Barnafjölskyldum og ungu fólki á leigumarkaði eru send skýr skilaboð í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016. Þau geta farið og búið við margfalt meira öryggi í nágrannalöndum okkar. Ekkert á að gera til að halda í þennan hóp eða reyna að laða þá heim sem þegar eru farnir. Samkeppni um mannauðinn er grimm og eina leiðin til að standast hana er gera ungu fólki kleyft að byggja sér framtíð hér á landi.
Barnabætur byrja áfram að skerðast við 200 þúsund króna markið og hjón með eitt barn og tekjur yfir 410 þúsund á mánuði fá engar barnabætur. Barnabæturnar eru langt frá því að fylgja verðlagsþróun síðustu ára. Fæðingarorlofið verður í sömu lægð og það var þegar dýpsta efnahagskreppan gekk yfir, engar verðlagshækkanir á greiðsluþaki og engin lenging. Áfram á að útiloka 25 ára og eldri frá framhaldsskólunum án þess að bjóða sambærilegan valkost í staðinn. Fólki er beint í frumgreinanám þar sem há skólagjöld eru innheimt.
Þegar litið er svo undir glansmyndina um 2,6 milljarða framlag til húsnæðismála kemur í ljós að fjármagna á málaflokkinn að stærstum hluta með því að ýta meðaltekjufólki út úr vaxtabótakerfinu. Frysting tekjuviðmiða, ásamt með hækkandi launum og lækkandi skuldastöðu heimilanna mun lækka útgjöld ríkisins til vaxtabóta um 1.500 milljónir. Allir þeir sem tekið hafa lán frá hruni hafa reiknað með vaxtabótum til að standa undir greiðslubyrði. Þeim er nú ýtt út úr því stuðningskerfi. Var einhver að tala um forsendubrest?
Ungt fólk á leigumarkaði getur ekki keypt og festist margt hvert í fátæktargildru vegna hárrar leigu og getur ekki sparað fyrir útborgun í íbúð. Ríkisstjórnin hefur ekki efnt loforð um að hækka húsaleigubætur um 400 milljónir króna til að mæta neikvæðum áhrifum af hærri matarskatti. Nýtt framlag ríkisins til að leysa húsnæðisvandann eru 700 milljónir króna þegar allt er tekið saman. Sú upphæð dugar til að kaupa íbúðir í einum stigagangi.
Við í Samfylkingunni viljum stöðva flóttann frá landinu og laða fólkið okkar heim. Til þess verða að verða til þekkingarstörf á Íslandi, sem skila sambærilegum tekjum og í nágrannalöndunum. En það þarf líka að vera jafn tryggt umhverfi fyrir ungt fólk hér og í nágrannalöndunum. Ef húsnæði er hér dýrt og óöruggt og opinber stuðningur við barnafjölskyldur miklu minni en í nágrannalöndum mun flóttinn halda áfram. Við verðum að snúa þessari þróun við.