi“, sem kröfuhafarnir höfðu reyndar aldrei tök á því að borga til sín. En þeir gætu kannski breytt aðeins um tón á blaðamannfundum sínum, og verið með uppistand í staðinn fyrir fullyrðingar um að nafngreint fólk út í bæ væri að fremja lögbrot gagnvart almenningi.
Hlutdeild ríkisins í eigin fé endurreista bankakerfisins, ef til yfirtöku á öllu hlutafé Íslandsbanka kemur, verður um 463,6 milljarðar króna, eða nálægt tveimur þriðju af öllu eigið fé í fjármálakerfinu. Þetta er góð staða til að byggja á fyrir framhaldið, og býður augljóslega upp á tækifæri til hagræðingar og styrkingar á fjármálakerfi, sem hefur almannahagsmuni að leiðarljósi.